Barnaexem
Rúmlega fimmta hvert barn á Íslandi er með eða hefur einhvern tíma fengið barnaexem (stað- og tímabundið exem, atópískt exem). Langalgengast er að er barnaexem komi fram fyrir sjö ára aldur (90%) og reyndar kemur það yfirleitt fram fyrir fjögurra ára aldur. Sem betur fer virðast margir þó losna við það aftur á barnsaldri en daglegt líf barns með exem getur verið erfitt og því fylgja ýmsar áhyggjur.
Hvað er barnaexem (atopískt exem) ?
Atópískt exem er langvinnur bólgusjúkdómur í húð sem stafar af því að húðina skortir eðlilega uppbyggingu og fitusamsetningu í varnarlagi sínu og er þar af leiðandi mjög viðkvæm og þurr. Flestir sem þróa með sér sjúkdóminn gera það á barnsaldri og yfir 90% exembarna eru komin með einkenni fyrir 4-5 ára aldur.
Sjúkdómurinn erfist og helst gjarnan í hendur með frjókorna-, og dýraofnæmi og astma en þessir sjúkdómarar eru kallaðir atópískir sjúkdómar og finnst oft í sömu fjölskyldu eða ætt. Ef annað foreldrið er með atópískt exem, eru líkur barnsins á að þróa húðsjúkdóminn 38% en þessar líkur hækka í 50% ef báðir foreldrar eru með sögu um exem. Börn með meðalslæmt eða alvarlegt exem eru í aukinni hættu að fá astma, frjókorna- og dýraofnæmi. Yfirleitt kemur exem fyrst, síðan astmi og að lokum frjókorna/dýraofnæmi í kringum 7-8 ára aldur. Því miður er ennþá engin lækning í boði fyrir fólk með atópískt exem, en margir vaxa upp úr sjúkdómnum á unglingsárum eða u.þ.b. 7 af hverjum 10 börnum. Hins vegar eru flestir með þurra og viðkvæma húð alla ævi og geta fengið einkennin tilbaka síðar á lífleiðinni.
Hver eru einkenni barnaexems?
Almennt er öll húð líkamans þurr og viðkvæm en exemið, sem er rautt, bólgið og hreistrandi kemur fram á ákveðnum stöðum á líkamanum. Mikill kláði er höfuðeinkenni exems og þess vegna sjást yfirleitt mikið af klórförum og jafnvel vessandi eða blæðandi húð. Exemhúð getur sýkst auðveldlega vegna þess hversu opin og viðkvæm hún er, og vegna stöðugs klórs sem dreifir bakteríum um svæðið. Eftir langvarandi exemástand getur húðin orðið þykk, leðurkennd og gróf.
Barnaexem er yfirleitt mun verra að vetri til vegna þurrara og kaldara loftlags og batnar í rakameira, heitara og sólríkara umhverfi. Ýmislegt annað getur valdið skyndilegum versnunum á exeminu t.d. ýmis konar sýkingar og streita.
Er fæða orsök barnaexems?
Flest börn með barnaexem eru ekki með fæðuofnæmi. Hins vegar er ýmis konar ofnæmi algengara hjá exembörnum, m.a. fæðuofnæmi. Grunur um fæðuofnæmi vaknar helst hjá ungum börnum með útbreitt exem sem svarar illa meðferð eða slæmt exem á munnsvæði sem erfitt er að ná stjórn á. Fæðuofnæmi er rannsakað hjá ofnæmislæknum en ofnæmi fyrir mjólk og eggjum er algengast. Hins vegar er það vel þekkt að ýmsar fæðutegundir valdi tilfallandi roða, ertingu og jafnvel kláða í húðinni við neyslu, en þetta orsakast ekki af eiginlegu ofnæmi heldur losun ákveðinna efna sem erta viðkvæma húð. Dæmi um slíkar fæðutegundir eru sítrusávextir, tómatar og jarðarber.
Hvernig er barnaexem meðhöndlað?
Markmið exemmeðferðar er að rjúfa fyrrnefndan kláða-bólgu vítahring og halda húðinni mjúkri og rakri. Þar sem húð fólks með atópískt exem er viðkvæm og þurr og versnanir koma gjarnan skyndilega er mikilvægt að huga vel að daglegri rútínu og forðast þætti sem valda versnunum. Notkun rakakrema er besta meðferðin til að halda exemi í skefjum því þau styrkja veikburða varnarlag exemhúðar og halda bólgum í burtu. Ráðlagt er að nota rakakrem 2x á dag og velja krem sem eru einföld, ilmefnalaus og með hæfilegu fituinnihaldi. Dæmi um slík krem eru t.d. Locobase, Decubal, Eucerin Atocontrol, Akvósum, Hýdrófíl og Lipikar línan frá La Roche Posey.
Þegar exembólga blossar upp með tilheyrandi kláða og óþægindum eru rakakremin ekki nægjanleg. Þá þarf að grípa til sterakrema þar sem þau eru bólguhemjandi. Mildison Lipid er hægt að fá í öllum apótekum án lyfseðils og er góð byrjunarmeðferð. Grunnreglan er sú að sterakremið er borið á exemblettina í þunnu lagi 1-2x á dag þar til þeir hverfa. Hægt er að nota viðhaldsmeðferð á þau svæði sem eru stöðugt með exemi en þá er Mildison borið á svæðið 1-2x í viku til að halda exeminu burtu. Ef þetta nægir ekki til að meðhöndla exemið eða stöðug notkun sterakremsins er þörf til að halda exeminu í skefjum, þarf að fá aðstoð heimilislæknis eða húðlæknis. Þá þarf að útbúa flóknara meðferðarplan með sterkari lyfseðilsskyldum sterakremum eða öðrum bólgueyðandi kemum (Protopic og Elidel).
Við erfið exemtilfelli er öðrum meðferðum jafnframt beitt, eins og ljósameðferðum, ónæmisbælandi töflumeðferðum og líftæknilyfjum. Stundum þarf að nota sýklalyf, ef exem er orðið sýkt, en oftast hverfur sýkingin þegar exembólgan er meðhöndluð með sterakremum.
Hvað er hægt að gera til að halda niðri einkennum barnaexems?
- Notaðu rakakrem daglega
- Reyndu að klóra þér ekki heldur strjúka frekar með flötum lófa yfir húðina
- Farðu frekar í stuttar volgar sturtur en forðastu löng heit böð
- Forðastu sápur því þær fjarlægja náttúrulegar húðolíur og þurrka húðina
- Berðu rakakrem á raka húð beint eftir sturtu og alltaf eftir handþvott
- Notaðu mildar ilmefnalausar vörur eins og unnt er
- Notaðu plasthanska (helst með bómullarfóðri) við uppþvott, hreingerningar og störf þar sem þú óhreinkar hendurnar
- Reyndu að kortleggja þá þætti sem gera exemið verra og forðastu þá eins og hægt er, t.d. streita, sundferðir, efni í húðvörum, mygla, gæludýr og fleira
Hvað þurfa foreldrar barna með atópískt exem að hafa í huga?
- Baðið barnið ekki oftar en 1-2x í viku. Setjið smá olíu út í baðvatnið, sleppið sápum og
- setjið ríkulega af rakakremi strax á eftir. Stutt sturtuferð er samt æskilegri en bað
- Ekki fara með barnið í sund ef exemið er slæmt
- Haldið nöglum stuttum
- Látið barnið sofa í náttfötum en haldið herberginu svölu því hiti og sviti eykur kláða
- Berið feitt rakakrem eða vaselín í kinnar leikskólabarna með exem fyrir útivist
- Ekki hafa börnin í þröngum fötum og forðast ull og gerviefni næst húðinni, mjúk slétt bómullarföt eru best
- Þvoið föt fyrir fyrstu notkun og klippið merkimiða sem geta ert húðina
- Notið mildar ilmefnalausar vörur á barnið þ.m.t. þvottaefni og sleppið mýkingarefnum
Þessi texti er fengin af www.hudvaktin.is