Ávaxtasýrur: Hvað hentar þinni húð?

Ávaxtasýrur: Hvað hentar þinni húð?

Prenta

Sagan segir að sjálf Kleópatra drottning hafi stundað mjólkurböð til að viðhalda húðinni áferðarfallegri og hreinni. Hvað var það í mjólkinni sem hafði þessi áhrif? Jú, mjólkursýran. Spólum áfram um rúm tvö þúsund ár og sýrur í húðumhirðu hafa aldrei verið vinsælli. 

Í dag eru í boði þónokkrar gerðir af sýrum fyrir húðina, sem hafa misjafna verkun á hana. Algengast er að þær skiptist í tvo flokka: AHA-sýrur (e. Alpha hydroxy acid) og BHA-sýrur (e. Beta hydroxy acid). Helsti munurinn er sá að AHA-sýrur eru vatnsleysanlegar og vinna á yfirborði húðarinnar á meðan BHA-sýrur eru fituleysanlegar og leysa því upp húðfitu og dauðar húðfrumur ofan í svitaholunum. PHA-sýrur (e. Polyhydroxy acid) eru þriðji flokkurinn af andlitssýrum en þær eru þó ekki eins algengar og tveir fyrrnefndu flokkarnir. Þær þolast þó gjarnan betur, ef um viðkvæma húð er að ræða. 

Hvað gera AHA-sýrur?

AHA-sýrur leysa upp „límið“ sem heldur dauðum húðfrumunum saman en þegar það gerist virkjast viðgerðarferli húðarinnar. Það verður til þess að nýmyndun kollagens eykst og sjáanleg öldrunarmerki á húðinni geta orðið minna áberandi. Þar sem AHA-sýrur vinna á yfirborði húðarinnar, og örva endurnýjun hennar, eru þær gjarnan notaðar til að vinna gegn litabreytingum á húðinni, svo sem sólarflekkjum og melasma. Glýkólsýra (e. Glycolic acid) er ein vinsælasta sýran í þessum flokki og með flestar rannsóknir á bak við sig. Það sem gerir glýkólsýruna sérstaka er smæð sameindar hennar, hún nær dýpra niður í ysta lag húðarinnar en aðrar sýrur. Sömuleiðis hefur glýkólsýran þann eiginleika að hjálpa húðinni að viðhalda náttúrulegu rakastigi sínu. Önnur vinsæl sýra, sem flokkast sem AHA-sýra, er mjólkursýran (e. Lactic acid). Þessi sýra er sambærileg glýkólsýrunni en vinnur þó hægar, þar sem sameindin er stærri og fer ekki eins hratt inn í húðina. Hún hefur því gjarnan hentað viðkvæmri húð betur en báðar sýrurnar eru yfirleitt í 5-15% styrkleika í almennum húðvörum.

Húðvörur sem innihalda AHA-sýrur:

SkinCeuticals Glycolic 10 Renew Overnight

Næturmeðferð með 10% glýkólsýru sem leysir upp dauðar húðfrumur og gerir húðina ljómandi og bjartari ásýndar.

Pestle & Mortar NMF Lactic Acid Toner

Húðbætandi andlitsvatn sem inniheldur mjólkursýru og glúkanólaktón í samtals 5% styrkleika. Formúlan er sérlega rakagefandi í þokkabót  og gerir húðina mýkri og jafnari ásýndar. 

Hvað gera BHA-sýrur?

Á meðan AHA-sýrur eru vatnsleysanlegar og vinna á yfirborði húðarinnar þá eru BHA-sýrur fituleysanlegar. Þetta þýðir að að henni tekst að leysa upp húðfitu og hreinsa dýpra ofan í svitaholurnar. Salisýlsýra (e. Salicylic acid) er algengasta form BHA-sýru og er mikið notuð til að meðhöndla feita húð, bólur og fílapensla. Hún hefur einnig bólgueyðandi áhrif og væg bakteríudrepandi áhrif, sem hentar vel gegn bólgusjúkdómum, en þar sem hún er mildari en AHA-sýrur þá hentar hún betur viðkvæmri húð. Salisýlsýra er yfirleitt í styrkleika á milli 0.5 – 2% í almennum húðvörum. 

Húðvörur sem innihalda BHA-sýrur:

SkinCeuticals Blemish + Age Defense
Olíulausir húðdropar sem bæði vinna bæði gegn bólum og öldrunarmerkjum á húðinni. Inniheldur meðal annars 1.5% salisýlsýru ásamt 3.5% glýkólsýru. 

Paula‘s Choice Skin Perfecting 2% BHA Liquid Exfoliant 

Andlitsvatn sem leysir stíflur í svitaholum, mýkir ásýnd fínna lína og jafnar húðtóninn. Inniheldur hámarksstyrk salisýlsýru, sem er 2%, ásamt grænu tei, sem veitir andoxandi áhrif. 

Hvað gera PHA-sýrur? 

Þriðji flokkurinn af sýrum eru PHA-sýrur en þær eru þó ekki eins algengar og BHA- eða AHA-sýrur. Dæmi um PHA-sýrur eru glúkónólaktón (e. Gluconolactone) og laktóbíónsýra (e. Lactobionic acid). Þær búa yfir talsvert stærri sameindum en AHA-sýrur og fara því mun hægar inn í húðina. Þessar sýrur þolast því yfirleitt vel hjá fólki með viðkvæma húð sem auðveldlega roðnar. PHA-sýrur veita húðinni jafnframt andoxandi áhrif og verndar hana því gegn sindurefnum, sem valda bæði skemmdum á húðinni og niðurbroti á kollageni. 

Húðvörur sem innihalda PHA-sýru:

Neostrata Bionic Face Cream PHA 12

Andlitskrem sem vinnur gegn öldrunarmerkjum á húðinni og bætir yfirbragð húðarinnar. Formúlan inniheldur bæði glúkónólaktón og laktóbíónsýru í samanlögðum 12% styrkleika. 

Hvað skal varast við notkun sýru á húðina?

Notkun sýra á húðina getur verið tvíeggja sverð. Séu þær rétt notaðar verður húðin ljómandi og áferðarfallegri. Ef þú notar þær rangt getur húðin orðið þurr og ert. Fyrir venjulegar húðgerðir er ágætt að prófa sig áfram með milda sýru annað hvert kvöld en ef húðin þín er viðkvæm er betra að nota milda sýru einu sinni eða tvisvar sinnum í viku og auka notkunina, ef hún þolist vel. Ekki skal nota sýru oftar en einu sinni á dag, annan hvern dag ef um glýkólsýru er að ræða. Húðin kann að verða viðkvæmari með notkun sýru svo mikilvægt er að nota að minnsta kosti sólarvörn með SPF 30 samhliða. 

Öflugri meðferð 

Húðlæknastöðin býður upp á sýrumeðferðir þar sem þrennskonar styrkleikar eru í boði: 35%, 50% og 70%. Yfirleitt er mælt með því að viðkomandi prófi formúlu með AHA-sýru heima hjá sér til að ganga úr skugga um að hann þoli sterkari meðferð. Öflug sýrumeðferð er góð leið til að vinna á daufu litarhafti á haustin eða um vetur, þegar húðin á það til að missa ljóma sinn. Í meðferðinni er sýrunni penslað á þurra og hreina húð en meðferðaraðili fylgist náið með viðbrögðum húðarinnar. Þegar meðferðin hefur náð takmarki sínu er önnur formúla borin yfir húðina, til að hlutleysa sýrurnar og stöðva virkni þeirra. Gott er að taka eina meðferð til að örva starfsemi húðarinnar en bestur árangur kemur eftir fjórar til sex meðferðir. Húðin fær jafnara og sléttara yfirbragð, ásýnd svitahola minnkar, jafnvægi kemst á fituframleiðslu ásamt því að húðin tekur upp aukinn raka. Þar sem sýrumeðferðin hefur töluverð áhrif á kollagenframleiðslu húðarinnar, virkar hún vel sem fyrirbyggjandi meðferð gegn öldrunarmerkjum á húðinni. Meðferðin hentar flestum húðgerðum, nema viðkvæmri húð eða húð með virka bólgusjúkdóma á við rósroða.