AQUAGOLD MEÐFERÐ

Aquagold meðferðin er hönnuð til að koma virkum efnum í húðina á áhrifaríkan og nánast sáraukalausan hátt til að stinna og endurnýja húðina.

Hvernig virkar Aquagold meðferðin?

Aquagold tækið inniheldur 20 örfínar nálar sem eru húðaðar með 24 karata gulli en gullið veldur minni ertingu í húðinni og er ekki ofnæmisvaldandi eins og sumir málmar. Nálarnar eru aðeins 0,6 mm að lengd sem er fullkomin stærð til að ná niður í leðurhúðina (dermis). Örnálarnar sjálfar örva kollagen nýmyndun og með þeirra hjálp er hægt að koma virkum efnum á þann stað í húðina þar sem þau hafa hvað mest áhrif.  Meðferðartækið er viðurkennt af Bandaríska lyfjaeftirlitinu (FDA).

Hvaða efni er hægt að nota í Aquagold meðferðinni?

Algengast er að nota blöndu  af hýalúronsýru (skinbooster) og toxíni en möguleiki er að klæðskerasníða lausnir eftir þörfum hvers og eins og blanda meðal annars í lausnina andoxunarefnum (t.d. C vítamíni), vaxtarþáttum og peptíðum.

Hýalúronsýra er efni sem viðheldur raka í húðinni og gefur húðinni fyllingu og ljóma.  Hún gerir húðina stinnari og dregur úr fínum línum og hrukkum. Hýalúronsýra er stór sameind og á því erfitt með að komast í gegnum húðina með venjulegum kremum en virkar mjög vel þegar henni er stungið í gegnum húðina inn í leðurhúðina, eins og með venjulegum fylliefnum og Aquagold.

Toxín í Aquagold meðferðinni eru blönduð á annan hátt en hefðbundin toxín meðferð og þar sem toxínið er sett grunnt í húðina hefur það engin áhrif á undirliggjandi vöðva.  Toxín í húðinni slétta úr húðinni, draga saman svitaholur og minnka olíuframleiðslu og svitamyndun.  Þau bæta þannig áferð húðarinnar og auka ljóma.

Hvað gerir Aquagold meðferðin fyrir húðina?

● Eykur raka

● Minnkar svitaholur

● Minnkar olíumyndun 

● Eykur þéttleika 

● Bætir áferð húðarinnar

● Mildar fínar línur og hrukkur

● Minnkar svitamyndun

● Minnkar roða t.d. vegna rósroða

● Gefur ljóma og ferskara útlit

Aquagold meðferðina er hægt að nota á andlit, háls, bringu og handarbök.

Er meðferðin sáraukafull?

Meðferðin er mjög sársaukalítil en auðvitað getur verið einstaklingsmunur. Sum meðferðarsvæði eru viðkvæmari, einkum þar sem húðin er þunn og þar sem mikið er um taugaenda t.d. á nefi og kringum munn.

Er Aquagold meðferðin örugg?

Já, svo sannarlega. Þar sem Aquagold lausnin er sett svo grunnt í húðina er möguleiki að meðhöndla svæði sem aðrar meðferðir eins og laser og medical peeling komast illa að eins og t.d. kringum munn og augu.  Þær örsmáu holur sem myndast eftir nálarnar lokast hratt svo sýkingar eru mjög óvanalegar.

Hvenær sést árangurinn og hve lengi varir hann?

Áhrifin sjást strax eftir 3-7 daga en það getur tekið allt að 2 vikur að sjá fullan árangur. Fullur árangur varir um það bil í 3-4 mánuði en hver meðferð gefur langtímaárangur þar sem nýmyndun kollagens örvast og byggist upp að nýju. Ráðlagt er að endurtaka meðferðina á 3-4 mánaða fresti til að viðhalda hámarksárangri.

Meðferðin er einnig vinsæl fyrir mikilvæga atburði þar sem óskað er eftir að húðin sé uppá sitt besta og ljómandi, eins og t.d. brúðkaup. Mælum þá með að plana meðhöndlunina 2-3 vikum áður.

Ef húðin er þroskuð með talsvert af hrukkum og/eða skorti á fyllingu þarf líklega að sameina Aquagold meðferðin með fylliefnum, vöðvatoxínum eða laser meðferðum.

Hve langan tíma tekur meðferðin?

Meðferðin tekur u.þ.b. 30 mín en fer eftir hversu stórt meðferðarsvæðið er sem á að meðhöndla.

Hvað gerist eftir meðferðina?

Meðferðarsvæðið verður rautt og örlítið aumt viðkomu. Þessi einkenni hverfa oftast á nokkrum klukkustundum en geta varað í 2-3 daga.  Marblettir eru mjög sjaldgæfir.

Fyrir og eftir myndir
Ráð eftir Aquagold meðhöndlun

Forðastu að þvo andlitið í 6 klukkustundir. Hreinsaðu svo húðina með mildum  hreinsi 

● Ekki nota förðunarvörur fyrstu 6 klukkustundirnar eftir meðferðina

● Forðastu virkar húðvörur eins og ávaxtasýrur og retinol í 5-7 daga eftir meðferðina sem og skrúbb og maska

● Notaðu mikið af góðum hlutleysum raka á húðina, t.d. hyalúranic sýru serum, í nokkra daga eftir meðferðina

● Forðastu sólina í a.m.k. 24 klukkustundir eftir meðferðina og notaðu sólarvörn með a.m.k. 30 SPF í amk nokkrar vikur eftir meðferð

● Forðastu líkamsrækt og gufuböð í 48 klst ef húðin er enn rauð og ert

Ef þú ert að kljást við eftirfarandi vandamál er ekki ráðlagt að meðhöndla með Aquagold meðferðinni:

● Þrymlabólur (acne vulgaris)

● Sýking í andliti

● Bólgusjúkdómar í andliti eins og eksem, psoriasis, perioral dermatitits eða rósroða á bólgustigi

Aquagold meðferðin er ekki framkvæmd á þunguðum konum eða konum með barn á brjósti.

Hafðu samband

Hægt er að bóka tíma hjá lækni
frá kl. 9:00 – 12:00 og 13:00 – 15:30
Sími 520 4444

Ljósameðferð
Sími 520 4408

Sendu okkur tölvupóst
timabokun@hls.is

Spjallaðu við okkur á
Facebook Messenger

    Húðlæknastöðin

    Smáratorg 1,
    201 Kópavogur,
    Iceland

    Opið virka daga
    8:00 – 16:00

    Skiptiborð er opið
    9:00 – 12:00
    13:00 – 15:30

    © Húðlæknastöðin ehf. – Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans – Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd