Psoriasis – einkenni og meðferð

Psoriasis – einkenni og meðferð

Prenta

Psoriasis er sjúkdómur sem situr í húð, nöglum og stundum í liðamótum. Hann hefur yfirleitt ekki áhrif á lífslengd fólks.Psoriasis er ekki smitandi. Flestir hafa sjúkdóminn á vægu stigi, en mismunandi er hve mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf manna.Gangur Psoriasis er oft sá að það koma tímabil þar sem húðbreytingarnar versna og síðan tímabil þar sem sjúkdómurinn er í rólegum fasa.

Hægt er að halda húðbreytingunum niðri með ýmsum aðferðum, en í dag er ekki til nein fullnaðarlækning. Sjaldgæft er að Psoriasis hverfi algerlega, en það er þó til. Talið er að um 2 % vestrænna manna séu með Psoriasis. Sjúkdómurinn er því algengur. Sjúkdómurinn byrjar oft milli 10 og 20 ára. Að jafnaði koma einkennin fyrr fram hjá kvenþjóðinni. Þegar Psoriasis byrjar hjá ungu fólki er hann oftar til í fjölskyldunni en þegar sjúkdómurinn byrjar hjá eldri. Hlutfall milli kynja er jafnt.

Vitað er að Psoriasis er ættgengur sjúkdómur. Það er hins vegar ekki vitað hvernig hann erfist. Talið er að hafi annað foreldrið Psoriasis þá séu 16 % líkur á að barn fái sjúkdóminn. Hafi hins vegar báðir foreldrar sjúkdóminn eru 50 % líkur á að hvert barn fái Psoriasis. 36 % Psoriasis sjúklinga hafa amk einn í fjölskyldunni með sjúkdóminn.

Þættir sem hafa áhrif á Psoriasis

  • Sýkingar: Streptococca bakteríusýkingar í hálsi geta komið af stað Psoriasis og einnig valdið versnun hans.
  • Álag á húð: Skrámur, sólbruni, núningur og annað álag á húðina getur valdið því að Psoriasis breytingar setjast þar.
  • Lyf: Lyf sem geta valdið versnun Psoriasis eru blóðþrýstingslyf í Beta Blokkera flokknum ( Atenólól, Tensól, Inderal ofl. ), Líthíum,
  • Kortisón töflur ( þegar hætt er með þær) og malaríulyf.
  • Stress: Ekkert hefur sannast í þessum efnum, en þó er hugsanlegt að útbreiðsla sjúkdómsins aukist við andlegt álag.
  • Áfengi: Ofdrykkja er algengari meðal karla með slæman Psoriasis en annara karla. Líklegt er að bæði óhófleg áfengisneysla og reykingar hafi slæm áhrif á sjúkdóminn.
  • Ef að þungun breytir eitthvað gangi Psoriasis þá er það yfirleitt til batnaðar.

Einkenni

Útlit Psoriasisbreytinganna getur verið margs konar. Oftast sjást laxableikar velafmarkaðar breytingar af ýmsum stærðum. Algengast er að breytingarnar séu á olnbogum, hnjám, í hársverði og fótleggjum. Misjafnt er hversu mikið breytingarnar hreistra. Stundum blæðir eins og í nokkrum punktum þegar hreistrið er tekið af. Breytingarnar eru oft þykkar. Fjöldi breytinga geta verið frá 1 til nokkur hundruð.

Útbreiðsla er mismunandi. Dropapsoriasis er margir litlir blettir sem dreifðir eru um allan líkamann. Þetta form kemur oft snögglega og þá eftir bakteríuhálsbólgu. Algengasta formið er nokkrar fremur stórar breytingar sem eru stundum samhangandi. Til eru form sem einkennast af litlum og stórum graftrarbólum. Einnig er til sjaldgæft form þar sem nánast allt yfirborð líkamans verður rautt, og fólk með þetta er oft mikið veikt. Breytingar í nöglum eru hjá 25 – 50 % Psoriasis sjúkl ef vel er að gáð. Þær einkennast oft af litlum holum í yfirborði naglanna, og einnig þykknun undir þeim. Oft losna neglurnar fremst.

Meðferð

Meðferð miðast við að ná burtu psoriasis breytingunum. Þegar þessu markmiði hefur verið náð er vonast til að batinn haldist sem lengst. Vegna þess hve gangur sjúkdómsins er mismunandi geta breytingarnar horfið án nokkurrar meðferðar, en koma svo oftast tilbaka. Reyna skal að halda sér í góðu formi bæði andlega og líkamlega. Þetta bætir hæfnina til að ráða við Psoriasis sjúkdóminn. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að mataræði skifti máli fyrir Psoriasis.

Oftast er staðbundinn Psoriasis meðhöndlaður með útvortis lyfjum í byrjun. Algengast nú er Daivonex, Kortisónkrem og Ditranól. Einnig er hægt að nota tjöru. Ljósameðferð er oft notuð, og þá oftast af gerðinni UVB. Þetta eru sterkari geislar en í venjulegum ljósabekkjum. Einnig er notuð svokölluð PUVA meðferð þar sem teknar eru inn töflur sem gera húðina ljósnæma fyrir ljósameðferð. Við slæmum Psoriasis eru stundum notuð hylki sem skyld eru A vítamíni (Neo-Tigason) og einnig lyf sem hafa áhrif á frumuskiptingu og ónæmiskerfið ( Metotrexat, Cyclosporin).

Útvortis lyfjameðferð

Calcipotriol (Daivonex eða Daivobet): Er ein algengasta útvortis meðferðin í dag. Er skylt D Vítamíni og hefur áhrif á hina öru frumuskiftingu í Psoriasis breytingunum. Tiltölulega laust við aukaverkanir. Sumir fá ertingu í húðina umhverfir breytingarnar. Berist áburðurinn í andlit þá getur húðin þar bólgnað. Hentar vel á stórar staðbundnar breytingar á útlimum og bol.

Kortisónkrem: Þetta er oft besta meðferðin fyrir Psoriasis í andliti og á hálsi , og einnig á kynfæri og nára og handarkrika. Kostir kortisónkremanna eru að þau erta ekki, eru oft fljótvirk, lita ekki föt og eru snyrtileg að nota. Ókostir eru að sterk kortisónkrem í miklu magni geta haft áhrif á nýrnahettur, og mikil notkun í andlit og á lokuð svæði getur valdið æðabreytingum og húðsliti. Sterk kortisónkrem geta valdið húðþynningu ef þau eru notuð lengi, en sú þynning gengur oftast tilbaka þegar notkun er hætt.

Tjara: Meðferð með tjöru er gömul meðferð sem er oft notuð með ljósameðferð. Ekki er alveg vitað hvernig tjaran virkar. Kostirnir eru þeir að tjaran er örugg og góð meðferð.

Ókostir eru þeir að meðferðin er óþrifaleg og tímafrek. Fyrir Psoriasis í hársverði er tjara af mörgum talin vera besta meðferðin. Tjörusjampó eru td. T-Gel sjampó, Doak tjörusjampó og Polytar.

Dítranól: Þetta er efni sem er skylt gömlu Psoriasis lyfi sem unnið var úr trjáberki. Dítranól er oft notað með ljósameðferð og líka tjöru. Kostir eru þeir að árangur er oft góður og aukaverkanir litlar. Ókostir eru að efnið litar klæði og er ertandi fyrir húð. Nú er oft erfitt að fá þetta lyf.

Ljósameðferð

Sá hluti útfjólublárra geisla sem kallaður er UVB er oftast notaður. Þetta eru annars konar geislar en í venjulegum ljósabekkjum. Oftast eru notuð svokölluð “narrow band” ljósrör sem gefa bestan árangur. Venjulegir ljósabekkir hafa óveruleg áhrif á Psoriasis. UVB meðferðin er gefin 3-5 sinnum í viku. Mismunandi er hve langan tíma þarf til að losna við breytingarnar. Nota má aðrar meðferðir jafnframt ljósunum td Daivonex. Ekki hefur verið sýnt fram á að hefðbundin UVB meðferð valdi aukinni hættu á húðkrabba. Til eru UVB lampar af ýmsum gerðum allt frá stórum klefum niður í einföld tæki til heimanotkunar.

PUVA: Þetta er ljósameðferð sem notuð er við slæmum Psoriasis sem ekki lætur undan hefðbundnum meðferðum.

Meðferðin er gefin 2-4 sinnum í viku og fer þannig fram að sjúklingarnir taka inn töflur 1-2 klst fyrir ljósameðferð með útfjólubláum geislum af gerðinni UVA. Þessar töflur gera húðina mjög ljósnæma. Sjúklingar þurfa að ganga með sérstök sólgleraugu allan meðferðardaginn. Sumir fá ógleði af töflunum. Aukin hætta er á húðkrabbameini eftir ákveðinn fjölda meðferða. Ekki hefur þó verið sýnt fram á aukningu sortuæxla við PUVA meðferð.

Inntökulyf

Neotigason: Þetta lyf er skylt A vítamíni. Það er notað gegn útbreyddum Psoriasis af pustuler gerð og einnig gegn slæmum Psoriasis með PUVA. Notkun takmarkast vegna aukaverkana sem eru þurrkur í öllum slímhimnum, hækkun á blóðfitum , fósturskaðar ofl.

Methotrexat: Þetta er lyf sem hefur áhrif á frumfjölgun í húð, og er einnig notað gegn ýmsum krabbameinum. Er oftast gefið einu sinni í hverri viku.

Er gott lyf við slæmum Psoriasis. Er einnig mikið notað við psoriasis gigt. Reynist oft vel sem langtímameðferð en fylgjast þarf vel með lifrarstarfsemi meðan á meðferð stendur til að koma í veg fyrir aukaverkanir.

Cyclosporin: Þetta er ónæmisbælandi lyf. Hefur verið notað við Psoriasis sem svarar ekki annari meðferð. Takmarkandi þáttur er áhrif lyfsins á nýru.

Bíólógísku lyfin: Þetta eru lyf sem hafa áhrif á eitilfrumur í húð. Talið er að þessar frumur (T-eitilfrumur) gegni lykilhlutverki í psoriasis. Nokkrir flokkar eru til. Lyfin hemja merkjasendingar milli eitilfrumnanna og minnka þannig bólgusvörun þeirra í húðinni. Talsverð þróun er þessum lyfjaflokkum og meðal þeirra eru öflugustu psoriasis lyfin. Þau eru mjög dýr og þarf að gefa með sprautum undir húð eða í æð.

Líftæknilyf

Þessi texti var skrifaður áður en notkun líftæknilyfja gegn psoriasis varð útbreidd. Þau eru nú mikið notuð gegn slæmum psoriasis. Sjá umfjöllum um þau annars sstaðar á síðunni.

Psoriasisgigt

Psoriasisgikt er talin koma hjá 7-20 % Psoriasissjúklinga. Algengust er Psoriasis gigt hjá þeim sem hafa útbreiddan Pustuler Psoriasis eða útbreiddan roðapsoriasis. Þeir sem hafa psoriasis hafa oft önnur einkenni frá liðamótum án þess að um gigt með bólgubreytingum sé að ræða. Oft tengjast naglabreytingar psoriasisgigt í höndum. Oftast situr Psoriasisgigtin í fingurliðum, en getur líka verið í hálshrygg og kjálkaliðum.

Oftast meðhöndluð með bólgueyðandi lyfjum. Slæm tilfelli eru meðhöndluð með Methotrexati eða bíólógísku lyfjunum.