Leiðbeiningar eftir skafaðgerð (shave) eða húðsýnatöku

Hvernig hugsa ég um sárið?

Haltu aðgerðarsvæðinu þurru í 48 klst. með vatnsheldu umbúðum sem eru yfir sárinu. Eftir það er leyfilegt að fara í sturtu og stunda líkamsrækt. 

Berðu sýkladrepandi krem (Fucidin) í sárið ef læknirinn hefur ávísað því, en annars skaltu halda sárinu og sárskorpunni mjúkum og rökum með því að nota Vaselín eða Aquaphor þar til sárið er gróið.  Þetta tryggir betri sárgróanda og minnkar líkur á óþægindum og sýkingum.  Æskilegt er einnig að hafa sárið hulið með plástrum þar til það er gróið nema sár í andliti mega vera opin.

Hvað þarf að forðast eftir aðgerðina?

Forðastu að fara í bað, heitan pott, sund og gufubað þar til sárið er vel gróið (7-14 dagar). Mikilvægt er að kroppa ekki sárskorpuna af og leyfa henni að detta af að sjálfu sér en það gerist þegar sárið er fullgróið undir.

Blæðing

Eðlilegt er að örlítið blóð sjáist í umbúðunum, en ef blæðing heldur áfram og umbúðirnar verða blautar í gegn skaltu setjast eða leggjast niður og þrýsta þétt á þær í 15-20 mín. Þetta nægir yfirleitt til að stöðva blæðinguna.  

Sýking

Það er eðilegt að sárið og sárbarmar séu rauðleit á meðan á gróandanum stendur en vertu vakandi yfir sýkingu.  Meðal sýkingareinkenna eru roði kringum sárið, aukin eymsli, hiti í húðinni og vessamyndun eða gröftur.  Sýkingar eru óalgengar og byrjar í fyrsta lagi 48 klst. eftir aðgerðina. 

Hvenær mun ég fá svar úr greiningunni ?

Húðlæknirinn þinn mun einungis hafa samband við þig ef eitthvað athugavert kemur út úr rannsóknum, og þá annað með símatali eða Heilsuveruskilaboðum. Athugaðu að það getur tekið allt að 2-4 vikur að fá svar.  

Örmyndun

Það er verulega einstaklingsbundið hvernig ör fólk myndar og það tekur 1-2 ár fyrir ör að ná sínu endanlegu útliti.  Örin eru rauðfjólublá í upphafi en dofna hægt og bítandi yfir í húðlituð ör.  Til að örin verði sem minnst sýnileg skaltu forðastu sólarljós og ljósabekki á örið í 6 mánuði. Ef örin eru á áberandi stað er hægt að íhuga að fara í öralaser á laserdeild Húðlæknastöðvarinnar.  

Við vandamál nærðu í okkur í síma 520-4444, timabokun@hls.is, laser@hls.is