Hvað er húðkrabbamein?

Hvað er húðkrabbamein?

Prenta

Til húðkrabbameina teljast ýmsar gerðir krabbameina, en aðallega er um að ræða þrjár gerðir, flöguþekjukrabbamein (carcinoma squamocellulare), grunnfrumukrabbamein (carcinoma basocellulare) og sortuæxli (melanoma malignum). 


Húðin er stærsta líffæri líkamans. Hjá fullorðnum er yfirborð hennar nær tveir fermetrar. Hlutverk húðarinnar er meðal annars að vernda líkamann fyrir áverkum, útfjólublárri geislun sólar og efnum sem eru líkamanum framandi, meðal annars bakteríum og veirum. Þar að auki er húðin mikilvæg fyrir hita- og vökvajafnvægi líkamans og einnig sem útvörður ónæmiskerfisins. Húðin skiptist í þrjú lög: Yfirhúð (epidermis), leðurhúð (dermis) og undirhúð (subcutis, fitu). Öll hafa þau sína eiginleika og sitt hlutverk. Í neðsta lagi yfirhúðar, á mörkum hennar og leðurhúðar, eru litafrumur, svokallaðar sortufrumur (melanocytes). Þær framleiða dökkt litarefni, melanín, en hlutverk þess er fyrst og fremst talið vera að verja okkur fyrir útfjólublárri geislun sólarinnar. Þegar sólin skín á húðina eykst framleiðsla á melaníni og sortufrumum fjölgar. Húðin verður þá brúnni til að geta varið líkamann gegn sólargeislun. Stór hluti litlu dökku blettanna sem flestir eru með á húðinni er samansafn margra sortufruma og eru kallaðir fæðingarblettir (brár, nevi). Freknur (ephelides) eru ljósbrúnir blettir á húð sem stafa af aukningu litarefnis í grunnlögum húðar, t.d. eftir sólböð og fylgja ákveðinni húðgerð.

Sortuæxli í húð eru alvarlegustu húðkrabbameinin og í þeim hafa sortufrumur umbreyst í krabbameinsfrumur. Þau myndast oftast út frá óreglulegum blettum (dysplastic nevi) en geta einnig myndast sem nýir blettir. Æxli af þessari gerð geta myndast í öðrum líffærum en húð, t.d. í auga, endaþarmi eða munn- og nefslímhúð, en það er mjög sjaldgæft.

Algengasta gerð húðkrabbameins nefnist grunnfrumukrabbamein. Æxlið myndast í dýpsta lagi yfirhúðarinnar (grunnfrumulaginu) og er algengast allra krabbameina. Þetta eru æxli sem eru lítið illkynja því þau dreifa sér mjög sjaldan um líkamann, þ.e. mynda mjög sjaldan meinvörp og eru því á mörkum þess að uppfylla skilgreiningu illkynja æxlis. Þau hafa því hingað til ekki talist með í tölfræði um krabbamein þótt ýmsar krabbameinsskrár safni upplýsingum um þessi mein.

Hinn meginflokkur húðkrabbameins sem myndast í yfirhúð er flöguþekjukrabbamein. Flöguþekjukrabbamein hefur aukist verulega meðal íslenskra kvenna. Þær voru í neðsta sæti en tróna nú í efsta sæti meðal kvenna á Norðurlöndunum voru komnar í efsta sæti á árunum 1995 til 2000.

Krabbameinsfélagið