Grein um rósroða

Grein um rósroða

Prenta

Hvað er Rósroði?
Rósroði er langvinnur húðsjúkdómur sem veldur roða og bólgu, aðallega í andliti. Hann getur þó einnig komið annarsstaðar ss. í hársvörð, háls, eyru,brjóst og bak. Þeir sem hafa Rósaroða verða fyrst varir við tilhneigingu til að roðna auðveldlega ( flushing ) td. í líkamsrækt, við hita/kulda breytingar eða áfengi.
Það fer síðan versnandi með tímanum og veldur því oft að á mismunandi löngum tíma verður viðkomandi stöðugt rauður og fær oft bólur og æðar verða áberandi, sérstaklega í andliti. Hverjir fá Rósaroða Fullorðnir, sérstaklega milli 30 – 50 ára sem hafa ljósa húð, eru ljóshærðir og bláeygðir eru liklegastir til að fá Rósaroða. Börn og folk með dekkri húðgerðir geta þó fengið Rósaroða. Ekki er vitað hve margir á Íslandi hafa Rósaroða en líklegt er að þeir séu amk. milli 15 og 20 þúsund.

Rósroði er oft algengari í ákveðnum fjölskyldum og er algengari hjá konum. Karlmenn fá hins vegar oft verri Rósaroða. Hjá konum verður aukinn roðatilhneiging ( flushing ) oft áberandi kringum tíðarhvörf. Dæmi um þekktan einstakling með Rósaroða er Bill Clinton fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.


Andleg áhrif
Andleg áhrif á þá sem hafa Rósaroða eru oft mikil. Í könnum fannst nærri 70% einstaklinga sjúkdómurinn minnka sjálfstraustið og 41% sagði að sjúkdómurinn ylli því að það forðaðist að hitta að aðra og stunda félagslíf.

Orsakir
Orsakir Rósaroða eru óþekktar. Hins vegar telja flestir sem hafa rannsakað þennan sjúkdóm að erfðir og umhverfisáhrif skipti mestu máli. Eitthvað sem veldur æðavíkkun sem síðan veldur roðaköstum og þeim roða í andliti sem einkennir Rósroða. Demodex folliculorum er maur sem lifir í hársekkjum getur mögulega skipt máli með því stífla fitukirtla og valda bólgu. Sumir teja að bakterían sem veldur magabólgu Helicobakterium pylori gæti haft áhrif. Einnig er mögulegt að ónæmiskerfið skipti máli í þessu sambandi.

Einkenni
Oft tekur viðkomandi fyrst eftir því að hann roðnar ( flushing ) auðveldlega. Þetta vandamál fer síðan versnandi á mismunandi löngum tíma og að smám saman verður viðkomandi stöðugt rauður með áberandi æðaslit í andliti og stöðuga bólumyndun bæði rauðar bólur og graftrarbólur. Roðinn líkist oft sólbruna og verður vegna þess að blóðflæði eykst hratt og æðarnar víkka til að taka við blóðinu. Sumir taka eftir að húðin verður þurrari. Hnúðar geta komið á nefið og það stækkar. Þetta er kallað Rhinophyma. Þeta er algengara hjá karlmönnum með Rósaroða. Talsverð vanlíðan í húð getur fylgt Rósaroða, brunatilfinning í húð, stingir eða kláði. Sjúkdómurinn hefur áhrif á augun hjá um 50% af þeim sem hafa Rósaroða. Sumir sem fá Rósaroða fá ekki einkenni í andlit heldur á aðra líkamshluta td. bak. Einkenni eru mismunandi hjá þeim sem hafa Rósaroða og eru oft mismunandi slæm. Þegar sjúkdómurinn er langt genginn er mun erfiðara að meðhöndla hann. Þess vegna er mikilvægt að koma sem fyrst til húðlæknis.

Meðferð
Ef þig grunar að þú hafir Rósaroða er best að fara til húðlæknis eins fljótt og hægt er. Því fyrr sem meðhöndlun er hafin því auðveldara er að ná tökum á einkennunum. Með því að byrja meðferð snemma eru minni líkur á æðastækkun og æðaslitum og Rhinophyma. Ekki er hægt að lækna Rósaroða. Hins vegar er margskonar meðferðir til að minnka einkennin. Rannsókn hefur sýnt að 87% af sjúklingum fannst þeir ráða vel við sjúkdóminn þegar þeir fengu meðferð.

Þau lyf sem notuð eru geta bæði verið: Útvortis lyf og inntökulyf. Útvortis lyf: Minnka fof. bólur. Dæmi um útvortis lyf eru Azelic sýra, Bensoyl peroxið, Clindamycin, Eryhromycin, Metronidazol, Sulafacetamið og Sulfur áburðir. Þessi lyf eru lengi að hafa áhrif og það er mikilvægt að vera þolinmóður meðan beðið er eftir árangri. Ávaxtasýrur geta stundum haft góð áhrif sérstaklega þegar þær eru notaðar með inntökulyfjum. Inntökulyf: Eru fljótari að verka en útvortis lyf. Sýklalyfin Doxycyklin, Erythromycin, Minocyklin, Tetracyklin. Isotretinoin ( Decutan ) er notað í erfiðustu tilfellunum. Við augnvandamál er best að hreinsa augnlok með þynntu barnasjampói og nota volgar grisjur mörgum sinnum á dag. Stundum þarf að gefa lyf og þá oftast sýklalyf. Erfiðast er að meðhöndla roðann og roðaköstin. Meðferðin sem nefnd er að ofan hefur hefur ekki áhrif á þetta og getur ekki fjarlægt æðaslitin.

Almennt til að minnka roðaköst
Forðist að nugga, nudda eða skrúbba andlitið. Það ertir húðina í andliti og Rósaroða húð þolir það illa. Notið milder sápur, rakakrem og sólvörn. Forðist heita drykki, kryddaðan mat og áfengi. Verndið húðina fyrir sól með sólarvörn með SPF 15 eða hærri. Reynið að láta húðina hitna ekki of mikið. Forðist heit böð og sturtur. Verndið húðina gegn miklum kulda sem ertir húðina. Notið ekki snyrtivörur sem innihalda efni sem erta húðina ss. Alkohól eða ilmefni. Varist að fá hárspray í andlitið. Munið að það sem veldur versnun hjá einum einstakling getur þolast af öðrum. Haldið dagbók yfir mat, lyf, hreyfingu og annað til að finna út hvað veldur versnun hjá þér.

Lasermeðferð
Til þess að meðhöndla roðann og æðaslitinn eru notað Intensive pulsed light ( IPL ) eða laser. Á húðlaser stöðinni Smáratorgi er notað IPL. Mikil reynsla er komin á þessa meðferð enda hefur Húðlaserstöðin langa reynslu af þessari meðferð en hún hefur verið notuð síðan 1998. Reglulega hefur verið skipt um tæki og ávallt eru notuð bestu tæki sem völ er á. Þetta eru tæki sem eingöngu eru seld sérhæfðum læknum.

Læknarnir sem sjá um meðferðina eru þeir reynslumestu á landinu sumir með 20 ára reynslu af IPL og lasermeðhöndlun. IPL eyðileggur sérhæft þær æðar sem eru víkkaðar og valda roðanum og roðaköstunum í Rósaroða. Endurteknar meðferðir með IPL eru nauðsynlegar til að ná tilætluðum árangri. Viðhaldsmeðferð getur líka verið nauðsynleg til að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur.