Bólusjúkdómar

Svonefndir bólusjúkdómar eru tiltölulega algengt vandamál. Mikilvægt er að greina bólusjúkdóma rétt svo meðferð sé áhrifarík. Hér fyrir neðan er lýsing á algengum sjúkdómum og einkennum þeirra, en mikilvægt er að húðlæknir greini hvert tilfelli fyrir sig.

Unglingabólur (acne)
Rósróði
Perioral dermatitis
Aðrir bólusjúkdómar
Unglingabólur (acne)

Þrymlabólur, stundum kallað acne, bólusjúkdómur, eða unglingabólur, byrja venjulega á unglingsárum og hverfa oftast milli 20 og 30 ára aldurs. Í sumum tilvikum er sjúkdómurinn mjög þrálátur og getur verið virkur mun lengur. Í öðrum tilvikum byrjar sjúkdómurinn eftir unglingsár. Sjúkdómurinn leggst á fitukirtlana í húðinni. Hjá einstaklingum með ákveðna erfðatilhneigingu geta eðlilegar hormónabreytingar kynþroskaáranna framkallað unglingabólur. Þar sem sjúkdómurinn leggst á fitukirtlana er hann algengastur á svæðum þar sem mikið er af fitukirtlum í húðinni, þ.e.a.s. í andliti, á baki og efri hluta brjóstkassa. Húðbreytingarnar sem eru afleiðingar sjúkdómsins hafa ólíkt útli eftir eðli og hversu alvarlegur sjúkdómurinn er.

Hægt er að hjálpa öllum sem þjást af bólum. Meðferðin getur þó tekið langan tíma.

Hver eru einkennin?
Fílapenslar, graftarbólur og bólur eru algengar húðbreytingar, en þegar sjúkdómurinn kemst á hástig sjást oft graftarfyllt holrúm. Fyrstu breytingarnar eru fílapenslar, sem eru lokaðir fitukirtlar. Oft komast bakteríur í fitukirtilinn sem þá bólgnar upp og myndar bólu eða graftarbólu.

Umhirða
Í flestum tilvikum nægir að þvo húðina með venjulegri, mildri sápu. Of mikill þvottur getur þó verið skaðlegur. Sérstakar hreinsilausnir eru einnig til fyrir mjög feita húð. Ekki er ráðlegt að nota efni sem sótthreinsa húðina vegna þar sem mörg þeirra geta skaðað húðina. Einnig ber að varast ofnotkun snyrtivara og sumar snyrtivörur geta beinlínis framkallað bólur.

Í flestum tilvikur mildast sjúkdómurinn í sól en þó ber ávallt að verja húðina fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum.

Varist að kreista fílapensla með nöglunum, því hættan er sú að bólgan í húðinni aukist.

Lyfjameðferðir
A-vítamínsýra er mjög öflugt lyf gegn bólum. Dæmi um A-vítamínsýrulyf er Aberela og Differin. Gallinn við lyf af þessum toga er sá að flestir verða fyrst verri í húðinni og örugg áhrif sjást ekki alltaf fyrr en eftir 6–8 vikur. Mjög góð áhrif eru venjulega komin eftir 12–16 vikur.

A-vítamínsýra er einnig áhrifaríktasta lyfið gegn fílapenslum. Í upphafi meðferðar kemur venjulega fram húðroði og húðin getur orðið þurr og skrælnuð, en þetta gengur venjulega yfir. Ef vart er mikils roða í byrjun meðferðar er best að nota lyfið eingöngu á kvöldin, en auka síðan eftir því sem lyfið þolist betur. Ef mjög mikill roði kemur fram í byrjun meðferðar má þvo lyfið af eftir 2–4 klst, en auka þennan tíma smám saman þar til lyfið þolist tvisvar á dag. Þeir sem verða mjög þurrir geta reynt að nota hlaup í stað krems. Ekki á að bera lyfið oftar á en tvisvar á dag.

Benzýlperoxíð hefur einnig áhrif á fílapensla, en er ekki eins áhrifaríkt og A-vítamínsýra. Lyf í þessum flokki eru til dæmis Duac og Epiduo, sem þó einnig innihalda önnur virk efni. Lyfið hefur einnig bakteríudrepandi áhrif. Venjulega fylgir einhver húðerting en ekki eins mikil og við A-vítamínsýru. Þessi tegund getur litað föt og rúmföt. Oft eru benzýlperoxíðlyf notuð samhliða A-vítamínsýru og þá oft benzýlperoxíð að morgni en A-vítamínsýra að kvöldi.

Sýklalyf eru oft gefin útvortis. Algengustu lyfin eru erýþrómycín (Zineryt) og klindamycín (Dalacin). Talið er að lyfin virki með því að drepa bakteríur í fitukirtlunum. Lyfin eru borin á bólusvæðið tvisvar á dag og eru oft notuð með öðrum lyfjum. Aukaverkanir eru sjaldgæfar.

Azelaisýra (Skinoren) er tiltölulega nýtt lyf gegn bólum og verkun þess er fjölþætt. Lyfið hefur bæði bein áhrif á fitukirtlana og þær bakteríur sem sýkja kirtlana. Lyfið þolist mjög vel og veldur sjaldan aukaverkunum. Lyfið er borið á bólusvæðið tvsivar sinnum á dag eftir að húðin hefur verið hreinsuð vel með vatni. Lyfið skal borið þykkt á og því nuddað vel inn í húðina. Nokkurn tíma getur tekið að sjá áhrif af lyfinu og er heildarmeðhöndlunartími oft 6–12 mánuðir.

Ef sjúkdómurinn er erfiður viðureignar eða þegar útvortis meðferð hefur mistekist er töflumeðferð næsta skref. Algengast er að gefa sýklalyf, tetracyklín, eryþrómycin eða súlfalyf. í flestum tilvikum er útvortis meðferð notuð samhliða og þá oftast A-vítamínsýra. Tetracyklínlyf eru algengasta töflumeðferðin, enda er reynslan af þessari meðferð löng og áhrifin oftast mjög góð. Talið er að lyfið verki með því að eyða bakteríum í fitukitlunum, sem síðan hefur í för með sér að minna myndast af ertandi fitusýrum sem geta valdið bólgu. Aukaverkanir eru sjaldgæfar. Í einstaka tilvikum finna sjúklingar fyrir ógleði eða vægum niðurgangi. Mjög sjaldgæfar aukaverkanir eru sólarofnæmi og lifraráhrif. Af þessum sökum er því ekki ráðlegt að stunda sólböð á meðan á lyfjameðferð stendur. Eins ættu þungaðar konur ekki að taka lyfið. Ekki má taka lyfið með mjólkurvörum eða járnlyfjum því þá nýtist lyfið illa. Heildarmeðferðartími er venjulega 4–8 mánuðir. Dæmi um þessi lyf eru Doxylin og Lymecyklin.

Eryþrómycín er oft gefið þeim sem ekki þola tetracyklín. Aukaverkanir eru svipaðar og af tetracyklínum, nema að ekki er hætta á sólarofnæmi í tengslum við töku þessa lyfs. Dæmi um þetta lyf er Ery-max.

Ísotretinoin (Decutan) er gefið í töfluformi í mjög erfiðum tilfellum. Vegna aukaverkana er lyfið einungis notað við verstu tilvikin og þegar önnur meðferð hefur verið reynd til fullnustu. Lyfið er mjög kröftugt og verkar beint á fitukirtlana sem rýrna mjög meðan á meðferðartímanum. Stundum nægir þessi rýrnun til að varnalegur bati náist að hluta. Á meðan á þessari meðferð stendur þarf að fylgjast með blóði á 4-6 vikna fresti.

Meðferð gegn bólum er áhrifarík, en tekur í flestum tilvikum langan tíma. Þolinmæði er því nauðsynleg, sem og að fylgja fyrirmælum læknis. Eins eru góð ráð til sjálfshjálpar gagnleg, eins og til dæmis eftirfarandi:

• Forðist mikinn raka, t.d. gufuböð, vinnu í heitu eldhúsi og rakt loftslag.
• Neytið sykurskertrar og prótínskertrar fæðu. Takmarkið mjólkurvörur. Borðið mikið af ferskum ávöxtum og grænmeti.
• Forðist fæðubótarefni.
• Ekki reykja. Reykingar torvelda tæmingu fitu úr fitukirtlunum og auka líkur á að þeir stíflist.
• Ekki er æskilegt að bera olíur eða feitar snyrtivörur á bólusvæðið. Eingöngu ætti að nota vörur sem eru sérstaklega gerðar fyrir bóluhúð.
• Skrúbbmeðferð og maskar geta aukið á bólur.
• Ekki má klóra í húðina eða kreista bólurnar.
• Sólskin sem berst í gegnum rúðugler getur hjálpað.

 

Nánar um ísótretínóín meðferðir hér:

grein um ísótretínóín meðferðir

Ítarefni:

YFIRLITSGREIN UM UNGLINGABÓLUR (ACNE)
Ráðleggingar til þeirra sem þjást af bólum
NOTKUN RETÍNÓÍÐA

Nánar á (enskur texti):

Rósroði (Rosacea)

Rosacea (rósroði) er langvinnur sjúkdómur sem yfirleitt fer fyrst að láta á sér kræla upp úr þrítugu. Sjúkdómurinn lýsir sér með roða, bólum, graftrarbólum æðaslitum og stundum þrota í andliti. Það eru ekki til greinargróðar upplýsingar um algengi sjúkdómsins. Það vill þó þannig til að sænskur kunningi minn, Mats Berg ásamt Sture Lidén prófessor hefur gert þá rannsókna sem oftast er vitnað til að því er varðar nýgengi. Í rannsókn þeirra félaga kom í ljós að algengi rósroða í Svíþjóð var 14% hjá konum og 5% hjá körlum. Þrát fyrir að sjúkdómurinn sé algengari hjá konum eru erfiðustu tilvikin oftast hjá körlum. Það er talið að það stafi af því að karlar leiti sér seinna hjálpar en konur og þá er erfiðara að eiga við sjúkdóminn. Rósroði er algengari hjá þeim sem hafa ljósa húð, frekar en dökka og sjúkdómurinn kemur oftar fram hjá þeim sem strax í æsku roðna auðveldlega.

Það er ekki hægt að lækna rósroða en mikið hægt að gera til að hægja á sjúkdómnum og draga úr einkennum. Með tilkomu lasertækninnar er hugsanlegt að í sumu tilvikum sé hægt að lækna sjúkdóminn varanlega, eða leggja hann í dvala í nokkur ár.

En aftur um einkenni rósroða, en þau eru:

Roði
Aðal einkenni sjúkdómsins er roði í andliti. Roðinn líkist oft sólbruna og stafar auknu blóðflæði í gegnum æðarnar í andlitshúðinni svo og að andlitsæðarnar víkka út. Í fyrstu er þessi roði tímabundinn, en þegar frá líður verður roðinn varanlegri og meira bláleitur. Margir kvarta um bruna- eða sviðatilfinningu og stundum er þroti í húðinni. Hjá sumum sjúklingum er húðin mjög þurr.

Bólur og graftrarbólur
Þegar rósroðinn kemst á hærra stig myndast oft smábólur. Stundum minna slíkar bólur á bólur þær sem sjást hjá unglingum. Í sumum tilvikum myndast graftrarbólur. Í kringum bólur má oft sjá töluverða bólgu. Til aðgreiningar frá unglingabólum sjást ekki fílapennslar.

Æðaslit
Æðaslitin eru oft ríkur þáttur í sjúkdómsmyndinni. Það er talið að æðaslitin myndist eftir endurtekin roðaköst og um getur verið að ræða örsmár æðar upp í mjö stórar æðar. Í mörgum tilvikum aukast æðaslitin eftir því sem sjúkdómurinn hefur staðið lengur.

Ekki er þekkt hvað veldur rósroða. Helicobacter pylori, sem er bakterían sem veldur magasári hefur stndum verið tengd rósroða, en rannsóknir að því er það varðar hafa verið mjög misvísandi. Húðmaurinn Demodex folliculorum, sem er hluti af eðlilegri flóru húðarinnar hefur einni verið tengdur rósroða, en einnig þar hafa rannsóknir verið misvísandi. Sum lyf sem hafa áhrif á þennan maur, eins og metronidazol hafa gagnast vel við meðferð á rósroða.

Einkenni sjúkdómsins ganga venjulega í köstum og stundum versna einkennin eftir hver kast. Það er því mikilvægt að hefja meðferð snemma til þess að stemma stigu við frekari þróun sjúkdómsins. Meðferðin er fjölþætt og beinist að bæði æða og bólguþættinum. Fyrsta meðferð er yfirleitt sýklalyf til inntöku. Mest eru notuð lyf úr tetracyklinflokknum, tetracyklin, minocyklin (Minocin) eða doxycyklin (doxytab, doryx). Erythromycin (Abboticin, Ery-max)er einnig mikið notað. Önnur lyf seme ru notuð eru metronidazol (Flagyl) og ampicillin. Meðferðin er yfirleitt nokkuð löng, oft svo mánuðum skiptir.Oft eru einnig notuð útvortis sýklalyf, samhliða eða ein sér. Algengasta útvortis lyfið er metronidazol. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að azelaicsýra (Skinoren) sem er lyf sem er notað gegn unglingabólum virðist hafa góð árhif á rósroða.

Lasermeðferð
Þó orsakir rósroða eru ekki þekktar að fullu eru flestir sammála um að æðaþátturinn er mjög mikilvægur í meingerð sjúkdómsins. Til skamms var ekki hægt að hafa áhrif á þann þátt, en með tilkomu lasertækninnar hafa opnast möguleikar á því. Lasermeðferðin byggir á að eyða æðaslitum og skemmdum æðum úr húðinni og það virðist að á þann hátt sé hægt að draga úr sjúkdómseinkennum og í sumum tilvikum að einkenni gangi tilbaka að mestu. Reynslan af slíkri meðferð er ekki nægilega löng til þessa að segja fyrir um hversu varanleg slík meðferð er, en þó má fullyrða að hér er um mjög merka nýjung að ræða. Hérlendis bjóða nokkrir húðlæknar upp á slíka meðferð. Hér á síðunni mun bráðlega birtast samantekt um lasermeðferð gegn húðsjúkdómum eftir Jón Þránd Steinsson húðlækni.

Ýmsir þættir geta haft áhrif á rósroða og það er mikilvægt fyrir þá sem þjást af þessum sjúkdómi að þekka þá þætti.

Æðavirk fæða
Ákveðnar fæðutegundir geta aukið á andlits roða með því að víkka út æðarnar. Lista yfir helstu fæðutegundir má sjá hér:

Viðtal (pdf):

Rósroði - Viðtal

Nánar á (enskur texti):

Perioral dermatitis

Perioral Dermatitis er nokkuð algengur húðsjúkdómur.
Kemur oftar fyrir hjá kvenfólki. Sumir fá sjúkdóminn endurtekið jafnvel einu sinni á ári. Húðsjúkdómur þessi kemur stundum hjá börnum og einnig eldra fólki.

Orsök er óþekkt. Upp hafa komið tilgátur um of mikil notkun andlitskrema geti valdið þessu, eða jafnvel óþekktur sýkill.
Vitað er að breytingarnar geta komið noti fólk sterk eða meðalsterk kortisónkrem í andlitið í nokkurn tíma.

Ástandið lýsir sér með litlum upphækkuðum bólum í húðinni kring um munninn, ásamt breytingum sem líkjast örsmáum graftrabólum.
Roði er oft á svæðinu og stundum vægar exembreytingar eða þurrkur.
Dæmigert er að húðin næst vörunum er oftast eðlileg að sjá
Stundum eru breytingarnar ofar í andlitinu, td kring um augun.

Með réttri meðferð eru batalíkur góðar.

Oftast nægir sýklalyf af Tetracýklín flokki í nokkrar vikur til að lækna sjúkdóminn til dæmis Doxytab eða skyld lyf. Einnig er hægt að nota sýklalyfið Erythromycin.
Í vægum tilfellum má reyna útvortis sýklalyf eingöngu td Dalacin vökva.

Nánar á (enskur texti):

Aðrir bólusjúkdómar

Texti í vinnslu.

Hafðu samband

Hægt er að bóka tíma hjá lækni
frá kl. 9:00 – 12:00 og 13:00 – 15:30
Síma 520 4444

Sendu okkur tölvupóst
timabokun@hls.is

 

Spjallaður við okkur á
Facebook Messenger

Húðlæknastöðin

Smáratorg 1,
201 Kópavogur,
Iceland

Opið virka daga
8:00 – 16:00

Skiptiborð er opið
9:00 – 12:00
13:00 – 15:30

© Húðlæknastöðin ehf. – Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans – Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd

VEGNA COVID-19

Í ljósi samkomubanns og hertra aðgerða stjórnvalda komum við á Húðlæknastöðinni til með að loka öllum kosmetískum meðferðum, fylliefni og toxín, ásamt laser- og ljósameðferðum. Þegar við vitum hvenær það er óhætt að hefja aftur starfsemina hringjum við í þá sem áttu þegar bókaðan tíma og gefum nýja tíma.

Við viljum þó koma á framfæri að læknastarfsemin okkar heldur áfram þrátt fyrir að hún sé í breyttri mynd.

Við reynum að sjálfsögðu eftir fremsta megni að leysa vandamál í gegnum síma og/eða videosamtöl – en hægt er að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst á timabokun@hls.is til að fá nánari upplýsingar.

Að lokum viljum við ítreka að allir yfir 65 ára ættu að halda sig heima.


Starfsfólk Húðlæknastöðvarinnar
close-link