Fara á efnissvæði

Hvaða vörur og meðferðir henta þér?

Með því að svara nokkrum spurningum getum við leiðbeint þér með mögulegar húðmeðferðir og viðeigandi vörur sem henta þinni húðgerð

Á hvaða aldri ert þú?

Hvaða húðgerð ertu með?

Hvaða húðvandamál ertu með/ hvað viltu leggja áherslu á að meðhöndla?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið einn valmöguleika.

Hefur þú áhuga á að hafa virk innihaldsefni í húðrútínunni?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið fleiri en einn valmöguleika.

...eitt að lokum

Með því að skrá þig á póstlista Húðlæknastöðvarinnar færð þú sérkjör auk upplýsinga um nýjar meðferðir, húðvörur, tilboð og almenna fræðslu.

Augnablik...

Klamydía

Klamydía er kynsjúkdómur sem smitast með bakteríunni Chlamydia trachomatis. Bakterían tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra, þvagrásar eða í endaþarmi og getur valdið bólgum á þessum stöðum. Bakterían getur líka farið í slímhúð augna og jafnvel í háls og valdið þar sýkingu. Um 2000 Íslendingar greinast árlega með klamydíu.

Istock 1289263339

Hvernig smitast klamydía?

Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð annars einstaklingsins kemst í snertingu við slímhúð hins. Bakteríurnar geta líka smitað við munnmök. Viss hætta er á því að klamydía geti borist í augu ef sýktur einstaklingur snertir kynfærin og nuddar síðan augun. Þess vegna er góður handþvottur mikilvægur, t.d. eftir að farið er á salerni.

Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?

Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.

Er klamydía hættuleg?

Klamydíubakterían er hættuleg af því að hún getur valdið ófrjósemi hjá konum vegna bólgu í eggjaleiðurum sem síðan geta lokast. Klamydía er ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna. Vegna þessarar hættu er mikilvægt að meðhöndla sjúkdóminn tímanlega. Meðhöndlun klamydíu er einföld, en það getur verið erfitt að vita hvort maður er smitaður eða ekki þar sem sjúkdómurinn er oft einkennalaus.

Hver eru einkenni klamydíu?

Eins og gildir um marga kynsjúkdóma eru margir smitaðir af klamydíu án þess að vera með nein einkenni.

Þegar einkenni koma fram eru þau eftirfarandi:
Konur:
● Breytt útferð eða blæðing milli tíða.
● Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
● Verkir í grindarholi. Fáir þú einnig hita, ættir þú að leita læknis samdægurs.

Karlar:
● Glær vökvi, gul eða hvít útferð úr þvagrásinni (það á aldrei að vera útferð úr þvagrás karla).
● Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
● Eymsli og/eða verkir í pung.

Klamydíusýking getur í einstaka tilvikum valdið liðverkjum og liðbólgum bæði hjá körlum og konum.

Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?

Ef þú á annað borð færð einkenni koma þau oft í ljós einni til þremur vikum eftir kynmökin sem leiddu til smitsins. Í sumum tilvikum geta einkenni komið fáeinum dögum eftir smit.

Hvernig er hægt að greina klamydíu?

Hjá karlmönnum er prófið einföld þvagprufa og hjá konum þvagprufa og/eða strok frá leghálsi.

Er hægt að fá meðferð við klamydíu?

Hægt er að meðhöndla klamydíu með sýklalyfjum. Passa þarf vel upp á að taka allar töflurnar sem gefnar eru. Mikilvægt er að bólfélaginn fái meðhöndlun samtímis, annars gætuð þið smitað hvort annað aftur. Einnig gæti hinn aðilinn smitað aðra sem hann/hún sefur hjá fái hann/hún ekki meðhöndlun. Ekki má hafa samfarir frá því að meðferð hefst og allt að viku til 10 dögum eftir að meðferð byrjar. Þetta fer eftir því hvaða meðferð er gefin.
Ef annar aðilinn heldur áfram að vera með einhver einkenni verður að taka nýja prufu, þó ekki fyrr en 3–4 vikum eftir að meðferð lýkur. Mælt er með að allir sem stunda skyndikynni fari reglulega í kynsjúkdómaskoðun og láti athuga klamydíusmit.

Hvað með þá sem ég hef sofið hjá?

Ef þú hefur fengið að vita að þú sért með klamydíu eru miklar líkur á því að einhverjir bólfélaga þinna síðustu sex mánuðina séu með sjúkdóminn. Þess vegna er mikilvægt að fyrri bólfélagar séu látnir vita svo þeir geti fengið meðhöndlun ef þörf er á. Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða beðið lækninn um að skrifa þeim án þess að nafns þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga. Með því að hvetja þá sem þú hefur sofið hjá til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti þá sem þeir sofa hjá í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.

Heimild: www.landlaeknir.is

Prentvæn útgáfa

Hafðu samband

Hafir þú einkenni eða þjáist af þeim sjúkdómum sem fjallað er um hér er hægt að bóka tíma hjá lækni.

Tímapantanir

9:00–12:00 og 13:00–15:30

Skiptiborð

520 4444