- Húðlæknastöðin - https://hudlaeknastodin.is -

Um psoriasis

Psoriasis er sjúkdómur sem situr í húð, nöglum og stundum í liðamótum. Hann hefur ekki áhrif á lífslengd fólks.Psoriasis er ekki smitandi. Flestir hafa sjúkdóminn á vægu stigi, en mismunandi er hve mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf manna.Gangur Psoriasis er oft sá að það koma tímabil þar sem húðbreytingarnar versna og síðan tímabil þar sem sjúkdómurinn er í rólegum fasa.

Hægt er að halda húðbreytingunum niðri með ýmsum aðferðum, en í dag er ekki til nein fullnaðarlækning. Sjaldgæft er að Psoriasis hverfi algerlega, en það er þó til. Talið er að um 2 % vestrænna manna séu með Psoriasis. Sjúkdómurinn er því algengur. Mun lægri tíðni er meðal gula kynstofnsins. Sjúkdómurinn byrjar oft milli 10 og 20 ára. Að jafnaði koma einkennin fyrr fram hjá kvenþjóðinni. Þegar Psoriasis byrjar hjá ungu fólki er hann oftar til í fjölskyldunni en þegar sjúkdómurinn byrjar hjá eldri. Hlutfall milli kynja er jafnt.

Vitað er að Psoriasis er ættgengur sjúkdómur. Það er hins vegar ekki vitað hvernig hann erfist. Talið er að hafi annað foreldrið Psoriasis þá séu 16 % líkur á að barn fái sjúkdóminn. Hafi hins vegar báðir foreldrar sjúkdóminn eru 50 % líkur á að hvert barn fái Psoriasis. 36 % Psoriasis sjúklinga hafa amk einn í fjölskyldunni með sjúkdóminn.

Þættir sem hafa áhrif á Psoriasis

Einkenni

Útlit Psoriasisbreytinganna getur verið margs konar. Oftast sjást laxableikar velafmarkaðar breytingar af ýmsum stærðum. Algengast er að breytingarnar séu á olnbogum, hnjám, í hársverði og fótleggjum. Misjafnt er hversu mikið breytingarnar hreistra. Stundum blæðir eins og í nokkrum punktum þegar hreistrið er tekið af. Breytingarnar eru oft þykkar. Fjöldi breytinga geta verið frá 1 til nokkur hundruð.

Útbreiðsla er mismunandi. Dropapsoriasis er margir litlir blettir sem dreifðir eru um allan líkamann. Þetta form kemur oft snögglega og þá eftir bakteríuhálsbólgu. Algengasta formið er nokkrar fremur stórar breytingar sem eru stundum samhangandi. Til eru form sem einkennast af litlum og stórum graftrarbólum. Einnig er til sjaldgæft form þar sem nánast allt yfirborð líkamans verður rautt, og fólk með þetta er oft mikið veikt. Breytingar í nöglum eru hjá 25 – 50 % Psoriasis sjúkl ef vel er að gáð. Þær einkennast oft af litlum holum í yfirborði naglanna, og einnig þykknun undir þeim. Oft losna neglurnar fremst.

Meðferð

Meðferð miðast við að ná burtu psoriasis breytingunum. Þegar þessu markmiði hefur verið náð er vonast til að batinn haldist sem lengst. Vegna þess hve gangur sjúkdómsins er mismunandi geta breytingarnar horfið án nokkurrar meðferðar, en koma svo oftast tilbaka. Reyna skal að halda sér í góðu formi bæði andlega og líkamlega. Þetta bætir hæfnina til að ráða við Psoriasis sjúkdóminn. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að mataræði skifti máli fyrir Psoriasis.

Oftast er staðbundinn Psoriasis meðhöndlaður með útvortis lyfjum í byrjun. Algengast nú er Daivonex, Kortisónkrem og Ditranól. Einnig er hægt að nota tjöru. Ljósameðferð er oft notuð, og þá oftast af gerðinni UVB. Þetta eru sterkari geislar en í venjulegum ljósabekkjum. Einnig er notuð svokölluð PUVA meðferð þar sem teknar eru inn töflur sem gera húðina ljósnæma fyrir ljósameðferð. Við slæmum Psoriasis eru stundum notuð hylki sem skyld eru A vítamíni (Neo-Tigason) og einnig lyf sem hafa áhrif á frumuskiptingu og ónæmiskerfið ( Metotrexat, Cyclosporin)

Psoriasisgigt

Psoriasisgikt er talin koma hjá 7-20 % Psoriasissjúklinga. Algengust er Psoriasis gigt hjá þeim sem hafa útbreiddan Pustuler Psoriasis eða útbreiddan roðapsoriasis. Þeir sem hafa psoriasis hafa oft önnur einkenni frá liðamótum án þess að um gigt með bólgubreytingum sé að ræða. Oft tengjast naglabreytingar psoriasisgigt í höndum. Oftast situr Psoriasisgigtin í fingurliðum, en getur líka verið í hálshrygg og kjálkaliðum.

Oftast meðhöndluð með bólgueyðandi lyfjum. Slæm tilfelli eru meðhöndluð með Methotrexati eða bíólógísku lyfjunum.