Fæðingarblettir
Allflestir hafa fæðingarbletti. Eiginlega er nafnið rangnefni því meirihluti fæðingarbletta myndast eftir fæðingu. Nýjir blettir eru að koma fram eftir aldri.
Þegar líður að miðjum aldri fer að draga úr myndun nýrra fæðingarbletta og nái fólk háum aldri geta blettirnir farið að hverfa eða dofna. Fleiri dæmi eru um villandi nöfn á húðsjúkdómum. Má þar nefna “unglingabólur” en ekki er óalgengt að fólk um miðjan aldur, sérstaklega konur, hafi þann kvilla. Einnig má nefna “barnaexem” en jafnvel vistmenn elliheimila geta þjáðst af því.
Ekki er vitað nákvæmlega hvað stjórnar fjölda, staðsetningu og stærð fæðingarbletta. Líklega hafa bæði erfðir og umhverfisþættir áhrif á myndun þeirra. Líklegt er að litarfrumur húðarinnar dreifist ójafnt um húðina á fósturskeiði og þegar þessar frumur fara svo að fjölga sér komi fæðingarblettirnir í ljós. Rannsóknir hafa sýnt að sólskin hefur þau áhrif að fólk fær fleiri fæðingarbletti. Þessar rannsóknir eru meðal annars gerðar þannig að taldir eru blettir á sambærilegum hópum fólks sem býr á mismunandi sólríkum stöðum. Langflestir fæðingarblettir eru alveg góðkynja. Fyrir kemur að fólk leiti til lækna með börn sín vegna þess að þau hafa fengið nýja fæðingarbletti. Slíkt er eðlilegt og ekki til að óttast. Fæðingarblettir eru í flestum tilfellum góðkynja fyrirbæri.
Fæðingarblettir geta verið upphækkaðir. Slíkt er í flestum tilfellum ekki merki um illkynja þróun í blettum þó svo að sortuæxli geti verið upphækkuð. Hárvöxtur í fæðingarblettum er heldur ekki endilega merki um illkynja breytingu. Góðkynja fæðingarblettir eru oft jafnlitir, reglulegir í lögun og innan við sentrimetri í þvermál. Ekki eru allir brúnir blettir fæðingarblettir. Sumir hafa ljósbrúnar sléttar breytingar í húð sem eru kenndir við kaffi með mjólk; “café au lait” blettir. Aðrar algengar breytingar eru bandvefshnútar í húð, svokölluð Dermatofibroma, sem eru hörð brúnleit þykkildi oft á leggjum. Þau eru langoftast meinlaus. Sumum þykir lýti að því að hafa marga fæðingarbletti. Þá er stundum leitað til lækna og þeir beðnir að fjarlægja blettina í fegrunarskyni. Vill þá fólk láta taka blettina þannig að engin ummerki sjáist. Slíkt er í flestum tilfellum ómögulegt vegna þess að ör myndast í húð eftir fæðingarblettatökur.
Séu fæðingarblettir teknir þarf að senda þá í vefjarannsókn til að ganga úr skugga um að um góðkynja blett sé að ræða. Af þessum sökum má ekki fjarlægja fæðingarbletti með leiser eða á annan þann hátt sem veldur því að því að ekki sé hægt að senda blettinn í greiningu.
Góðkynja fæðingarblettir
Með þessu er átt við ákveðna gerð fæðingarbletta sem hafa ákveðið útlit og bera ákveðin merki við smásjárgreiningu. Nokkuð er um bletti þessarar gerðar. Óreglulegir fæðingarblettir verða frekar illkynja en venjulegir fæðingarblettir en flestir þróast þó ekki á þann veg. Einstaklingar með marga óreglulega fæðingarbletti eru í meiri hættu en aðrir að fá sortuæxli og þurfa þeir að láta fylgjast reglulega með fæðingarblettum sínum. Til eru fjölskyldur þar sem meðlimirnir hafa marga óreglulega fæðingarbletti og sú tilhneyging er arfgeng.Meðlimir þessara fjölskyldna eru í verulegri hættu að fá sortuæxli einhvern tíma á lífsleiðinni.
Óreglulegur fæðingarblettur
Þetta er hættulegasta gerð húðkrabbameina. Fái þau að vaxa óáreitt berast þau í eitla og breiðast síðan víðar um líkamann. Sortuæxli myndast við að litarfrumur húðar verða illkynja. Þau geta annað hvort myndast út frá fæðingarblettum sem eru til staðar eða þá myndast án tengsla við fæðingarbletti. Sortuæxli verða algengari með hverju árinu sem líður á Vesturlöndum. Í Ástralíu virðist aukningin hafa stöðvast, að minnsta kosti í bili. Ástralir þakka það öflugum áróðri gegn sólböðum og því að fólk ver sig betur gegn sólarljósi.Sortuæxli eru oftast mjög dökkir eða mislitir blettir sem geta verið sléttir eða upphækkaðir. Þau eru venjulega ekki hrjúf viðkomu. Sortuæxli eru oft yfir 6 millimetrar í þvermál en geta verið minni. Oft eru blettirnir óreglulegir í lögun, mislitir og með óskarpar brúnir. Í sumum tilfellum eru sortuæxli mjög sakleysisleg að sjá og geta þá líkst góðkynja fæðingarblettum. Stundum er kláði eða óþægindi í sortuæxlunum og getur jafnvel blætt úr þeim. Ef æxlin eru skorin burtu tímanlega eru horfur á bata góðar, en nái þau að vaxa niður í húðina versna batahorfurnar.
Eins og fyrr segir hafa sortuæxli orðið sífellt algengari síðastliðin ár. Sólböð eru talin eiga stóran þátt í þeirri aukningu. Við sólbruna skemmist erfðaefni húðfruma. Útfjólubláu geislar sólarinnar valda þessari skemmd. Erfðaefni húðfrumnanna getur skemmst í hvert skipti sem sólin skín á hana. Í mörgum tilfellum getur varnarkerfi líkamans lagað slíkar skemmdir. Hjá fólki sem fær mikið sólskin á húðina safnast með árunum óeðlilegar frumur fyrir í húðinni. Afleiðingar þessa eru þær að með tímanum verður húðin mislit, flekkótt og stundum myndast litlar rauðleitar hreistrugar breytingar. Þetta ferli getur tekið áratugi en tekur oft styttri tíma hjá þeim sem brenna auðveldlega í sól.
Sortuæxli
Útfjólubláir geislar eru taldir vera aðalorsök sortuæxla. Þeir eru hluti af geislum sólar. Útfjólubláir geislar af A gerð eru í sólbekkjum þeim sem notaðir eru á sólbaðsstofum. Þegar húðin verður dekkri af völdum sólar eða ljósabekkja er líkaminn að setja í gang vörn gegn útfjólubláu ljósi. Þegar húðin verður brún er það vegna aukningar á litarefninu Melaníni en það ver aðrar húðfrumur gegn skemmdum á erfðaefninu. Fólk er misvel í stakk búið að verjast sólarljósi. Blökkumenn hafa mikið litarefni í húð. Þeir fá afar sjaldan sortuæxli. Fái þeir sortuæxli eru þau helst í lófum og iljum þeirra þar sem húðin er ljós. Um fólk með dökka húð gilda önnur lögmál varðandi sól en um fólk með ljósa húð. Þeir sem hafa ljósa húð sem verður aldrei brún eru í meiri hættu að fá sortuæxli en þeir með dökka húð sem verður auðveldlega brún. Rauðhærðir og ljóshærðir eiga frekar á hættu en aðrir að fá sortuæxli. Þetta orsakast af því að húð þeirra inniheldur lítið af varnarefninu Melaníni. Þeir sem hafa marga fæðingarbletti eiga einnig frekar á hættu að fá sortuæxli en þeir sem hafa fáa. Þeir sem þola sól vel verða þó að vara sig á henni. Þeim hættir kannski fremur en öðrum að stunda sólböð og vera mikið út í sól og eru því mjög útsettir fyrir útfjólubláum geislum.
Sólbekkir sólbaðsstofanna hafa verið notaðir í því skyni að auka litarefni húðarinnar. Aðallega hefur þetta verið yngra fólk sem hefur viljað öðlast hraustlegra útlit. Húðlæknar eru á móti því að fólk noti ljósabekki í þessu skyni. Bæði vegna þess að útfjólublátt ljós getur valdið illkynja frumubreytingum og einnig vegna þess að það stuðlar að ótímabærri öldrun húðarinnar og hrukkumyndun.Þar að auki er brúni liturinn oft mjög fljótur að hverfa eftir að að hætt er að nota bekkina og húðin verður aftur ljós. Þeir sem brenna auðveldlega í sól ættu sérstaklega að venja sig á að verjast sólinni. Þetta þýðir ekki að þeir þurfi alltaf að vera inni þegar sólin skín og sleppa ferðum til heitari landa. Gott er að klæða af sér sólina, ganga með hatt og nota sólvörn á þau svæði sem sól getur skinið á. Sérstaklega þarf að passa upp á að börn brenni ekki í sólinni en rannsóknir hafa bent til að sólbruni á barnsaldri valdi auknum líkum á að mynda sortuæxli.