Fara á efnissvæði

Hvaða vörur og meðferðir henta þér?

Með því að svara nokkrum spurningum getum við leiðbeint þér með mögulegar húðmeðferðir og viðeigandi vörur sem henta þinni húðgerð

Á hvaða aldri ert þú?

Hvaða húðgerð ertu með?

Hvaða húðvandamál ertu með/ hvað viltu leggja áherslu á að meðhöndla?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið einn valmöguleika.

Hefur þú áhuga á að hafa virk innihaldsefni í húðrútínunni?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið fleiri en einn valmöguleika.

...eitt að lokum

Með því að skrá þig á póstlista Húðlæknastöðvarinnar færð þú sérkjör auk upplýsinga um nýjar meðferðir, húðvörur, tilboð og almenna fræðslu.

Augnablik...

PRP (platelet rich plasma) meðferð

Til að örva hárvöxt og koma í veg fyrir frekara hártap.

Istock 1282976326

PRP meðferð er læknisfræðileg meðferð til að vinna gegn hártapi og örva nýjan hárvöxt. Þessi meðferð virkar ekki á allar gerðir hársjúkdóma sem valda hártapi en hefur sýnt fram á góðan árangur gegn hársjúkdómi sem kallast androgen alopecia, eða hormónatengt hártap. Samkvæmt klínískum rannsóknum er meðferðarárangurinn betri hjá karlmönnum með hormónatengt hártap, en hjá kvenmönnum. Meðferðin ber bestan árangur þegar hár fer að þynnast en er ekki horfið. Aldrei er hægt að fullyrða um árangur af meðferðinni.

Hvað er PRP?

PRP stendur fyrir “Platelet Rich Plasma” og gengur út á að blóðvökvi (plasma) er einangraður frá þínu eigin blóði og sprautað í húðina þar sem hártap hefur orðið til að örva hársekkina. Blóðvökvinn (plasmað) inniheldur mikið magn af blóðflögum (thrombocytum), vaxtarþáttum og virkum ensímum sem örva hársekkina til að mynda nýtt hár og viðhalda hárvexti. 

Þetta er mjög örugg og áhrifarík meðferð og á bak við hana liggur áratuga reynsla innan læknisfræðarinnar og fjöldi klínískra rannsókna. 

Þrátt fyrir kosti þessarar meðferðar er ekki hægt að meðhöndla alla. Ekki er hægt að meðhöndla einstaklinga með lifrarbólgu B eða C og ekki er hægt að meðhöndla einstaklinga með HIV því þó að blóðið sé meðhöndlað í lokuðu kerfi er alltaf smithætta til staðar.

Hvernig fer meðferðin fram?

Meðferðin byrjar á því að meðferðarsvæði er deyft með kremi. Deyfingin þarf að virka í eina klukkustund áður en hægt er að byrja meðferðina. Alltaf verða einhver óþægindi við meðferðina þó reynt sé að draga úr þeim. Svo er dregið blóð frá sjúklingnum og það unnið þannig að blóvökvinn (PRP) er skilinn frá heilblóðinu. Magnið sem er tekið er um það bil það sama og við hefðbundna blóðprufu.

Áður en blóðvökvanum er nuddað inn í hársvörðinn er gerð svokölluð örnálarmeðferð (e.microneedling) yfir meðferðarsvæðið. Þessi meðferð kallast Dermapen og þar er notaður einnota nálahaus með 12 örnálum sem mynda ca 1300 örsmáa ganga í húðina á sekúndu. Örgangarnir sem myndast leiða svo blóðvökvann sem er nuddað í hársvörðinn djúpt inn í húðina. Rannsóknir hafa sýnt að meðhöndlun með örnálarmeðferð ásamt PRP er áhrifaríkari meðferð en að meðhöndla einungis með PRP. 

Meðhöndlunin tekur um tvær klukkustundir með deyfitímanum.

Hver er árangurinn?

Við mælum með einni meðferð í hverjum mánuði fyrstu 3-6 mánuðina til að bæði fyrirbyggja frekara hártap og örva nýjan hárvöxt. Þar á eftir er það viðhaldsmeðferð sjötta hvern mánuð.

Hvað ber að hafa í huga fyrir meðferðina?

● Þú þarft að fara í viðtal til læknis áður en þú kemur í meðferðina. Þetta er nauðsynlegt til að staðfesta vandann og til að ákveða hvort þurfi stoðmeðferð.

● Ef þú ert að taka inn einhver blóðþynnandi lyf að staðaldri þarftu að láta okkur vita og við förum í gegnum það mér í fyrsta viðtalinu hvort þú þurfir að hætta að taka það inn tímabundið eða ekki.

● Ekki er hægt að meðhöndla hársvörðinn ef það er bólgusjúkdómur til staðar á meðferðarsvæðinu, t.d. flösuexem eða psoriasis. Þá þarf að meðhöndla sjúkdóminn fyrst og ná niður einkennum áður en meðhöndlunin er framkvæmd.

● Meðferðin er ekki framkvæmd á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

● Passaðu þig að borða vel áður en þú mætir og drekka vel vatn svo þú sért með nægilega orku fyrir meðferðina.

● Ekki drekka alkóhól daginn áður eða á meðferðardaginn.

 

Hvað ber að hafa í huga eftir meðferðina?

● Eftir meðferðina ertu með nokkur stungusár í hársverðinum og væga bólgu kringum stungustaðina. Ekki nudda svæðið meðferðardaginn þar sem húðin er opin og gæti sýkst ef farið er með fingurnar í sárin.

● Ekki er ráðlagt að fara í ræktina eða stunda líkamsrækt meðferðardaginn. Betra er að taka því rólega.

● Ekki drekka alkóhól meðferðardaginn vegna blóðþynnandi áhrifa.

Hvað kostar meðferðin?

Það fer eftir umfanginu og þá hve mikið magn af blóðvökva þarf að nota við hvert meðferðartilfelli. Verð fyrir standard meðferð er 80.000 kr fyrir hvert skipti. Veittur er afsláttur ef keypt eru 3 skipti í einu og þá kosta 3 skipti 204.000 kr. Verð fyrir stærri meðferð er  95.000 kr fyrir stakt skipti en veittur er afsláttur ef keypt eru 3 skipti í einu og þá kosta 3 skipti 242.250 kr.

Prentvæn útgáfa