Hetjan í húðumhirðu

Hetjan í húðumhirðu

Prenta

Það er líklegt, að þú hafir heyrt um efnið retínól, þar sem það er að verða eitt vinsælasta innihaldsefnið í húðvörum í dag. Vinsældir retínóls eru ekki úr lausu lofti gripnar, á bak við efnið er fjöldinn allur af klínískum rannsóknum sem sanna það, að retínól er eitt fárra efna sem búa yfir margþættum húðbætandi eiginleikum og öflugasta efnið í húðvörum til að hægja á framkomu öldrunarmerkja á húðinni. Nú hugsarðu með þér, að þú þurfir að muna þetta eina efnaheiti og næla þér í krem sem inniheldur það. Málið er þó ekki svo einfalt en ekki hafa áhyggjur, hér færðu allar þær upplýsingar sem þú þarft.

Hvað gerir retínól fyrir húðina?
Þegar við erum á þrítugsaldri endurnýja húðfrumurnar sig um það bil einu sinni í mánuði en með aldrinum hægir á þessari þróun. Þegar það hægir á endurnýjuninni förum við að sjá á húðinni öldrunarmerki á borð við fínar línur, þurrk og litamisfellur. Húðin virkar einnig slappari, því kollagen-framleiðslan fer minnkandi með aldrinum, en kollagen er eitt helsta uppbyggingarefni húðarinnar. Þarna kemur retínól til leiks, eins og riddarinn á hvíta hestinum, og hjálpar húðfrumunum að hraða endurnýjunarferlinu á nýjan leik. Þetta verður til þess að áferð húðarinnar verður bjartari, sléttari, fínar línur grynnka og litamisfellur verða minna áberandi. Þar sem retínól örvar náttúrulega framleiðslu húðarinnar á kollageni fer húðin smám saman að verða þéttari og þar af leiðandi stinnari. Retínól minnkar einnig fituframleiðslu í fitukirtlum og fækkar fílapenslum með þeirri jákvæðu hliðarverkun, að svitaholur verða minna áberandi.

Hvernig hefur efnið þessi áhrif?
Retínól er ekki eini riddarinn í þessari sögu, efnið tilheyrir hópi retínóíða sem öll hafa sama markmið en vinna þó af misjafnri ákefð. Retínóíð eru A-vítamín sýrur sem bindast viðtökum í kjarna húðfrumna og flýtir þannig endurnýjun þeirra. Munur er á, hversu mikilli virkni retínóíðin búa yfir og þannig geturðu valið formúlu sem vinnur af ákefð sem hentar þinni húð.

Eftirfarandi eru helstu retínóíðin sem notuð eru í húðvörum til að bæta ásýnd húðarinnar:
Retinyl Palmitate (Vægt)
Retinol (Miðlungssterkt í hlutfalli 0,2%, 0,3%, 0,5% og 1%)
Retinaldehyde (Sterkt)

Eftirfarandi retínóíð eru mjög sterk og í senn lyfseðilsskyld:
Adapalene (Mjög sterkt í hlutfalli 0,1%)
Tretinoin (Mjög sterkt í hlutfalli 0,05% og 0,1%)

Hvernig á að nota retínóíð?
Þar sem retínóíð eru sterk efni skal ávallt hefja notkun rólega og mælt er með því, að nota retínóíð á kvöldin. Þar sem efnin koma í misjöfnum styrkleikum skal notast við vægt prósentuhlutfall til að byrja með. Í fyrstu skaltu nota retínóíð þriðja hvert kvöld í eina til tvær vikur. Ef það þolist vel geturðu aukið notkunina og borið á þig retínóíð annað hvert kvöld í þrjár til fjórar vikur. Á fimmtu viku ættirðu að geta notað retínóíð á hverju kvöldi en þetta fer þó allt eftir því hvað húðin þín þolir. Ef húðin þín er mjög viðkvæm er mælt með því að byrja á meðferðinni einu sinni til tvisvar sinnum í viku og láta þrjár til fjórar vikur líða á milli þess sem þú eykur notkunina. Formúluna skal bera á hreina húð og í þunnu lagi en mikilvægt er að það komi ekki nálægt augum og munnvikum, þar sem húðin þar er mjög viðkvæm. Þar sem erting, á borð við roða, sviða eða brunatilfinningu, getur komið upp í húðinni með notkun retínóíða getur reynst gott að bera rakakrem á húðina þrjátíu mínútum fyrir meðferðina og þrjátíu mínútum eftir hana.

Retínól-formúlur sem við mælum með:
SkinCeuticals Retinol (styrkleikar 0,3%, 0,5% og 1%)
Neostrata Comprehensive Retinol 0.3% Night Serum
Pharmaceris T Pure Retinol Night Cream 0.3%

Eru ókostir við notkun retínóíða?
Retínóíð hraða endurnýjun húðfrumna og því kemur gjarnan fram húðflögnun í byrjun meðferðar og jafnvel annarskonar erting. Það getur því talist ókostur, að venja þurfi húðina rólega við notkun retínóíða og árangur meðferðarinnar kemur oft ekki í ljós fyrr en eftir um þriggja mánaða notkun. Flestir sjá þó verulegan mun á húðinni eftir sex til tólf mánaða notkun. Mikilvægt er að hafa í huga, að ekki er æskilegt að nota retínóíð á sama tíma og húðvörur sem innihalda salicylic-sýru eða benzóýl peroxíð. Ekki er ráðlagt að nota retínóíð á meðgöngu eða á meðan brjóstagjöf stendur.

Ekki gleyma sólarvörninni
Sólarvörn ætti að sjálfsögðu að tilheyra daglegri húðumhirðurútínu þinni en það er enn mikilvægara að bera á sig sólarvörn á hverjum morgni, ef þú ert að nota húðmeðferð með retínóíðum. Þar sem þau auka ljósnæmni húðarinnar ætti einnig að lágmarka dvöl í sól og notkun ljósalampa. Notaðu sólarvörn með SPF 30 að lágmarki.

Sólarvarnir sem við mælum með:
SkinCeuticals Mineral Radiance UV Defense SPF 50
Eucerin Sensitive Protect Sun Fluid SPF 50
Neostrata Sheer Physical Protection SPF 50

Tags: