Erythema multiforme

Erythema multiforme

Prenta

Erythema multiforme er sjúkdómur sem stendur yfirleitt stutt, nema að fylgikvillar komi fram. Þessi sjúkdómur stafar af eins konar ofnæmissvörun líkamans gegn utanaðkomandi þætti. Útbrotin eru oftast dæmigerð og geta líkst “skotskífum” en einnig geta komið fram blöðrur. Sjúkdómnum er oft skipt í tvö form, erythema multiforme minor (sem stundum er bara kallað erythema multiforme) og erythema multiforme major, sem oftast er kallað  Stevens-Johnson syndrome. Við minor formið má sjá skellur á handleggjum, höndum, hnjám og fótum. Oft líkjast þessi útbrot skotskífum. Í miðjunni myndast stundum blöðrur. Flestir ná sér fullkomlega á nokkrum dögum upp í 2-3 vikur.

Stevens-Johnson syndrome (major formið) er mun alvarlegra, en einnig sjaldgæfara. Flestir þessara sjúklinga eru mjög veikir og oft með háan hita. Meðhöndlun fer alltaf fram á sjúkrahúsi. Blöður eða sár eru mun útbreiddari og oft þannig að veruleg hætta er á sýkingum, líkt og eftir útbreiddan bruna. Blöðrur og sár geta myndast í munni, kynfærum og augum. Í augum getur bólgan leitt til örmyndunar og jafnvel blindu. Sjúkdómur sem nefnist “Toxic epidermal necrolysis (TEN) “ er stundum flokkaður með erythema multiforme. Orsakir eru svipaðar, en hér losnar húðin nánast alveg frá undirhúðinni. TEN er mjög sjaldgæfur sjúkdómur og stafar oftast af lyfjum.

Ekki tekst alltaf að finna orsakir erythema multiforme. En eftirfarandi orsakir eru algengastar: Veirusýking (oftast herpes simplex), aðrar sýkingar (oftast streptokokkar eða mycoplasma), lyf og ýmsir sjúkdómar.Meðferðin er einstaklingsbundin og fer eftir einkennum. Mikilvægt er að greina og meðhöndla undirliggjandi sjúkdóm og ef um lyf er að ræða þarf að hætta töku þess tafarlaust. Eftirfarandi lyf eru stundum notuð: Sterakrem, steratöflur eða steragjöf í æð, cyclosporin (Sandimmun Neoral),sýklalyf, veirulyf, sárameðferð eða bakstrar og munnskol .

Flestir ná sér að fullu. Húðin getur verið mislit og örótt eftir. Sumir kvarta um breytta skynjun í búðinni hafi bólgan verið mikil. Dæmi eru þess að hársekkir skaddist og hár komi ekki aftur að fullu. Þegar veirur eru orsök sjúkdómsins getur verið þörf á fyrirbyggjandi meðferð með veirulyfjum. Ef sjúkdómurinn orsakaðist af lyfi má aldrei taka það lyf aftur.


Nánar á (enskur texti):