Fara á efnissvæði

Hvaða vörur og meðferðir henta þér?

Með því að svara nokkrum spurningum getum við leiðbeint þér með mögulegar húðmeðferðir og viðeigandi vörur sem henta þinni húðgerð

Á hvaða aldri ert þú?

Hvaða húðgerð ertu með?

Hvaða húðvandamál ertu með/ hvað viltu leggja áherslu á að meðhöndla?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið einn valmöguleika.

Hefur þú áhuga á að hafa virk innihaldsefni í húðrútínunni?

Vinsamlegast veldu það sem á við um þig. Þú getur valið fleiri en einn valmöguleika.

...eitt að lokum

Með því að skrá þig á póstlista Húðlæknastöðvarinnar færð þú sérkjör auk upplýsinga um nýjar meðferðir, húðvörur, tilboð og almenna fræðslu.

Augnablik...

Meðferð á Psoriasis í Bláa Lóninu

Reykjanesskagi á Suðvesturlandi er fyrst og fremst samsettur úr gljúpu hrauni. Hraunið er ekki þéttara en svo að það hleypir sjó í gegnum sig. Djúpt í iðrum jarðar eru katlar sem eru fullir af jarðsjó.

Við Svartsengi er háhitasvæði og var hitaveita Suðurnesja byggð þar 1976. Bláa lónið myndaðist þegar heitu vatni sem til féll vegna hitaskipta var veitt út á aðliggjandi hraunbreiður. Sagan segir að starfsmaður verksmiðjunnar sem var haldinn psoriasis hafi tekið að baða sig í þessu nýja lóni og hlotið bata af. Þetta var upphaf lækninga á psoriasis við Bláa lónið. Á næstu árum jókst áhugi psoriasisjúklinga mjög á Bláa lóninu og margir þeirra töldu sig fá bata með því að baða sig tvisvar til þrisvar í viku í Bláa lóninu. Psoriasissjúklingar höfðu síðan forgöngu að því að komið var upp búningsaðstöðu fyrir psoriassjúklinga við lónið. Sjúklingarnir töldu einnig að batinn í lóninu ykist til muna þegar UVB-ljósameðferð var stunduð samhliða, og fékkst það síðan staðfest með rannsóknum. Krafan um rannsóknir við Bláa lónið varð æ háværari.
Árið 1987 voru birtar niðurstöður frumkönnunar á lækningamætti Bláa lónsins. Niðurstöðurnar sem birtust í læknablaðinu voru uppörvandi, en ljóst var að frekari rannsókna var þörf, þar sem þær byggðu eingöngu á mati á ljósmyndum af sjúklingum. Húðlæknarnir Jón Guðgeirsson og Jón Hjaltalín Ólafsson hófu skömmu síðar aðra rannsókn sem því miður er ekki að fullu lokið vegna takmarkaðs fjármagns sem var ætlað til þeirra framkvæmda. Niðurstöður voru sem áður jákvæðar. Árið 1986 skipaði ríkisstjórnin nefnd sem skyldi kanna fjölþætta nýtingu Bláa lónsins.

Nefndin beitti sér síðan fyrir rannsóknum á efnasamsetningu, lífríki og lækningamætti Bláa lónsins. Þegar þetta er ritað er þremur rannsóknum á lækningamætti lónsins lokið og lífríkið hefur einnig verið rannsakað ítarlega. Læknarnir Jón Hjaltalín Ólafsson, Rannveig Pálsdóttir og Bárður Sigurgeirsson hafa unnið lækningarannsóknirnar, en líffræðingarnir Jakob Kristjánsson og Sólveig Pétursdóttir hafa auk annarra rannsakað lífríki Bláa lónsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þessara rannsókna og einnig sagt stuttlega frá þeim árangri sem náðst hefur við göngudeild sem starfrækt er fyrir húðsjúklinga við Bláa lónið.

Bláa Lónið

Við Svartsengi eru borholur sem ná nokkur hundruð metra niður í neðanjarðarkatla sem eru fulllir af jarðsjó. Hitastigið þar er um 240° C. Jarðsjórinn er samsettur úr hafsjó (65%) og ferskvatni (35%). Efnasamsetning jarðsjávarins breytist við það að efni losna úr aðliggjandi bergi, sem er mjög kísilríkt. Efnastyrkur kísils hundraðfaldast (430 mg/kg) við þetta, en hins vegar fellur magnesíum út og styrkur þess minnkar um þúsundfalt. Þessum vökva er veitt upp á yfirborðið í gegnum borholur. Gufan sem myndast er notuð til að drífa gufuhverfla aftur til að framleiða rafmagn. Vökvinn er hins vegar notaður til að hita kalt ferskvatn sem síðan er veitt til byggða á Suðurnesjum og notað til húshitunar. Að þessu loknu er jarðsjónum dælt út yfir aðliggjandi hraunbreiðu. Hitastig jarðsjávarins þegar hér er komið við sögu er um 70° og er um það bil 900 m3 er því dælt út yfir hraunbreiðuna á hverri klukkustund. Mestur hluti jarðsjávarins rennur ofan í gljúpt hraunið, en töluverður hluti gufar upp. Þegar jarðsjórinn kólnar ofurmettast vökvinn af kísli (e. silicon) og langar keðjur af kísilsameindum myndast. Þessar kísilsameindir falla að lokum út og mynda hvíta leðju sem gestir Bláa lónsins kannast við. Leðjan lokar sprungum í hrauninu og þéttir botninn sem stuðlar enn frekar að myndun lóns. Þegar þetta er skrifað er lónið um 200m breitt og nokkra kílómetra langt. Dýptin er á bilinu 1-3 metrar víðast hvar. Styrkur kísils er um 140 mg/kg, en það eru einmitt þessar kísilsameindir í vökvanum sem brjóta ljósið sem á lónið fellur þannig að blár litur myndast og af því dregur Bláa lónið nafn sitt.

Líffræði lónsins

Efnasamsetning lónsins er sýnd í töflu 1. Meðalhitastigið er 37° , en í roki lækkar hitastigið nokkuð. Regn og snjór virðist hins vegar hafa lítil áhrif á hitastig lónsins. Sýrustig lónsins er að meðaltali um 7,5 og saltmagnið 2,5%. Hér virðist vera um kjöraðstæður að ræða fyrir saurgerla og var því talið að slíkar bakteríur væru í miklu magni í Bláa lóninu, líkt og gerist á sundstöðum þar sem ekki er settur klór út vatnið, sérstaklega með tilliti til þess að baðgestir eru yfir 100.000 árlega. Það kom því mjög á óvart þegar þær bakteríur, sem oftast tengjast manninum, svo sem saurgerlar, fundust alls ekki í lóninu. Þvert á móti kom í ljós við rannsóknir að mannabakteríur sem settar eru í vökva úr Bláa lóninu drepast í vökvanum. Lífríki lónsins virðist því að þesssu leyti hafa innbyggt sótthreinsunarkerfi. Einnig má benda á þá reynslu lækna sem stundað hafa sjúklinga við Bláa lónið að sýkt sár gróa fljótt við böð í lóninu. Rannsóknir hafa ekki leitt í ljós neinn sveppavöxt þess, en hins vegar hafa fundist tvær lífverur í lóninu, blágrænir þörungar og ný baktería sem ekki hefur verið lýst áður. Mest er um þörunga sem kallast Leptolyngbya erebi var. thermalis og tilheyra ættkvíslinni Cyanobacteria. Þeir dafna vel í volgu vatninu og vaxa gjarna á kísilsameindunum. Þar sem mikið er af þörungum myndast oft grænar breiður, en kísilleðja sem er rík af þörungum er gjarnan grænleit. Margir psoriassjúklingar telja að grænleit leðjan hafi mest áhrif á psoriasisútbrotin, en aðrir eru þessu ósammála. Ekki er vitað til að þessir þörungar vaxi annars staðar í heiminum við svipaðar aðstæður. Í lóninu hefur einnig fundist önnur örvera sem reyndist vera staflaga baktería sem tilheyrir ættkvíslinni Roseobacter. Þessi baktería finnst í miklu magni í lóninu og vöxtur hennar virðist lítið háður ytri skilyrðum. Bakterían hefur nýlega verið greind frekar og kom þá í ljós að hér er um nýja bakteríu að ræða sem hvergi hefur fundist annars staðar í heiminum. Hefur bakterían hlotið nafnið silicibacter lacuscaerulensis sem þýða mætti sem kísilbakterían úr lóninu bláa. Þörf er á frekari rannsóknum á þessari nýju lífveru sem hefur aðlagað sig svo vel að einstöku umhverfi í Bláa lóninu. Bakterían virðist ekki þrífast á æti nema vatni úr Bláa lóninu sé blandað í það. Þá vaknar einnig sú spurning hvort bakterían eða þörungarnir sem vaxa í lóninu séu orsök lækningamáttarins. Á ónæmisdeild Landspítalans hafa verið gerðar frumrannsóknir á floti sem bakterían hefur vaxið í og benda þær til þess að bakterían geti framleitt efni sem hafi áhrif á ónæmiskerfið. Hér er þó um að ræða rannsóknir sem eru á slíku frumstigi að erfitt er að draga af þeim nokkrar ályktanir.

 

Sérstök meðferðarlaug var byggð til að rannsaka áhrif Bláa lónsins á psoriasis við suðurenda lónsins gegn baðhúsinu. Stærð meðferðarlaugarinnar er 25×6 m og botninn er sléttur ólíkt því sem er í sjálfu Bláa lóninu. Rannsóknir hafa verið gerðar á lífríki meðferðarlaugarinnar og leiddu þær í ljós að aðstæður þar eru að öllu leyti sambærilegar sjálfu Bláa lóninu. Síðan var byggt 200 m2 húsnæði við meðferðarlaugina þar sem göngudeild fyrir húðsjúklinga er nú til húsa. Við deildina starfa tveir sérfræðingar í húðsjúkdómum, þrír hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk.

Áhrif Bláa lónsins á húðina

Heilbrigð húð

Húðin vill þorna við tíð og langvarandi böð. Þetta er einkum áberandi eftir böð í Bláa lóninu. Algengt er að fólk nuddi kísilleðjunni, sem myndast á botni lónsins, á húðina. Við þetta losna dauðar frumur af húðinni. Húðin verður mjúk, en jafnframt þurr. Af þessum sökum er nauðsynlegt að nota rakarem ríkulega eftir böð í lóninu. Ef hárinu er dýft í lónið verður það þakið kísilkristöllum. Hárið verður því stíft og getur reynst erfitt að hemja það í nokkra daga á eftir. Til að koma í veg fyrir þetta er ráðlegt að bera næringu í hárið áður en gengið er til baða.

 

Prentvæn útgáfa

Hafðu samband

Hafir þú einkenni eða þjáist af þeim sjúkdómum sem fjallað er um hér er hægt að bóka tíma hjá lækni.

Tímapantanir

9:00–12:00 og 13:00–15:30

Skiptiborð

520 4444