Sortuæxli og önnur húðkrabbamein

Sortuæxli og önnur húðkrabbamein

Prenta

Húðkrabbamein leggjast einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Sortuæxli er alvarlegasta gerð húðkrabbameina sem er auðvelt að lækna greinist það á byrjunarstigi en getur verið erfitt við að eiga nái það að dreifa sér. Mikil aukning hefur verið á tíðni sortuæxla hér á landi, sérstaklega meðal ungra kvenna, samhliða aukinni notkun á ljósabekkjum og tíðrari sólarlandarferða.

Einkenni
Sortuæxli geta myndast alls staðar á líkamanum. Ef blettur hefur eitt eftirtalinna atriða getur það bent til sortuæxlis:

 • Hefur breyst að einhverju leyti, t.d. stækkað.
 • Er ósamhverfur.
 • Hefur óreglulegir jaðra.
 • Ef fleiri en einn litur er í blettinum.
 • Ef klæjar undan blettinum eða sár hefur myndast í honum.
 • Flöguþekjukrabbamein í húð er algengast í andliti, t.d. á eyrum og neðri vör, en einnig t.d. í hársverði hjá þeim sem hafa þunnt hár. Það er líka algengt á handarbökum.
  Einkenni geta verið eftirfarandi:
  • Sár sem ekki grær.
  • Rauðleit þykknun á húð með kláða eða óþægindum.
  • Hringlaga blettur, með upphækkuðum brúnum eins og virkismúr umhverfis dæld í miðjunni.
  • Upphleyptur húðlitaður eða rauðleitur blettur á höfði eða hálsi, en stundum kemur það fram á búk og þá yfirleitt sem flatur, rauður blettur.
  • Blettur sem stækkar í einn sentímeter í þvermál yfir marga mánuði eða ár.
  • Blettur sem blæðir úr og myndar hrúður á víxl.

Orsakir
Sólin sendir frá sér margar tegundir af geislum. Við þekkjum best útfjólubláu geislana UVA og UVB sem geta skemmt erfðaefni húðfruma og þannig leitt til öldrunar húðar og húðkrabbameina. Útfjólublá geislun er talin helsta orsök húðkrabbameina og því eru þeir sem mikið eru í sólarljósi eða ljósabekkjum í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Þó svo að allir geti fengið sortuæxli þá eru nokkrir þættir sem auka líkur á myndun sortuæxla.

 • Húð sem brennur auðveldlega.
 • Að hafa brunnið í sól eða ljósabekk, sérstaklega fyrir 18 ára aldur.
 • Ljós húð sem þolir illa sólina.
 • Að hafa marga fæðingarbletti.
 • Að hafa óreglulega fæðingarbletti.
 • Ef náinn ættingi hefur greinst með sortuæxli.
 • Langtíma notkun ónæmisbælandi lyfja, til dæmis í tengslum við líffæraígræðslu eða gigtarsjúkdóma.

Mjög mikilvægt er að vernda börn og ungt fólk (einkum undir 20 ára aldri) gegn of mikilli sól, þar sem líkurnar á að fá sortuæxli í húð eru meiri hjá þeim sem hafa verið mikið og óvarin í sól sem börn og unglingar. Einnig er mælt gegn allri ljósabekkjanotkun.

Mælt er með að allir sem hafa áhættuþátt eða blett með ofangreind einkenni fylgist með húð sinni og leiti álits húðsjúkdómalæknis um einkenni og eftirlit.

Hvað er húðkrabbamein?

Greining
Húðlæknar geta oft greint húðkrabbamein eða forstig þess með því að skoða húðina með berum augum eða með sérstöku tæki. Greiningin er svo staðfest með því að taka sýni sem sent er í vefjarannsókn.
TÖLFRÆÐI UM SORTUÆXLI Í HÚÐ

Sé grunur um sortuæxli gerir læknir nákvæma rannsókn á húðinni og þreifar einnig á nálægum eitlastöðvum. Ef um djúpt vaxandi mein er að ræða tekur læknirinn einnig gjarnan sýni úr nálægum eitlum til að meta hugsanlega útbreiðslu. Þegar æxlin hafa náð ákveðinni dýpt eru gerðar frekari rannsóknir til að athuga hvort sjúkdómurinn hafi dreift sér um líkamann, t.d. tekin sneiðmynd af lungum.


Meðferð
Sortuæxli eru alltaf fjarlægð með skurðagerð ásamt eðlilegum aðliggjandi vef svo öruggt sé að ekkert af meininu sé skilið eftir. Þannig er reynt að minnka líkur á að æxlisfrumur dreifi sér. Umfang aðgerðar fer eftir gerð og dýpt meinsins og hversu langt það er gengið. Stundum er tekin húð annars staðar af líkamanum til þess aðsetja í stað húðarinnar sem var fjarlægð vegna æxlisins. Ef sjúkdómurinn hefur dreift sér til nálægra eitla er gjarnan talið rétt að fjarlægja eitlana til þess að minnka líkur á frekari dreifingu. Dreifðan sjúkdóm er erfitt að meðhöndla þar sem ekki er til góð meðferð, en miklar framfarir hafa þó orðið í meðferð á undanförnum árum. Þannig hafa ákveðin krabbameinslyf, geislun og ónæmismeðferð verið notuð, en nýlega hafa komið fram nýjar gerðir lyfja sem miklar vonir eru bundnar við. Þar er um að ræða lyf gegn meinum sem innihalda ákveðna stökkbreytingu, svokallaða BRAF-hemla og líka mótefni sem er ætlað að virkja ónæmissvar gegn sortuæxlum.


Flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein eru yfirleitt meðhöndluð með einfaldri skurðaðgerð, sem oftast læknar sjúklinginn. Annarri meðferð er einnig oft beitt, svo sem skröpun og rafmagns- eða leysibrennslu, frystingu með fljótandi köfnunarefni og útvortis lyfjameðferð. Gæta þarf þessað meinið sé að fullu fjarlægt, annars er hætta á að það taki sig uppaftur.

Algengi og lífshorfur
Horfur sjúklinga með sortuæxli í húð eru mjög breytilegar. Því þynnra sem æxlið er þegar það greinist, þeim mun betri eru horfurnar. Almennt séð hafa horfur batnað síðustu áratugi, sem tengist því að fleiri tilfelli uppgötvast snemma í sjúkdómsferðlinu, þ.e. á því skeiði sem hægt er að lækna sjúkdóminn með skurðaðgerð, áður en æxlið hefur náð að vaxta djúpt í húðina. Hlutfallslegar fimm ára lífslíkur karla sem greinast með sortuæxli eru 85% en horfur kvenna eru 95% því æxlin greinast yfirleitt seinna hjá körlunum. Líkleg skýring á því er sú að þeir koma seinna til læknis, þegar æxlin hafa náð að vaxa dýpra niður í húðina.

Að meðaltali greinast 40-45 einstaklingar með sortuæxli árlega og 10-15 látast. Fjöldi einstaklinga með sortuæxli á lífi í árslok 2013 var um 770, tvöfalt fleiri konur en karlar.

Flöguþekjukrabbamein er einungis hættulegt ef það uppgötvast ekki fyrr en það hefur náð að dreifa sér og myndað meinvörp. Sjaldgæft er að sjúklingar deyi af völdum flöguþekjukrabbameins eða grunnfrumukrabbameins í húð. Að meðaltali greinast árlega um 95 Íslendingar með slík húðkrabbamein og 1-2 látast. Fjöldi einstaklinga á lífi í lok árs 2013 var um 740, aðeins fleiri konur en karlar.


Krabbameinsfélagið
www.krabb.is