Saga Psoriasis

Saga Psoriasis

Prenta Prenta

Psoriasis er líklega meðal þeirra sjúkdóma sem lengst hefur verið vitað um í mannkynssögunni. Læknisfræði þróaðist í Mesópótamíu og elstu heimildir eru á steintöflum (e. clay tablets) 1000-3000 árum fyrir Kristburð. Húðsjúkdómar voru vel þekktir og kallaðir asu og voru lækningar á þeim stundaðar af prestum og spámönnum. Ekkert er þó að finna með vissu um psoriasis í þessum heimildum.

Í Egyptalandi til forna voru samkvæmt Herodetusi læknar fyrir hvert líffæri að heilanum undanskildum þar sem talið var að hann hefði ekkert hlutverk. Í heimildum frá þessum tíma 1500 árum fyrir Krist (Ebers papyrus) er ótal húðsjúkdómum lýst og hugtakið húðflögnun kemur oft fyrir en ekki er hægt að greina þar einstaka sjúkdóma. Grikkir til forna notuðu orðið lepra um flagnandi húðkvilla. Þeir notuðu psora til að lýsa húðkvillum með kláðaeinkennum.

Heimildir um læknisfræði eru af skornum skammti í ritum gyðinga til forna helst er að þær sé að finna í Gamla Testamentinu. I Leviticus er að finna stutta lýsingu á húðsjúkdómi sem kallast zaraath og sumir fræði- menn telja að geti verið psoriasis þó holdsveiki (e. leprosy), vitiligo eða sveppasýkingar komi einnig til greina. Margar tilvitnanir í Biblíunni um leprosy eru líklega um psoriasis. Í Konungsbók er leprosy lýsing Naaman á húðkvilla þar sem húðin er hvít sem snjór. Líklega er þarna verið að lýsa silfurlituðu hreistri psoriasis skellna.

Í indversku trúarriti Charaka Samita (100 F.K. til 100 E.K.) sem er hluti af Ayurvedic fræði er lýsing á sjúkdómi sem gæti verið psoriasis.

Ímyndið ykkur að húðsjúkdómur skuli talinn svo skelfilegur að þeir sem eru haldnir honum þurfi að bera bjöllu um hálsinn svo allir geti vitað um ferðir þeirra. Þeir sem voru haldnir psoriasis þurftu einnig að matast á aðskildum borðum frá öðrum og klæðast sérstökum fötum til að hylja þykkar húðskellurnar. Bölvun var einnig talin fylgja þessu fólki og í verstu tilfellum voru psoriasis sjúklingar útilokaðir frá samfélaginu og jafnvel brenndir á báli. Þetta var á hinum myrku miðöldum.

Saga húðsjúkdómsins sem við í dag þekkjum sem psoriasis er samofin sögu annarra sjúkdóma svo sem holdsveiki en sjúkdómarnir bera mörg sameiginleg einkenni. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld sem psoriasis var aðgreindur frá leprosy.

Hippocrates, faðir vestrænnar læknisfræði lýsti hópi sjúkdóma sem einkennast af hreistrandi húðbreytingum sem hann kallaði lopoi sem er grískt heiti á yfirhúðinni (e. epidermis) líklega eru bæði psoriasis og leprosy í þessum hóp.

Flestir eru sammála um að það hafi verið Aurelius Celsus (25 F.K. – 45 E.K.) sem fyrstur lýsti psoriasis í riti sínu „De re medica“. Þar talar hann um húðsjúkdóm með mismunandi löguðum blettum og hreistri sem fellur af húðinni.

Heitið psoriasis er komið úr grísku en psora þýðir kláði og var fýrst notað af Galen frá Pergamon (133-200 F.K.). Galen var læknir í Rómaveldi og skrifaði mörg rit meðal annars um líffærafræði, lífeðlisfræði, og lyfjafræði.

Lengi vel voru húðsjúkdómar meðhöndlaðir af skurðlæknum. Daniel Turner (1667-1741) var skurðlæknir sem lagði stund á rannsóknir á húðsjúkdómum. Hann gaf út bók 1712 „De morbis cutaneis. A treatise of diseases incident to the skin”. I henni er frekar óskýr lýsing á psoriasis sem hann kallar „Leprosy of the Greek” til aðskilnaðar frá holdsveiki sem hann kallar „Leprosy of the Arabian”. Hann gerði sér einna fyyrstur grein fyrir að krem eða önnur staðbundin meðferð við húðsjúkdómum geti haft áhrif á innri líffæri.

Charles Anne Lorry (1726-1783) sem síðar varð læknir Loðvíks 16. og talinn fyyrsti franski húðsjúkdóma læknirinn, gaf 1777 út bókin „De morbis cutaneis”. Þessi bók var yfir 700 síður, þar er í fyrsta sinn gerð tilraun til að flokka húðsjúkdóma eftir orsökum og tengslum þeirra við innri líffæri og taugakerfið.

Robert Willan (1757-1812) var sá sem skilgreindi psoriasis sem sérstakan sjúkdóm hann notaði hins vegar nafnið lepra (Willan’s lepra). Lýsingar hans eru á psoriasis en ekki holdsveiki. Hann lýsti mismunandi formum af psoriasis þ.e. guttae, diffuse, palmaria, unguium, og inveterata. Hann gerði sér grein fýrir að psoriasis byrjar oft á olnbogum og hnjám og dreifir sér í hársvörð og í neglur á tám og fingrum.

Ferdinand Hebra (1816-1880) var austurískur Húðsjúkdómalæknir sem 1841 greindi endanlega psoriasis frá holdsveiki og gerði endurbætur á flokkunarkerfi Willans. Hebra festi nafnið psoriasis í sessi.

Arið 1818 gerði Jean Louis Alibert (1768-1837) sér grein fyyrir tengslum liðskemmda og psoriasis sem Pierre Bazin (1807-1878) nefndi arthritis psoriatica 1860. Lýsingar á afbrigðum af psoriasis fylgdu í kjölfarið pustuler generalisata (Zumbusch 1910) og síðar palmo-plantar (Barber-Königsbeck). Sumir höfundar lýstu síðar einkennum psoriasis sem hjálpuðu við greiningu. Meðal þessara höfunda var Heinrich Köbner (1838- 1904) prófessor í húðlækningum frá Breslau í Póllandi en við hann er Köbners phenomena (psoriasis í ör eða sár) kennt. Hann lýsti fyrstur þessu sérstaka fyrirbæri þar sem psoriasis útbrot koma á húð þar sem hún hefur orðið fyrir áverka. Síðar hefur þetta einkenni verið notað til að rannsaka psoriasis á frumstigi.

Heinrich Auspitz (1835-1886) nemandi Hebra lýsti punktblæðingum þegar hreistrið er tekið af psoriasis blettum. Þetta fyrirbæri er kallað Auspitz sign þó svo D. Turner, R. Willan og F. Hebra hafi allir veitt þessu athygli áður. Auspitz rannsakaði psoriasis í smásjánni og sum heiti sem notuð eru enn í dag svo sem parakeratosis (sem lýsir frumukjörnun í hornlaginu sem ekki eiga að vera þar) og acantosis (þykknun yfirhúðarinnar) eru frá honum komin. Í lok 19. aldar er smásjármynd (vefjameinafræði) psoriasis lýst í smáatriðum, að því verki komu auk A. Hebra, Unna og William Munro. Munro lýsti 1898 litlum graftarkýlum (e. microabcessum) í yfirhúðinni með hvítum blóðkornum (e. neutrophil). Þessi kýli eru einu breytingarnar í psoriasis smásjármyndinni sem eru sérkennandi fyyrir psoriasis.

Það var svo á seinni hluta 20. aldar sem sýnt var fram á að yfirhúðin í psoriasis inniheldur 25 falt meiri frumuskiptingar en eðlileg húð. Rannsóknir Weinstein 1968 sýndu að endurnýjunartími yfirhúðarfrumna í psoriasis er styttur úr 27 dögum eðlilegrar húðar í 4 daga psoriasis húðar.

A 20. öld gera menn sér svo grein fyrir því að psoriasis sé erfðasjúkdómur og að umhverfisþættir svo sem sýkingar og streita geti haft áhrif á sjúkdóminn og stundum jafnvel komið honum af stað.

Undanfarna áratugi hafa rannsóknir á tengslum psoriasis og ónæmiskerfisins verið áberandi. Þar hefur komið fram að ræsing ákveðinna ónæmisfrumna svo kallaðar T-frumur getið verið undanfari sjúkdómsins.

Þó mikill fjöldi meðferða sé til staðar er erfitt að meðhöndla psoriasis vegna langvinns eðlis sjúkdómsins. Engin lækning við psoriasis er til staðar í dag en fjöldi meðferða hafa verið þróaðar sem halda einkennum sjúkdómsins í skefjum. Stöðug þróun er í lyfjum og öðrum meðferðaformum við psoriasis. Mikill árangur hefur náðst síðan um síðustu aldamót með tilkomu líftæknilyfja (e. biologics).

Heimildir

Menter, Alan; Stoff, Benjamin (2011). Psoriasis. Manson Publishing.

Löser, Christoph; Plewig, Gerd; Bnrgdorf, Walter (2013). Springer Vorlag.

Pantheon of Dermatology: Outstanding Historical Figures.

Birkir Sveinsson húðsjúkdómalæknir

Birtist fyrst 2016 í októberhefti tímarits SPOEX