Fara á efnissvæði

Hvaða vörur og meðferðir henta þér?

Með því að svara nokkrum spurningum getum við leiðbeint þér með mögulegar húðmeðferðir og viðeigandi vörur sem henta þinni húðgerð

Á hvaða aldri ert þú?

Hvaða húðgerð ertu með?

Hvaða húðvandamál ertu með/ hvað viltu leggja áherslu á að meðhöndla?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið einn valmöguleika.

Hefur þú áhuga á að hafa virk innihaldsefni í húðrútínunni?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið fleiri en einn valmöguleika.

...eitt að lokum

Með því að skrá þig á póstlista Húðlæknastöðvarinnar færð þú sérkjör auk upplýsinga um nýjar meðferðir, húðvörur, tilboð og almenna fræðslu.

Augnablik...

Kynfæravörtur

Kynfæravörtur eru einn algengasti kynsjúkdómur í heiminum í dag. Áætla má að á Íslandi greinist um 800 einstaklingar með slíkar vörtur árlega. Algengið virðist svipað í nágrannalöndum okkar.

Kynfæravörtur orsakast af veirusýkingu og er veiran sem vörtunum veldur kölluð HPV veira (Human Papilloma Virus). Yfir 100 undirflokkar þessarar veiru er þekktir. Undirflokkarnir eru númeraðir eftir því hvenær þær uppgötvuðust, þe HPV 1, HPV 2, HPV 3 osfrv. Einungis nokkrir undirflokkar HPV veira smita kynfæri og valda kynfæravörtum. Þeir undirflokkar sem hafa greinst í vörtum á kynfærum eru HPV 6,8,11,16,18, 32,33,34.

Við smit komast veirunar inn í frumur húðar eða slímhúðar á kynfærum. Þær nýta sér svo frumurnar til að fjölga sér svo afleiðingin verður offjölgun á frumum sem eru fullar af veirum. Veirur geta ekki lifað einar sér og er þeim lífsnauðsynlegt að notfæra sér kjarna í frumum hýsils til fjölga sér. Í þessu tilviki eru það frumur húðar og slímhúðar þess sem sýkist af kynfæravörtum. Ónæmiskerfi húðarinnar sér um að eyða veirum en þar sem þær eru innan í frumunum er erfitt að útrýma þeim án þess að skaða frumurnar sjálfar um leið. Ónæmiskerfinu tekst þó yfirleitt að lokum að losa líkamann við sýkinguna en það getur tekið mjög langan tíma.

Talið er að einungis lítill hluti þeirra sem smitast af kynfæravörtu veirum fái kynfæravörtur sem sjást með berum augum. Talið er líklegt að um 80% þeirra sem stunda kynlíf hafi einhvern tíma smitast af kynfæravörtu sýkingu. Kynfæravörtur eru algengastar á aldrinum 16-28 ára. Kynfæravörtusmit einkennist af langvarandi sýkingu sem er auk þess lengi að koma í ljós og lengi að hverfa úr líkamanum.

Venjulegar vörtur eins og koma á fætur og hendur eru veirusmit af völdum annara tegunda HPV veira. Þær myndast, eins og kynfæravörtur, við að veirurnar komast inn um litlar glufur eða sár á húðinni og taka sér bólfestu í húðfrumunum.Á sama hátt og kynfæravörtur eru þær oft lengi að koma í ljós eftir smit og lengi að hverfa.

Smitleiðir

Kynfæravörtur smitast fyrst og fremst við samfarir. Aðrar smitleiðir eru sjaldgæfar ef smábörn eru undanskilin. Þeir sem smitast eru aðallega ungt fólk sem hefur haft nokkra rekkjunauta. HPV veirur geta smitast við munnmök. Smokkar veita ekki fullkomna vörn gegn kynfæravörtum.Stundum smitast vörturnar þar sem smokkurinn hylur ekki eins og við rót lims hjá körlum eða hjá konum á ytri barma og neðst á kvið þar sem smokkur ver ekki.

Meðgöngutími sýkingar

Með meðgöngutíma er hér átt við tíma frá smiti þar til vörturnar koma í ljós. Oftast er þessi tími 3-9 mánuðir en hann getur verið skemmri eða niður í fára vikur. Dæmi eru þess að kynfæravörtur séu mjög lengi að koma í ljós eða jafnvel einhver ár. Í þeim tilfellum virðist sem veiran liggi í dvala án þess að valda einkennum en vakni úr dvalanum þegar ónæmiskerfið veikist og þá koma vörturnar í ljós. Stundum hendir þetta við breytingar á ónæmimskerfinu eins og þegar konur verða þungaðar.

Tímalengd sýkingar

Þegar kynfæravörtur hafa myndast geta þær verið mjög lengi að hverfa jafnvel þó öflug meðferð sé í notuð. Vörturnar eru oft til staðar í marga mánuði og jafnvel í mörg ár. Um 20% sjúklinga með kynfæravörtur læknast án meðferðar innan 6 mánaða. Margir þættir geta haft áhrif á lengd sýkingarinnar. Dæmi um það eru: Ástand ónæmiskerfis, reykingar, af hvaða undirflokki veirusýkingin er, hvort viðkomandi hafi aðra kynsjúkdóma, hve útbreidd sýkingin er, aldur einstaklings sem smitast og hugsanlega fyrra smit með HPV veirum.

Afleiðingar sýkingar

Alvarlegasta afleiðing HPV sýkingar getur verið að líkur á myndun krabbameina aukast. Algengast er legháskrabbamein en einnig geta líkur á myndun krabbameins á getnaðarlim, í endaþarmi og í leggöngum aukist af völdum veirusýkingarinnar. Rannsóknir hafa sýnt að smit vissra tegunda HPV veira eykur líkur á leghálskrabbameini meira en eftir aðrar tegundir veira. Þessir HPV undirflokkar eru HPV 16, 18, 31,33,35.
Þessir undirflokkar mynda mun sjaldnar sýnilegar kynfæravörtur en HPV 6 og 11. Þess venga þurfa allar konur sem stunda kynlíf að láta taka strok frá leghálsinum reglulega. Í leghálsstroki er hægt að sjá hvort um byrjandi illkynja breytingar geti verið að ræða. Ennþá er illmögulegt að greina undirflokka veirutegunda sem ofan eru nefndar. Í náinni framtíð verður hægt að greina veiruflokkana og sjá hvort um hættulega HPV veirutegund er að ræða og þá velja þá sjúklinga út til nánara eftirlits. Ekki er talið að kynfæravörtusmit valdi ófrjósemi, fósturláti eða vansköpun. Afar sjaldgæft er að konur sem hafa smitast af kynfæravörtum þurfi keisaraskurð.

Staðsetning kynfæravartna

Algengast er að vörturnar séu í leggangsopi kvenna og innan á forhúð karla. Aðrir algengir staðir hjá konum eru á ytri börmum, á spöng (svæði milli leggangsops og endaþarms) í leggöngum, á leghálsi og við endaþarm. Hjá körlum sjást vörtur oft og á skafti lims, í og við þvagrásarop og við endaþarm.

Greining á kynfæravörtum

Oft sjást kynfæravörtur vel með berum augum og hafa dæmigert útlit. Stundum eru vörturnar flatar og geta þá verið sem rauðleitir, brúnleitir eða húðlitaðir flekkir. Sé veik ediksýrulausn borin á slíkar vörtur geta þær litast hvítar og afmarkast frá ósýktri húð. Í vafatilfellum getur læknirinn tekið lítið húðsýni frá grunsamlegu húðsvæði og sent til meinafræðings í smásjárgreiningu. Ræktun á vörtuveirum hefur til skamms tíma verið ógerleg. Þó að slíkt sé hægt í dag er sú aðferð mjög kostnaðarsöm og tímafrek og hvergi framkvæmd nema um vísindarannsóknir sé að ræða. Sums staðar er hægt að greina veirurnar í húð og slímhúð með svo kallaðri kjarnsýrumögnun (PCR) en slíkar rannsóknaraðferðir eru ekki orðnar hefðbundnar. Algengt er að taka strok frá leghálsi til að kanna hvort breytingar sjáist í frumumynd sem tengdar hafa verið við kynfæravörtur.

Meðferðarmöguleikar

Enn sem komið eru engin lyf til sem eyða veirunum sem valda kynfæravörtum. Meðferð felst í því að eyða sjáanlegum vörtum annað hvort með því að bera frumudrepandi efni á þær eða valda frumuskemmdum í þeim með brennslu eða frystingu. Talið er að við meðferð á vörtum örvist ónæmiskerfið og sé fljótara að losa líkamann við veirurnar.

Helsta meðferð

Podofyllotoxin (Condylin). Efni þetta er mjög sterkt og frumudrepandi. Það er oft borið á vörturnar 3 daga í röð og svo tekin hvíld í 4-7 daga. Þá er aftur meðhöndlað 3 daga í röð og síðan 4-7 daga hvíld osfrv. Oft eru gefnar 3-6 slíkar meðferðarlotur. Kosturinn við þessa meðferð er að hana geta margir framkvæmt sjálfir heima hjá sér, sérstaklega karlmenn. Konur eiga stundum erfiðara að sjá hvar vörturnar eru. Aðrir ókostir eru að efnið er ertandi og þungaðar konur mega ekki nota það.
Imiquimod (Aldara). Hér er um að ræða efni sem virðist örva ónæmiskerfi húðarinnar til að ráðast á veirurnar og hjálpa því að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Imiquimod er notað í nokkurra daga í senn svipað og Podofyllotoxin og húð hvíld frá meðferð milli meðferðarlotanna. Efnið er nokkuð ertandi.
Frysting með köfnunarefni. Vörturnar er hægt að frysta með köfnunarefni. Við það myndast kalskemmdir í hinum sýktu frumum og þegar húðin jafnar sig eftir frystinguna hafa oft vaxið eðlilegar frumur í stað hinna sýktu. Frystingarnar þarf oft að endurtaka með nokkurra vikna millibili og þær eru fremur sársaukafullar.
Brennsla með laser. Hægt er að brenna kynfæravörtur burtu með allmikilli nákvæmni með koltvísýringslaser. Slík meðferð er oft áhrifameiri en frysting en krefst mikillar þjálfunar þess sem aðgerðina framkvæmir. Vörturnar þarf að staðdeyfa fyrir brennslu og er það oft gert með staðdeyfikremi. Endurtaka getur þurft laserbrennslu líkt að aðra vörtumeðferð.
Brennsla með rafmagni (diathermi) Einnig er hægt að brenna vörturnar burtu með rafmagnsaðgerð. Slík brennsla var mjög algeng fyrir tíma lasertækja. Þessi aðgerð getur verið mjög góð í höndum vanra lækna. Örmyndun verður þó oftast heldur meiri og það tekur lengri tíma að gróa en eftir laser meðferð.

Hvenær er ekki lengur hætta á smiti?

Þar sem húð og slímhúð getur verið sýkt af vörtuveiru án þess að ummerki sjáist er erfitt að segja fyrir um hættu á smiti. Sé um að ræða fólk sem ekki er í föstu sambandi og hefur haft kynfæravörtur þá er rétt að nota smokk í byrjun allra sambanda. Að sjálfsögðu gildir þetta einnig um skyndikynni. Þó smokkurinn sé ekki fullkomlega góð vörn gegn veirunum er hann besta alhliða vörnin gegn kynsjúkdómum. Haldi sambönd síðan áfram er rétt að greina frá sögu um vörtusmit. Hafi engar vörtur sést í ár er hætta á að smita rekkjunaut lítil en séu einungis nokkrir mánuðir liðnir frá því að vörtur sáust síðast en hætta á smiti meiri. Hafa ber í huga að greining á vörtum getur verið mjög erfið og árangur meðferðar ófullnægjandi. Þess vegna er ekki hægt að nefna nákvæman tíma frá því vörtur eru ekki lengur sjáanlegar þar til hætta er á smiti er liðin hjá. Margir sérfræðingar telja kynfæravörtur vera mest smitandi þegar þær hafa nýlega myndast og smitlíkurnar svo minnka með tímanum.Rannsóknir hafa sýnt að HPV veiran er mjög smitandi og ef annar aðilinn í sambandi hefur HPV sýkingu á kynfærum hefur hinn aðilinn líklega einnig sýkst.

Pör með kynfæravörtur

Stundum uppgötvast kynfæravörtur hjá einum aðila í sambandi eða hjónabandi sem staðið hefur í mörg ár. Slíkt þarf alls ekki að vera merki um ótryggð vegna eiginleika HPV veiranna að liggja í dvala jafnvel árum saman. Hafi annar aðilinn í sambandinu vörtur sem verið er að meðhöndla er rétt að nota smokk á meðan meðferð stendur en annars er líklega lítið gagn af smokkum með tilliti til HPV sýkingar þegar viðkomandi hafa verið í sambandi í langan tíma. HPV sýkingar eru jafn algengar hjá hommum og gagnkynhneigðum og þær geta einnig smitast milli kvenna þó það sé sjaldgæfara.

Þungun og kynfæravörtur

Algengt er að kynfæravörtur vaxi hraðar þegar konur verða þungaðar. Vörtur sem varla hafa verið rétt sjáanlegar, geta stækkað mikið á skömmum tíma. Líklega er þetta vegna hormónabreytinga og tímabundinni breytingu á ónæmiskerfinu sem á sér stað við þungun. Verði mikill vöxtur á kynfæravörtum á meðgöngu þarf stundum að meðhöndla þær á róttækari hátt en ella. Podofyllin eða Podofyllotoxin (Condyline) má ekki nota á þungaðar konur þar sem þessi efni geta valdið fósturskaða. Þar eð lítið er vitað um áhrif Imiquimod (Aldara) á fóstur er einnig ráðlegt að forðast það hjá þunguðum konum. Brennsla með rafmagni eða laser svo og frysting með köfnunarefni eru taldar alveg skaðlausar meðferðir og því notaðar ef ákveðið er að meðhöndla þungaðar konur sem greinst hafa með kynfæravörtur.

Kynfæravörtur hjá smábörnum

Stundum greinast lítil börn með vörtur á kynfærum eða við endaþarm. Kornabörn geta smitast af HPV veirunni við fæðingu og geta vörturnar komið í ljós mörgum mánuðum eða jafnvel nokkrum árum síðar.Í mörgum tilfellum kemur í ljós að kynfæravörtur smábarna eru af völdum annara HPV veira en kynfæravörtur fullorðinna. Í þeim tilfellum virðist veiran geta borist á kynfærin með fingrunum. Stundum eru kynfæravörtur smábarna merki um kynferðislega misnotkun. Líkur á slíkri misnotkun er meiri því eldri sem börnin eru.Þó ber að hafa í huga að t.d smit frá fingurvörtum, eins og ofan er nefnt, er einnig hugsanlegt. Sé grunur um að vörtur á kynfærum barna séu orsakaðar af misnotkun er mjög mikilvægt að barnið og fjölskylda þess sé skoðaðaf læknum og sérhæfðu starfsfólki sem er vant að fást við slík mál. Meðferð kynfæravartna smábarna er oft erfið. Stundum er ekki þörf á slíkri meðferð þvíeins og hjá fullorðnum sér ónæmiskerfið oftum að losa líkamann við veiruna og vörturnar hverfa þá af sjálfu sér.

Andleg áhrif kynfæravörtusmits

Að greinast með kynfæravörtur veldur oft andlegu áfalli. Stundum er greiningin mjög óvænt fyrir viðkomandi. Algengar tilfinningar geta meðal annars verið sekt, skömm og einangrunartilfinning. Mörgum finnst þeir vera óhreinir og verða þá hræddir við að smita aðra. Reiði út í þann sem talinn hafa smitað er algeng en er stundum að ósekju því erfitt eða ómögulegt getur verið að vita hver sökina ber. Sumir afneita vandamálinu og trúa ekki greiningunni. Mikilvægt er að ræða sjúkdóminn við lækninn og spyrja spurninga og hefur það oft góð áhrif. Gott er að fá skriflegar upplýsingar um sjúkdóminn og lesa í ró og næði. Einnig er mikilvægt að ræða málið við makann eða rekkjunautinn. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hve algengar kynfæravörtur eru og að með tímanum vinnur ónæmiskerfið á sýkingunni í flestum tilfellum.

Samantekt

HVP veirur sem valda krabbameini eru oft aðrar en þær sem valda sýnilegum kynfæravörtum
Flestar HVP sýkingar á kynfærum sjást ekki með berum augum Ónæmiskerfið sér oft um að eyða HVP úr líkamanum Þegar ónæmiskerfið hefur eytt einum undirflokki HPV veira úr húðinni er líkaminn ónæmur fyrir þeim undirflokki en getur líklega smitast af öðrum HPV veirum. Blóðprufur eru gagnslausar við greiningu HPV sýkinga nýrra eða gamalla, a.m.k. þegar þetta er ritað. Hafi annar aðilinn í föstu sambandi kynfæravörtur er hinn aðilinn annað hvort sýktur eða ónæmur fyrir sýkingunni. Með meðferð er hægt að eyða sjáanlegum vörtum en ekki veirunni úr húðinni eða slímhúðunum en veirurnar hverfa einnig þaðan með tímanum HPV sýkingin hefur ekki áhrif á frjósemi eða fóstur þó að börn geti smitast við fæðingu. Það er þó ekki algengt.

Prentvæn útgáfa

Hafðu samband

Hafir þú einkenni eða þjáist af þeim sjúkdómum sem fjallað er um hér er hægt að bóka tíma hjá lækni.

Tímapantanir

9:00–12:00 og 13:00–15:30

Skiptiborð

520 4444