Ráðleggingar varðandi notkun Retinóls, Differin, Tretinoin 0.5% eða Airol til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar (anti-aging)

Ráðleggingar varðandi notkun Retinóls, Differin, Tretinoin 0.5% eða Airol til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar (anti-aging)

Prenta

Retinóíðar eru A-vítamín sýrur sem hafa margvíslega virkni. Þessi efni eru grunnurinn í öflugum bólumeðferðum því þau minnka fituframleiðslu í fitukirtlunum, fækka fílapenslum og taka burtu dauðar húðfrumur sem geta stíflað kirtla ásamt húðfitu. Hins vegar gera retinóíðar svo miklu meira en bara þetta.  A-vítamín sýran binst viðtökum í kjarna húðfrumna sem meðal annars veldur því að umsetning eða endurnýjun þeirra verður hraðari.  Þess vegna upplifa langflestir að húðin flagnar aðeins í byrjun meðferðarinnar þar sem húðin er að endurnýja sig. Þetta tímabil gengur yfir á nokkrum vikum. Þessi hraða endurnýjun á húðinni leiðir svo til að áferð húðarinnar verður sléttari og fínar línur verða grynnri. Auk þess geta litabreytingar orðið minna sjáanlegar sem og ör í húðinni. Að lokum örvar efnið nýmyndun kollagens en kollagen er eitt aðal byggingarefni húðarinnar en það byrjar að minnka í húðinni okkar upp úr 25 ára aldri. A-vítamín krem eru besta mögulega ,,anti-aging” meðferð í kremformi á markaðnum í dag og engin önnur krem hafa sýnt fram á eins mikinn árangur gegn hrukkum og ótímabærri öldrun húðarinnar. Ókostur þessarrar meðferðar er sá flestir þurfa að venja húð sína við efnið á löngum tíma og að kremið getur valdið ertingu á húðinni.  Árangur meðferðarinnar sést oft ekki fyrr en eftir margra mánaða notkun, en þó sést oft ljómi og betri áferð á húðinni eftir 6-8 vikur. Flestir eru svo aftur farnir að sjá verulegan mun á húðinni eftir 6-12 mánaða meðferð. Þolinmæði er þess vegna lykillinn að góðum árangri. 

Retinóíðar eru sterk og virk krem og notkun þeirra þarf að trappa upp varlega.  Sumir eru með sterka húð og þola hraðari upptröppun en hér eru leiðbeiningar sem virka vel fyrir flesta:

Vika 1-2: Notist þriðja hvert kvöld

Vika 3-4: Notist annað hvert kvöld

Frá viku 5: Notist á hverju kvöldi

Ef húðin er mjög viðkvæm er mælt með því að byrja á meðferðinni 2x í viku og dvelja 3-4 vikur á hverju stigi í upptröppununni.

Athugið að bera kremið/gelið á hreina húð og í þunnu lagi. Ekki fara nálægt augum og munnvikum þar sem húðin þar er mjög viðkvæm. Ef upp kemur erting í húðinni með roða, sviða eða brunatilfinningu, má prófa að bera rakakrem á húðina 30 mínútum áður og 30 mínútum eftir meðferðina. Ef það dugar ekki til, þá þarf að hægja enn frekar á upptröppuninni.

Athugið að kremið eykur ljósnæmni húðarinnar og því ætti að lágmarka dvöl í sól (þar með talið ljósalömpum) á meðan á meðferð stendur.  Ráðlagt er að nota sólarvörn frá snemmvori til hausts . Dæmi um góða sólarvörn fyrir eru Eucerin Mattifying Fluid SPF 50 (fæst í öllum apótekum), La Roche Anthelios XL Anti-Shine Dry Touch SPF 50+ (fæst í Lyfjaveri Suðurlandsbraut) og sólarvarnirnar frá SkinCeuticals (fást hjá okkur á Húðlæknastöðinni) sem eru til bæði án lits (Ultra Facial Defense SPF 50+) og með lit (Mineral Matte UV Defense SPF 30 eða Mineral Radiance UV Defense SPF5 50).

Auk þess er mikilvægt að forðast þungun á meðan á meðhöndlun stendur.

Til að hámarka virkni meðferðarinnar mælum við með því að bera hyaluronic sýru serum 30 mínútum eftir þar sem retinól/retinóíð krem opna húðina og gera hana móttækilegri fyrir öðrum virkum húðvörum. Mælum með HA intensifier serum eða B5 hydrating serum frá Skin Ceuticals.