Bólusjúkdómar

Svonefndir bólusjúkdómar eru tiltölulega algengt vandamál. Mikilvægt er að greina bólusjúkdóma rétt svo meðferð sé áhrifarík. Hér fyrir neðan er lýsing á algengum sjúkdómum og einkennum þeirra, en mikilvægt er að húðlæknir greini hvert tilfelli fyrir sig.

Unglingabólur (acne)
Rósróði
Perioral dermatitis
Aðrir bólusjúkdómar
Unglingabólur (acne)

Þrymlabólur, stundum kallað acne, bólusjúkdómur, eða unglingabólur, byrja venjulega á unglingsárum og hverfa oftast milli 20 og 30 ára aldurs. Í sumum tilvikum er sjúkdómurinn mjög þrálátur og getur verið virkur mun lengur. Í öðrum tilvikum byrjar sjúkdómurinn eftir unglingsár. Sjúkdómurinn leggst á fitukirtlana í húðinni. Þar sem sjúkdómurinn leggst á fitukirtlana er hann algengastur á svæðum þar sem mikið er af fitukirtlum í húðinni, þ.e.a.s. í andliti, á baki og efri hluta brjóstkassa. Hægt er að hjálpa öllum sem þjást af bólum og mikilvægt að byrja snemma til að koma í veg fyrir varanlegan skaða í húðinni, þeas öramyndun. Meðferðin er mjög einstaklingsbundin og getur tekið langan tíma.

Af hverju fæ ég þrymlabólur (acne)?

Orsakir fyrir þrymlabólum eru fjölþættar. Erfðir og hormónabreytingar hafa mestu áhrifin. Nokkuð algengt er að konur sem eru komnar af táningsaldri fái homrónatengdar bólur og þá oft í tengslum við tíðahringinn þar sem þær versna nokkrum dögum fyrir blæðingar. Tengsl þrymlabóla og matarræðis hafa mikið verið skoðuð og í raun veik tengsl þar á milli. Sterkustu tengslin eru á milli sykurríks fæðis en það er talið geta valdið versnun á bólum. Einnig getur mikil streita valdið versnunum og notkun rangra húðvara, t.d. húðvara sem innihalda of mikla fitu eða olíu. 

Hver eru einkennin?
Fílapenslar, graftarbólur og bólur eru algengar húðbreytingar, en þegar sjúkdómurinn er alvarlegur sjást oft graftarfyllt holrúm. Fyrstu breytingarnar eru fílapenslar, sem eru lokaðir fitukirtlar. Oft komast bakteríur í fitukirtilinn sem þá bólgnar upp og myndar bólu eða graftarbólu.

Húðumhirða

Góð húðumhirða getur oft breytt miklu í vægum bólusjúkdómi en breytir yfirleitt ekki miklu þegar sjúkdómurinn er meðalsvæsinn eða alvarlegur. Þá þarf að bæta við lyfjameðferð.

• Þrífðu andlitið kvölds og morgna því sviti, húðfita, óhreinindi, mengun og farði eykur líkurnar á kirtlarnir lokist. Notaðu gjarnan húðhreinsivörur sem innihalda salicylicsýru, glycolicsýru eða aðrar ávaxtasýrur en sýrurnar hjálpa til við að fjarlægja dauðar húðfrumur og húðfitu og halda kirtlunum opnum og hreinum. Dæmi um góða húðhreinsa eru Blemish and Age Cleanser gel frá SkinCeuticals (inniheldur bæði salicylic- og glycolicsýru), Salicylic Acid 2% solution frá The Ordinary, Salicylic Acid Cleanser frá The Inkey List eða Salicylic toner frá Neutrogena.

• Notaðu rakakrem sem eru án olíu eða „non-comedogenic“. Yfirleitt stendur á kremunum hvort þau eru ætluð fyrir bóluhúð (acne prone skin) og þá ætti að vera óhætt að nota það. Ef húðin er mjög olíukennd mælum við með serum eða geli, t.d. Hydrating B5 gel frá SkinCeuticals, Hyaluronic Acid 2% + B5 frá The Ordinary eða Moisture surge gel frá Clinique. Ef þörf er á meiri raka er t.d. hægt að nota Eucerin Dermopure Adjunctive Smoothing cream, Niacinamide 10%+Zink 1% frá The Ordinary eða Anti-Acne normalizing face cream frá Pharmaceris. Þá eru þau annað hvort notuð ein og sér, eða borin á húðina eftir serumið.

• Ekki klóra í húðina eða kreista bólurnar og farðu varlega í skrúbbmeðferðir og maska þar sem þær meðferðir geta gert bólurnar verri.

• Borðaðu hollan og fjölbreyttan mat, mikið af ferskum ávöxtum og grænmeti. Reyndu að halda sykri í lágmarki og forðast fæðubótarefni.

• Ef þú reykir, hættu þá að reykja. Reykingar torvelda tæmingu fitu úr fitukirtlinum og auka líkur á að þeir stíflist.

• Notaðu krem sem innihalda retinóíða eða retinól á hverjum degi. Best að nota á kvöldin. Retinóíðar/retinól eru kjörmeðferð við bólum og hafa margvísleg áhrif á húðina m.a. að minnka fitumyndun og minnka áberandi svitaholur eða fitukirtla. Þeir geta einnig dregið úr sýnilegum örum í híð m.a. bóluörum. Auk auki virka retinóíðar mjög vel gegn hrukkumyndum þar sem þeir örva nýmyndun kollagens í húðinni. Dæmi um retinól sem fást án lyfseðils eru Retinol frá SkinCeuticals (0.3, 0.5 og 1.0%) og Retinol frá The Ordinary. Dæmi um sterkari retinóíða sem fást einungis með lyfseðli eru Differin (Adapalene), Tretinoin 0.05% og Airol (Tretinoin 0.05%).

• Komdu því inn í rútínuna þína að nota sólarvörn daglega eða dagkrem með sólarvörn. Passaðu þig á að kaupa sólarvörn sem er ætluð fyrir andlit og forðastu feitar sólarvarnir með olíu því þær eiga það til að stífla kirtla og jafnvel valda bólum. Dæmi um góðar sólarvarnir eru Eucerin Mattifying Fluid SPF 50, La Roche Anthelios XL Anti-Shine Dry Touch SPF 50+ og sólarvarnirnar frá SkinCeuticals sem fást bæði án lits (Ultra Facial Defense SPF 50+) og með lit (Mineral Matte UV Defense SPF 30 eða Mineral Radiance UV Defense SPF5 50).

•Ef þú vilt fá enn meiri árangur þá leggjum við þessar meðferðir til: 

    •Farðu reglulega í ávaxtasýru meðferðir með sterkum ávaxtasýrum (medical peeling). Ávaxtasýru peeling er frábær leið til að fjarlægja dauðar húðfrumur og endurnýja húðina. Þá er sýra sett á húðina í ákveðinn tíma en styrkleikinn ákvarðast m.a. af húðgerð hvers og eins.

    • Farðu reglulega í húðslípun. Húðslípun vinnur á efstu lögum húðarinnar og tekur m.a. burt dauðar húðfrumur, hreinsar yfirborð kirtla og minnkar áberandi svitaholur.

Lyfjameðferðir

Yfirleitt skiptist meðferðin niður í fernt og fer eftir alvarleika sjúkdómsins:

1. Staðbundin lyf (krem/gel)
A-vítamínsýra (retinól, retinóíðar og retinoic sýra) er mjög öflugt lyf gegn bólum. Dæmi um A-vítamínsýrulyf er Differin, Airol og Tretinoin. Þessi efni eru grunnurinn í öflugum bólumeðferðum því þau minnka fituframleiðslu í fitukirtlunum, fækka fílapenslum og taka burtu dauðar húðfrumur sem geta stíflað kirtla ásamt húðfitu. Hins vegar gera retinóíðar svo miklu meira en bara þetta.  A-vítamín sýran binst viðtökum í kjarna húðfrumna sem meðal annars veldur því að umsetning eða endurnýjun þeirra verður hraðari. Þess vegna upplifa langflestir að húðin flagnar aðeins í byrjun meðferðarinnar þar sem húðin er að endurnýja sig. Þetta tímabil gengur yfir á nokkrum vikum. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að A-vítamín kremin örva nýmyndun kollagens í húðinni og vinni gegn örum í húðinni og þá sérstaklega gegn bóluörum.  A-vítamín krem eru besta mögulega bólumeðferðin í kremformi á markaðnum í dag. Ókostur þessarrar meðferðar er sá að flestir verða fyrst verri í húðinni þegar húðin er að hreinsa sig (tímabundið fleiri bólur) og árangur sést oft ekki fyrr en eftir 6–8 vikna meðferð. Flestir eru svo aftur farnir að sjá verulegan mun á húðinni eftir 12–16 vikna meðferð. Hér gildir að vera þolinmóður. Ekki er öruggt að nota þessi lyf á meðgöngu né á meðan brjóstagjöf stendur. Sjá frekari upplýsingar hér: Ráðleggingar varðandi notkun Differin, Epiduo, Retinóls, Tretinoin 0.5% eða Airol vegna bóla (acne).

Benzýlperoxíð
hefur einnig áhrif á fílapensla ásamt því að hafa bakteríudrepandi áhrif, en er ekki eins áhrifaríkt og A-vítamínsýra. Því miður fæst benzýlperoxíð (Basiron) ekki sem lausasölulyf hér á Íslandi lengur en er til í dag í samsettum lyfjum eins og Duac og Epiduo. Duac er þá með bæði benzýlperoxíði og klindamycíni sem er sýklalyf og Epiduo er samsett af A vítamínsýru (Differin) og benzýlperoxíði. Athugið að benzýlperoxíð getur litað föt og rúmföt.

Sýklalyf eru oft gefin útvortis, sérstaklega ef einstaka graftarbólur. Algengustu lyfin eru klindamycín (Dalacin) og svo samsetta lyfið Duac (sjá hér að ofan). Talið er að lyfin virki með því að drepa bakteríur í fitukirtlunum. Lyfin eru borin á bólusvæðið einu sinni til tvisvar á dag og eru oft notuð með öðrum lyfjum. Aukaverkanir eru sjaldgæfar.Azelaisýra (Skinoren) er einnig virkt lyf gegn bólum ásamt rósroða og verkun þess er fjölþætt. Lyfið hefur bæði bein áhrif á fitukirtlana og þær bakteríur sem sýkja kirtlana. Lyfið þolist mjög vel og veldur sjaldan aukaverkunum og er því oft notað hjá þeim sem þola ekki sterku A-vítamínsýrulyfin. Lyfið er borið á bólusvæðið tvsivar sinnum á dag eftir að húðin hefur verið hreinsuð vel með vatni. Lyfið skal borið þykkt á og því nuddað vel inn í húðina. Nokkurn tíma getur tekið að sjá áhrif af lyfinu og er heildarmeðhöndlunartími oft 6–12 mánuðir.

2. Töflumeðferð/sýklayf
Ef sjúkdómurinn er erfiður viðureignar eða þegar útvortis meðferð hefur mistekist er töflumeðferð næsta skref. Algengast er að gefa sýklalyf, tetracyklín, eryþrómycin eða súlfalyf. í flestum tilvikum er útvortis meðferð notuð samhliða og þá oftast A-vítamínsýra. Tetracyklínlyf eru algengasta töflumeðferðin, enda er reynslan af þessari meðferð löng og áhrifin oftast mjög góð. Talið er að lyfið verki með því að eyða bakteríum í fitukitlunum, sem síðan hefur í för með sér að minna myndast af ertandi fitusýrum sem geta valdið bólgu. Aukaverkanir eru sjaldgæfar. Í einstaka tilvikum finna sjúklingar fyrir ógleði eða vægum niðurgangi. Mjög sjaldgæfar aukaverkanir eru sólarofnæmi og lifraráhrif. Af þessum sökum er því ekki ráðlegt að stunda sólböð á meðan á lyfjameðferð stendur. Eins ættu þungaðar konur ekki að taka lyfið, amk ekki fyrstu fjóra mánuði meðgöngu. Ekki má taka lyfið með mjólkurvörum eða járnlyfjum því þá nýtist lyfið illa. Heildarmeðferðartími er venjulega 3-6 mánuðir. Dæmi um þessi lyf eru Doxylin og Lymecyklin. Eryþrómycín er oft gefið þeim sem ekki þola tetracyklín. Aukaverkanir eru svipaðar og af tetracyklínum, nema að ekki er hætta á sólarofnæmi í tengslum við töku þessa lyfs. Dæmi um þetta lyf er Ery-max.

3. Isotretinoin (Decutan):
Ísotretinoin (Decutan) er gefið í töfluformi í mjög erfiðum tilfellum. Vegna aukaverkana er lyfið einungis notað við verstu tilvikin og þegar önnur meðferð hefur verið reynd til fullnustu. Lyfið er mjög kröftugt og verkar beint á fitukirtlana sem rýrna mjög meðan á meðferðartímanum. Stundum nægir þessi rýrnun til að varnalegur bati náist að hluta. Á meðan á þessari meðferð stendur þarf að fylgjast með blóði á 4-6 vikna fresti. Frekari upplýsingar um lyfið hér: Meðferð með isotretinoin

4. Hormónameðferð
Ef þrymlabólurnar eru mjög hormónatengdar, eins og t.d. versna nokkrum dögum fyrir blæðingar eða ef undirliggjandi sjúkdómar sem valda hækkun á karlhormónum er til staðar eins og t.d. fjölblöðrueggjastokksheilskenni (polycystic ovary syndrome), getur hormónameðferð oft hjálpað. Karlhormónar (testosterón) auka verulega virkni fitukirtla í húðinni og valda þannig bólum. Diane mite og Yasmin eru þær getnaðarvarnarpillur sem hafa bestu virkni gegn þrymlabólum en allar samsettar getnaðarvarnir hjálpa að einhverju leyti. Mikilvægt er að hafa í huga að áhrif þessarar meðferðar er ekki farið að gæta fyrr en eftir nokkra mánuði. Hjá konum sem þola ekki getnaðarvarnarpilluna eða eru komnar á þann aldur að ekki er ráðlagt að nota þær er hægt að nota annað lyf í staðinn sem heitir spironalactone (Spiron). Þetta lyf er þvagræsilyf en það bælir einnig niður karlhormónin í líkamanum (anti-androgen).

Ef þú ert með ör eftir þrymlabólur (acne) þá getur þú nálgast upplýsingar varðandi örameðferð hér: Örameðferðir

Ítarefni:

YFIRLITSGREIN UM UNGLINGABÓLUR (ACNE)
Ráðleggingar til þeirra sem þjást af bólum

Meðferðir:

Notkun Differin, Epiduo, Retinóls, Tretinoin 0.5% eða Airol vegna bóla (acne).
grein um ísótretínóín meðferðir
Grein um örameðferðir

Prentvæn útgáfa:

Opna prentvæna útgáfu

Nánar á (enskur texti):

Rósroði (Rosacea)

Rosacea (rósroði) er langvinnur sjúkdómur sem yfirleitt fer fyrst að láta á sér kræla upp úr þrítugu. Sjúkdómurinn lýsir sér með roða, bólum, graftrarbólum æðaslitum og stundum þrota í andliti. Það eru ekki til greinargróðar upplýsingar um algengi sjúkdómsins. Það vill þó þannig til að sænskur kunningi minn, Mats Berg ásamt Sture Lidén prófessor hefur gert þá rannsókna sem oftast er vitnað til að því er varðar nýgengi. Í rannsókn þeirra félaga kom í ljós að algengi rósroða í Svíþjóð var 14% hjá konum og 5% hjá körlum. Þrát fyrir að sjúkdómurinn sé algengari hjá konum eru erfiðustu tilvikin oftast hjá körlum. Það er talið að það stafi af því að karlar leiti sér seinna hjálpar en konur og þá er erfiðara að eiga við sjúkdóminn. Rósroði er algengari hjá þeim sem hafa ljósa húð, frekar en dökka og sjúkdómurinn kemur oftar fram hjá þeim sem strax í æsku roðna auðveldlega.

Það er ekki hægt að lækna rósroða en mikið hægt að gera til að hægja á sjúkdómnum og draga úr einkennum. Með tilkomu lasertækninnar er hugsanlegt að í sumu tilvikum sé hægt að lækna sjúkdóminn varanlega, eða leggja hann í dvala í nokkur ár.

En aftur um einkenni rósroða, en þau eru:

Roði
Aðal einkenni sjúkdómsins er roði í andliti. Roðinn líkist oft sólbruna og stafar auknu blóðflæði í gegnum æðarnar í andlitshúðinni svo og að andlitsæðarnar víkka út. Í fyrstu er þessi roði tímabundinn, en þegar frá líður verður roðinn varanlegri og meira bláleitur. Margir kvarta um bruna- eða sviðatilfinningu og stundum er þroti í húðinni. Hjá sumum sjúklingum er húðin mjög þurr.

Bólur og graftrarbólur
Þegar rósroðinn kemst á hærra stig myndast oft smábólur. Stundum minna slíkar bólur á bólur þær sem sjást hjá unglingum. Í sumum tilvikum myndast graftrarbólur. Í kringum bólur má oft sjá töluverða bólgu. Til aðgreiningar frá unglingabólum sjást ekki fílapennslar.

Æðaslit
Æðaslitin eru oft ríkur þáttur í sjúkdómsmyndinni. Það er talið að æðaslitin myndist eftir endurtekin roðaköst og um getur verið að ræða örsmár æðar upp í mjö stórar æðar. Í mörgum tilvikum aukast æðaslitin eftir því sem sjúkdómurinn hefur staðið lengur.

Ekki er þekkt hvað veldur rósroða. Helicobacter pylori, sem er bakterían sem veldur magasári hefur stndum verið tengd rósroða, en rannsóknir að því er það varðar hafa verið mjög misvísandi. Húðmaurinn Demodex folliculorum, sem er hluti af eðlilegri flóru húðarinnar hefur einni verið tengdur rósroða, en einnig þar hafa rannsóknir verið misvísandi. Sum lyf sem hafa áhrif á þennan maur, eins og metronidazol hafa gagnast vel við meðferð á rósroða.

Einkenni sjúkdómsins ganga venjulega í köstum og stundum versna einkennin eftir hver kast. Það er því mikilvægt að hefja meðferð snemma til þess að stemma stigu við frekari þróun sjúkdómsins. Meðferðin er fjölþætt og beinist að bæði æða og bólguþættinum. Fyrsta meðferð er yfirleitt sýklalyf til inntöku. Mest eru notuð lyf úr tetracyklinflokknum, tetracyklin, minocyklin (Minocin) eða doxycyklin (doxytab, doryx). Erythromycin (Abboticin, Ery-max)er einnig mikið notað. Önnur lyf seme ru notuð eru metronidazol (Flagyl) og ampicillin. Meðferðin er yfirleitt nokkuð löng, oft svo mánuðum skiptir.Oft eru einnig notuð útvortis sýklalyf, samhliða eða ein sér. Algengasta útvortis lyfið er metronidazol. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að azelaicsýra (Skinoren) sem er lyf sem er notað gegn unglingabólum virðist hafa góð árhif á rósroða.

Lasermeðferð
Þó orsakir rósroða eru ekki þekktar að fullu eru flestir sammála um að æðaþátturinn er mjög mikilvægur í meingerð sjúkdómsins. Til skamms var ekki hægt að hafa áhrif á þann þátt, en með tilkomu lasertækninnar hafa opnast möguleikar á því. Lasermeðferðin byggir á að eyða æðaslitum og skemmdum æðum úr húðinni og það virðist að á þann hátt sé hægt að draga úr sjúkdómseinkennum og í sumum tilvikum að einkenni gangi tilbaka að mestu. Reynslan af slíkri meðferð er ekki nægilega löng til þessa að segja fyrir um hversu varanleg slík meðferð er, en þó má fullyrða að hér er um mjög merka nýjung að ræða. Hérlendis bjóða nokkrir húðlæknar upp á slíka meðferð. Hér á síðunni mun bráðlega birtast samantekt um lasermeðferð gegn húðsjúkdómum eftir Jón Þránd Steinsson húðlækni.

Ýmsir þættir geta haft áhrif á rósroða og það er mikilvægt fyrir þá sem þjást af þessum sjúkdómi að þekka þá þætti.

Æðavirk fæða
Ákveðnar fæðutegundir geta aukið á andlits roða með því að víkka út æðarnar. Lista yfir helstu fæðutegundir má sjá hér:

Viðtal (pdf):

Rósroði - Viðtal

Prentvæn útgáfa:

Opna prentvæna útgáfu

Nánar á (enskur texti):

Perioral dermatitis

Perioral Dermatitis er nokkuð algengur húðsjúkdómur.
Kemur oftar fyrir hjá kvenfólki. Sumir fá sjúkdóminn endurtekið jafnvel einu sinni á ári. Húðsjúkdómur þessi kemur stundum hjá börnum og einnig eldra fólki.

Orsök er óþekkt. Upp hafa komið tilgátur um of mikil notkun andlitskrema geti valdið þessu, eða jafnvel óþekktur sýkill.
Vitað er að breytingarnar geta komið noti fólk sterk eða meðalsterk kortisónkrem í andlitið í nokkurn tíma.

Ástandið lýsir sér með litlum upphækkuðum bólum í húðinni kring um munninn, ásamt breytingum sem líkjast örsmáum graftrabólum.
Roði er oft á svæðinu og stundum vægar exembreytingar eða þurrkur.
Dæmigert er að húðin næst vörunum er oftast eðlileg að sjá
Stundum eru breytingarnar ofar í andlitinu, td kring um augun.

Með réttri meðferð eru batalíkur góðar.

Oftast nægir sýklalyf af Tetracýklín flokki í nokkrar vikur til að lækna sjúkdóminn til dæmis Doxytab eða skyld lyf. Einnig er hægt að nota sýklalyfið Erythromycin.
Í vægum tilfellum má reyna útvortis sýklalyf eingöngu td Dalacin vökva.

Prentvæn útgáfa:

Opna prentvæna útgáfu

Nánar á (enskur texti):

Aðrir bólusjúkdómar

Texti í vinnslu.

Hafðu samband

Hægt er að bóka tíma hjá lækni
frá kl. 9:00 – 12:00 og 13:00 – 15:30
Sími 520 4444

Ljósameðferð
Sími 520 4408

Sendu okkur tölvupóst
timabokun@hls.is

 

Spjallaðu við okkur á
Facebook Messenger

    Húðlæknastöðin

    Smáratorg 1,
    201 Kópavogur,
    Iceland

    Opið virka daga
    8:00 – 16:00

    Skiptiborð er opið
    9:00 – 12:00
    13:00 – 15:30

    © Húðlæknastöðin ehf. – Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans – Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd