Öldrun húðarinnar

Mikil framþróun hefur orðið síðastliðin ár varðandi skilning okkar á öldrun húðarinnar og birtar hafa verið vandaðar vísindagreinar. Í stuttu máli er húðin okkar gerð úr þremur lögum sem vinna svo saman til að viðhalda heilbrigði hennar. Ysta lagið, eða yfirhúðin (e. epidermis), er það sem við sjáum. Þar fyrir neðan er svo leðurhúðin (e. dermis) og innsta lagið nefnist undirhúð (e. subcutaneous fat).

Picolaser
Andlitskrem
Skinceuticals
Kynningarmyndbönd

Húðin er mjög virkt líffæri þar sem hún samanstendur ekki einungis af húðfrumum, heldur einnig svitakirtlum, fitukirtlum, taugum, æðum og frumum ónæmiskerfisins. Ung húð er mjög teygjanleg og heldur raka vel. Þar leika þrjú prótín meginhlutverk: elastín, kollagen og glúkósamynoglykanar, en öll eru þau staðsett í leðurhúðinni (e. dermis):

Kollagen er helsta og mikilvægasta byggingarprótein bandvefja líkamans og viðheldur fyllingu og þéttleika húðarinnar.

Elastín viðheldur teygjanleika húðarinnar þannig að þó að það sé potað í hana nær húðin flótt upprunalegri stöðu.

Glúkósamynoglykanar, eins og t.d. hýalúrónsýra, eru mjög rakabindandi. Þeir viðhalda þannig raka húðarinnar og þar af leiðandi þéttingu hennar. Einnig örva þeir nýmyndun kollagens og koma í veg fyrir niðurbrot þess.

Með aldrinum töpum við elastíninu, kollageninu og hýalúrónicsýrunni í leðurhúðinni ásamt fitunni í undirhúðinni. Fínar línur og jafnvel hrukkur myndast, þéttleiki og teygjanleiki minnka, húðin verður þynnri og fer að hanga eða síga þar sem fyllingu vantar.

Öldrun húðar er flókið líffræðilegt ferli sem bæði innri og ytri þættir hafa áhrif á. Innri áhrifaþættir eru þeir sem stuðla að náttúrulegri öldrun, eins og t.d. erfðir, en ytri þættir eru þeir sem eru afleiðing að lífstíl hvers og eins. Ekki er hægt að breyta erfðum manna en það er hægt að breyta lífstílnum og með því að lifa heilbrigðu lífi er hægt að koma í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar. Langmikilvægasti þátturinn þar er að forðast og verjast sólinni en einnig borða hollan mat, hreyfa sig reglulega, sofa nóg, draga úr streitu og forðast reykingar.

Við sólarljós, jónandi geislun og umhverfismengun losna sindurefni sem smám saman valda skaða í frumum húðarinnar sem koma svo fram með árunum sem útlitsbreytingar, einkum á þeim svæðum sem eru óvarin fyrir sólarljósi, eins og andliti, hálsi og höndum. Húð sem orðið hefur fyrir miklum sólarskemmdum einkennist af þykkri yfirhúð, djúpum hrukkum, hvítum og brúnum flekkjum (e.lentigo senilis) og er líflaus og gróf. Áætlað er að 90% þeirra breytinga í húðinni sem við álítum tilkomnar vegna öldrunar séu í raun vegna skemmda af völdum sólarljóss (ljósskemmda = e. photodamage). Það er því mikilvægt að forðast sólina og komst hjá sólarskemmdum. Rannsóknir hafa sýnt að það er nægjanlegt að vera 15-30 mínútur í sólinni án sólarvarna til að fá þann D-vítamin skammt sem líkaminn þarfnast. Að liggja í sólbaði heilan dag, þótt það sé með sólarvörn, er álíka heilsuspillandi og að reykja heilan pakka af sígarettum á dag. Allt er gott í hófi, útivist og útivera er holl og góð en þá er mikilvægt að nota sólarvörn með minnst 30 í SPF faktor og eins hlífa húðinni frá geislum sólarinnar með því að klæðast léttum fötum.

Hér eru nokkur góð ráð til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar:

● Forðastu að vera of lengi í sólinni, einkum þegar hún er hæst á lofti (á milli kl. 10 og 16). Útfjólubláir geislar hraða verulega á öldrun húðarinnar. Notaðu sólarvörn með minnst 30 í SPF faktor.
● Ekki fara í ljósalampa. Þeir eru aðallega UVA geislar sem ýta verulega undir öldrun húðarinnar og auka einnig hættu á sortuæxli.
● Ekki reykja!
● Fáðu nægan svefn og dragðu úr streitu ef hún er til staðar. Rannsóknir hafa sýnt að þessir tveir þættir skipta miklu máli til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar.
● Notaðu rakakrem daglega.
● Drekktu vatn og borðaðu hollan mat.

Picolaser

Picolaser er nýjasti laserinn á markaðnum og sá langöflugasti. Hægt er að nota hann á ýmsan hátt, eins og t.d. til að fjarlægja húðflúr, en það er líka hægt að nota hann til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar og leiðrétta öldrunarbreytingar sem eru þegar komnar fram (e. skin rejuvenation). Þetta er er kjörin meðferð fyrir þá sem vilja ekki sprautumeðferðir, eins og meðferð á hrukkum með vöðvaslakandi efni og fylliefni, en líka vel hægt að nota þessa meðferð samfara öðrum meðferðum.

Hvernig virkar picolaser og af hverju er hann betri en hefðbundin lasertæki?

Ljósgeisli fer djúpt ofan í leðurhúðina, hitar hana upp og örvar bandvefsfrumur (e. fibroblasts) til að mynda kollagen og byggja þannig upp bandvefinn. Við það þéttist húðin og fínar línur og hrukkur mildast, ásamt því að húðin fær fallegra yfirbragð og meiri gljáa. Ljósgeislinn fer á leifturhraða niður í húðina, eða á picósekúndu, sem er trilljónasti hluti úr sekúndu. Eldri lasertæki til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar, eða það sem snyrtistofur kalla andlitslyftingu, eru svo kallaðir nanó-laserar sem fara á nanósekúndu í húðina, sem er milljónasti hluti úr sekúndu. Þessi mikli hraðamunur sem picolaserinn býður upp á gerir meðferðina bæði áhrifameiri og einnig sársaukaminni en meðferðir með eldri nanó-tækni.

Hvernig fer meðferðin sjálf fram?

Meðferðarhausinn er lagður á húðsvæðið sem á að meðhöndla og hleypt af. Bæði sést ljósglampi og svo heyrist hljóðmerki. Algengt er að finna fyrir skammvinnri hitatilfinningu þegar skotið ríður af og vægan sársauka Tækið sendir geisla af ákveðinni bylgjulengd inn í húðina, orka geislans losnar í húðinni og örvar þannig bandvefsfrumur.

Hvað gerist eftir meðferðina?

Oftast er töluverður roði og jafnvel bólga í húðinni í 2-3 daga. Mjög misjafnt eftir einstaklingum. Árangur getur komið í ljós eftir einungis nokkrar vikur en hámarksárangri er oft ekki náð fyrr en eftir hálft ár þar sem bandvefurinn sem örvast getur verið mjög lengi að taka við sér. Við mælum með góðum rakakremum eftir meðferðina og svo virkum kremum sem fyrirbyggja öldrun húðarinnar fyrir og eftir meðferð. Ráðlegt er að hætta að nota þessi virku krem, t.d. retinóíða og AHA-sýrukrem, viku fyrir meðferðina. Forðast skal beint sólarljós (að meðtöldum ljósabekkjum) 2 vikum eftir meðferðina. Mælt er með þremur skiptum til að ná hámarksárangri, og þá láta líða 4-6 vikur á milli meðferða. Árangurinn getur verið góður í nokkur ár en þar sem þetta er meðferð til að hægja á öldrun húðarinnar mælum við með viðhaldsmeðferð einu sinni á ári.

Andlitskrem

Góð rakakrem gera mikið til að auka raka og heilbrigði húðarinnar. Þau ættu allir að nota að staðaldri og velja rakakrem eftir húðgerð. “Cosmeceuticals“, eða virkar húðvörur, eru aftur á móti húðvörur sem gera meira en hefðbundin rakakrem þar sem þær innihalda virk efni sem byggja upp húðina, vinna gegn öldrun húðarinnar og hjálpa til við að lagfæra frumuskemmdir ef þær eru til staðar. Þar sem þessar vörur eru yfirleitt flokkaðar sem snyrtivörur en ekki lyf gilda engar reglur um styrkleika þeirra og lítið eftirlit er með framleiðslu þeirra. Framleiðendur þeirra þurfa einnig þurfa ekki heldur að sýna fram á árangur í klínískum rannsóknum en sú krafa er ávallt gerð þegar kemur að lyfjum. Markaðssetning varanna er mjög öflug og ýmis stór orð látin falla um vörurnar, eins og að fínar línur og hrukkur hverfi, og því auðvelt að freistast til þess að kaupa eitthvað sem virkar jafnvel ekki meira en hefðbundin rakakrem.

Oft spyrja sjúklingar Húðlæknastöðvarinnar að því hvaða krem á að nota. Læknar Húðlæknastöðvarinnar  mæla ekki með vörum sem er ekki búið að sýna fram á að virki með góðum og vönduðum klínískum rannsóknum. Það getur því verið mjög flókið, bæði fyrir sjúklinginn og húðlækninn, að finna út hvað er góð vara og hvað ekki.

Til þess að bæta úr þessu hafa húðlæknarnir á Húðlæknastöðinni sett upp húðumhirðupýramída til þess að leiðbeina sjúklingum okkar við val á húðvörum1. Undanfarin ár hefur orðið mjög mikil framþróun í þessum vísindum þar sem margar rannsóknir hafa verið birtar og þar af leiðandi hefur þekkingin aukist verulega. Þessi pýramídi er ætlaður til að hjálpa bæði sjúklingum og húðlæknum við að velja réttu vörurnar þar sem allra mikilvægasti þátturinn er sólarvörnin og svo vörur sem hjálpa til við að lagfæra frumuskemmdir í húðinni sem eru þegar til staðar.

Markmið okkar er þríþætt:

1. Veita fræðslu varðandi áhrif sólarinnar á húðina og val á sólarvörnum eftir húðgerð.

2. Leiðbeina sjúklingum okkar varðandi val á réttum raka út frá húðgerð og ef húðsjúkdómur er til staðar.

3. Leiðbeina sjúklingum varðandi val á virkum húðvörum til að byggja upp húðina, leiðrétta frumuskemmdir og fyrirbyggja öldrun húðarinnar

1. Undirstaðan í umhirðu húðarinnar (verndandi og fyrirbyggjandi)

Öllum sem er annt um húðina og heilbrigði hennar þurfa að verja hana gegn sólinni og sindurefnum (free radicals) í umhverfinu. Sólargeislarnir og sindurefnin, eins og frá reykingum og loftmengun, skaða erfðaefni (DNA) húðfrumanna og valda þannig skemmdum í húðinni og í versta falli húðkrabbameinum. Hvernig getum við varist því? Þar er sólarvörnin án efa langmikilvægust, en einnig hafa andoxunarefni sýnt fram á gildi sitt.

A. Sólarvarnir: Okkar náttúrulega innbyggða vörn er að nota andoxunarefni, eins og C- og E-vítamín, en þau duga oftast ekki til. Sólarvörn með háum SPF faktor er því mjög mikilvæg viðbót og hafa rannsóknir sýnt að til að fá góða vörn þarf hún að vera með minnst 30 í SPF faktor, en helst 50 eða hærri. Sólarvörn ver húðina mjög vel gegn B-geislum sólarinnar (UVB) og veitir einhverja vörn gegn A-geislunum (UVA). Sólarvörn veitir aftur á móti enga vörn gegn innrauðum geislum sólarinnar né gegn sindurefnum umhverfsins. Það er því mikilvægt að hugsa um sólarvörn sem viðbót við aðra vörn okkar gegn sólinni, eins og að standa í skugga og vera í léttum fötum.

B. Andoxunarefni: Sólarvarnir eru ekki andoxunarefni og verja okkur því ekki gegn sindurefnum umhverfisins. Frumrannsóknir á húðkrabbameinum og hvernig við getum komið í veg fyrir þau sýndu fram á að andoxunarefni, eins og C-vítamín, verja húðina gegn frumuskemmdum af völdum sindurefna. Viss andoxunarefni í réttum styrkleika geta einnig örvað kollagenmyndun, dregið úr myndun fínna lína og hrukka og litabreytingum. Þau eru:

      1. C-vítamín
      2. E-vítamín
      3. Ferulic acid – unnið úr hveitibyggi
      4. Phloretin – unnið úr eplum
2. Uppbyggjandi (Correct)

Retinóíðar:

A-vítamínsýra er án efa áhrifaríktasta lyfið gegn öldrun húðarinnar og með bestu vísindarannsóknirnar á bak við sig. Dæmi um A-vítamínsýrulyf er Aberela og Differin. Retinóíðar eru aðeins vægara form af A-vítamínsýru en eru einnig öflug krem og má oft finna í virkum húðlínum eins og SkinCeuticals. Þar eru þau oft í mismunandi styrkleikum, t.d. 0,3%, 0,5% og 1%. Mikilvægt er að auka skammtinn rólega þar sem um mjög virk efni er að ræða. Retinóíðar örva bandvefsfrumur leðurhúðarinnar til að mynda bæði kollagen og elastín, minnka sýnileika fínna lína, hrukka og svitahola (e. pores) ásamt því að draga úr litabreytingum. Einnig hafa nýjustu rannsóknir sýnt að retinóíðar draga úr öramyndun eftir bólur.

Í upphafi meðferðar kemur venjulega fram húðroði og húðin getur orðið þurr og skrælnuð, en þetta gengur venjulega yfir. Best er að nota lyfið eingöngu á kvöldin. Ef vart er mikils roða í byrjun meðferðar er best að nota lyfið þriðja hvert kvöld, en auka síðan eftir því sem lyfið þolist betur. Ef mjög mikill roði kemur fram í byrjun meðferðar má þvo lyfið af eftir 2–4 klst, en auka þennan tíma smám saman. Þeir sem verða mjög þurrir geta reynt að nota létt rakakrem áður en lyfið er borið á. Húðin verður næmari fyrir sólinni þegar retinóíðar eru notaðir og því ekki ráðlagt að nota þessi krem í sól.

Ávaxtasýrur (e.AHAs):

Alpha hydroxy acids (AHAs) eða ávaxtasýrurnar lactic acid og glycolic acid, hafa sýnt fram á virkni sína í vísindarannsóknum til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar (e. anti-aging). Þær auka magn hýalúrónsýru í leðurhúðinni sem er mjög rakabindandi og auka þar með þéttleika húðarinnar svo að fínar línur verða minna áberandi. Einnig hafa þær sterka virkni í að fjarlægja dauðar húðfrumur af ysta lagi húðarinnar (e.peel eða exfoliative), sem eykur þá gljáa og frískleika húðarinnar ásamt því að greiða leiðina fyrir rakakrem til að komast djúpt í húðina. Þær, líkt og retinóíðar, örva einnig bandvefsfrumur til að mynda kollagen og elastín.

Þessar AHA-sýrur eru í kremum frá Neostrata, þá í styrkleika 10%, 15% og 20%. Einnig eru þessar sýrur notaðar í virkum „medical peel“ en þá er byrjað í 35% og svo farið upp í 50% eða 70%. Í upphafi meðferðar kemur venjulega fram húðroði, sviða- eða brunatilfinning, en það gengur venjulega yfir. Ef  mikils roða verður vart í byrjun meðferðar er best að nota lyfið eingöngu á kvöldin, en auka síðan eftir því sem lyfið þolist betur. Húðin verður næmari fyrir sólinni þegar AHA-sýrur eru notaðar og því ekki ráðlagt að nota þessi krem í sól.

Þar sem þetta eru mjög virk krem þá er mikilvægt að auka varlega við skammtana og þeir sem eru með viðkvæma húð eða virka húðsjúkdóma ættu ekki að nota þessi krem. Mikilvægt er að koma í viðtal til húðlæknis áður en meðferð er hafin.

3. Fínstilling (Peptíð og vaxtarþættir)

Mikil framþróun hefur orðið í snyrtivörum og virkum húðvörum (e.cosmoceuticals) hin síðari ár og það nýjasta hefur verið þróun peptíða og vaxtarþætta. Flestir Íslendingar kannast við EGF dropana frá BioEffect en í þeim eru einmitt vaxtarþættir sem hafa verið þróaðir fyrir húðvörur. Fjölmargar rannsóknir eru í vinnslu og þekkingin er alltaf að aukast. Þess vegna köllum við þessar vörur „fínstillingu“ (e. optimize) þar sem þær virðast hafa þó nokkra virkni gegn öldrun húðarinnar en fleiri rannsókna er þörf.

Ávaxtasýrukrem – SkinCeuticals

Læknar Húðlæknastöðvarinnar vinna mikið með öldrun húðarinnar og fyrirbyggingu öldrunar. Boðið er upp á öflugar vísindalega sannaðar meðferðir eins og t.d. lasermeðferðir, örnálameðferðir, medical peel og fleira. En það er ekki nóg að mæta bara í meðferðirnar heldur er lykilatriði að sinna húðinni vel bæði fyrir og eftir meðferðirnar svo hámarksárangur náist. Læknar stöðvarinnar hafa lengi leitað að virkum, vönduðum húðvörum sem virka gegn öldrun húðarinnar,  sem hafa góðar vísindalegar rannsóknir á bak við sig og henta starfsemi stöðvarinnar. SkinCeuticals vörurnar uppfylla öll þau skilyrði.

SkinCeuticals eru háþróaðar húðvörur byggaðar á vísindarannsóknum bandaríska húðlæknisins Dr.Sheldon Pinnel. Hann var frumkvöðull í rannsóknum á andoxunaráhrifum C-vítamíns á húðina og kom þeirra fyrsta vara á markaðinn árið 2005: andoxunardroparnir C E Ferulic. Sú vara hefur verið þeirra allra vinsælasta vara frá upphafi. Húðlínan þeirra gengur út á þrennt (three step anti-aging solution):

  1. Fyrirbyggjandi (prevent)
  2. Verndandi (protect)
  3. Uppbyggjandi (correct)

Húðvörurnar innihalda virk efni sem fyrirbyggja öldrun húðarinnar (e.anti-aging), eins og retinolum og glycolicsýru, og eru því aðeins fáanlegar á læknastofum sem hafa sérþekkingu í húðlæknisfræði eins og á Húðlæknastöðinni.

Hér fyrir neðan má sjá meðferðarplön frá SkinCeuticals sem við mælum með út frá þinni húðtýpu:

Myndbönd 
Hafðu samband

Hægt er að bóka tíma hjá lækni
frá kl. 9:00 – 12:00 og 13:00 – 15:30
Sími 520 4444

Ljósameðferð
Sími 520 4408

Sendu okkur tölvupóst
timabokun@hls.is

 

Spjallaður við okkur á
Facebook Messenger

    Húðlæknastöðin

    Smáratorg 1,
    201 Kópavogur,
    Iceland

    Opið virka daga
    8:00 – 16:00

    Skiptiborð er opið
    9:00 – 12:00
    13:00 – 15:30

    © Húðlæknastöðin ehf. – Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans – Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd