HÁREYÐINGARLASER

Aukin hárvöxtur kemur oft á tíðum á þau líkamssvæði þar sem þeirra er ekki óskað. Orsökin getur verið vaxandi aldur eða hormónaójafnvægi. Margir plokka þessi hár, raka eða vaxa, sem getur oft ert húðina ásamt því að árangurinn er afar skammvinnur. Einnig geta þessar aðferðir valdið því að viðkomandi fær á tilfinninguna að hárvöxturinn aukist og að hárin verði grófari.

 

Í einföldu máli er lasermeðferð meðferð með ljósi af ólíkum bylgjulengdum, en bylgjulengdin ræður því hve langt ljósið nær niður í húðina. Á Húðlæknastöðinni er notaður GentleMax Pro laser til háreyðingar en laserinn samanstendur af innrauðu ljósi sem nær djúpt í húðina og t.d. mun dýpra en IPL ljós sem stundum eru notuð til háreyðingar. GentleMax pro geislinn beinist sérstaklega gegn dökka litarefninu í hárinu, hitar það alveg niður í hársekkinn og eyðileggur þannig hársekkinn endanlega. Við þetta örvast aðrir undirliggjandi hársekkir í húðinni og þess vegna verður að endurtaka meðhöndlunina þar til allir hársekkir eru komnir upp á yfirborðið.

GentlePro Max inniheldur einnig innbyggðan kælibúnað (Advanced Contact Cooling™) sem hjálpar til við að kæla og vernda húðina á meðan á meðferð stendur. Auk þess getur laserinn metið magn litarefnisins melaníns í húðinni hjá hverjum og einum og þar af leiðandi húðgerð (húðgerð I-VI) viðkomandi. Þetta eykur áhrif og öryggi meðferðarinnar.

Hvenær á þessi meðferð við?

Meðferð með GentlePro Max hentar ef fjarlægja á óæskilegan hárvöxt í andliti eða á líkama, t.d. á bíkinisvæðinu, fótleggjum, handarkrikum og baki.

Það er mikilvægt að hafa í huga að mjög ljós hár, hvít eða grá, svara ekki meðferðinni þar sem það verður að vera litarefni til staðar til að eyðileggja hársekkinn.  Því grófari og dekkri hár og því ljósari húð, því betri og skjótari er árangurinn. Ástæðan er að því meira litarefni sem er til staðar í hárinu því meiri hiti leiðist niður í hársekkinn.

Hverjir eru kostir og gallar háreyðingar með laser?

Háreyðingarlaserinn fjarlægir óæskilegan hárvöxt. Mikilvægt er að hafa í huga að háreyðingarmeðferð krefst endurtekninga til að ná tilætluðum árangri. Hár gengur í gegnum mismunandi vaxtarskeið og meðferðin virkar best þegar hárin eru í vaxtarfasa. Á hverjum tíma er einungis hluti háranna í þeim fasa. Þess vegna þarf að meðhöndla hvert svæði í nokkur skipti. Það er nokkuð einstaklingsbundið hve margar meðferðir þarf og einnig getur verið munur á milli húðsvæða. Í andliti líða bara nokkrar vikur á milli vaxtarfasa á meðan það geta liðið nokkrir mánuðir á milli á fótleggjum. Þess vegna er æskilegt að láta líða 1-2 mánuði á milli meðferða.

Hvernig fer meðferðin fram?

Heppilegast er að svæðið sem á að meðhöndla sé nýrakað. Síðan er meðferðarhausinn lagður á húðina og skoti hleypt af. Flestir upplifa skotið eins og skammvinna hitatilfinningu í húðinni. Þegar skotinu er hleypt af má sjá ljósglampa líkt og þegar teknar eru myndir með flassi.

Hverju má búast við eftir meðferðina?

Strax efir meðferðina kemur smávegis roði fram, líkt og við vægan sólbruna. Einstaka sinnum vottar fyrir bjúg á meðferðarsvæðinu. Þessi einkenni ganga venjulega yfir á 30 mínútum til 24 klst. Ef sviði er í húðinni má bera kælipoka við húðina eða bera kalt gel, t.d. Aloe Vera, á húðina.
Það er mikilvægt að vernda meðferðarsvæðið frá sólinni 1-2 vikur fyrir og eftir meðferð. Einnig ber að forðast bað, heita potta, sund eða líkamsrækt þar sem búast má við að svitna mikið 24 klst. eftir hverja meðferð.

Ekki er að vænta árangurs strax eftir meðferðina, heldur líða yfirleitt 1-2 vikur þar til fer að draga úr hárvexti. Í byrjun meðferðar má búast við því að hárvöxtur aukist örlítið aftur rétt fyrir næstu meðferð. Þetta má ekki túlka sem svo að meðferðin hafi misheppnast, heldur eru hár sem verið hafa í hvíldarfasa að flytjast í vaxtarfasa og verða því sýnilegri.

Hafðu samband

Hægt er að bóka tíma hjá lækni
frá kl. 9:00 – 12:00 og 13:00 – 15:30
Sími 520 4444

Ljósameðferð
Sími 520 4408

Sendu okkur tölvupóst
timabokun@hls.is

 

Spjallaður við okkur á
Facebook Messenger

    Húðlæknastöðin

    Smáratorg 1,
    201 Kópavogur,
    Iceland

    Opið virka daga
    8:00 – 16:00

    Skiptiborð er opið
    9:00 – 12:00
    13:00 – 15:30

    © Húðlæknastöðin ehf. – Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans – Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd