Nikkel í augnskuggum

Nikkel í augnskuggum

Prenta

Þrátt fyrir að búið sé að banna nikkel í snyrtivörum fer því fjarri að reglunum sé alltaf fylgt. Ný dönsk rannsókn frá rannsóknarstofu Miljø og Sundhed leiddi í ljós hátt hlutfall nikkels í 19 tegundum algengra maskara.

Mælt er með því að nikkelinnihald maskara fari ekki upp fyrir 5 mg/kg, en það ættu allir að þola. Í könnuninni kom í ljós að maskarinn með hæst hlutfall nikkels innihélt 41 mg/kg en sá sem hafði minnst 16 mg/kg.
Nikkelinnihaldið er ekki merkt sérstaklega og því getur verið erfitt að forðast þá maskara sem eru hvað verstir.

En hvernig stendur á því að nikkel er svona algengt í maskörum þrátt fyrir að búið sé að banna nikkel í snyrtivörum?
Þann 1. janúar 2005 gekk í gildi bann við notkun nikkels í snyrtivörum á Evrópska efnahagssvæðinu. Nikkel í snyrtivörum er þó leyfilegt ef um er að ræða „óhreinindi“. Það þýðir að nikkel getur slæðst með öðrum hráefnum sem notuð eru í vöruna, í þessu tilfelli með litarefni, sérstaklega svörtu eða dökku. Engar reglur eru til um hámark nikkels í formi „óhreininda“.
Nikk_mask

Claus Jørgensen sem starfar hjá dönsku neytendastofnuninni segir í viðtali við blaðið Tænk að hámark nikkels ætti að miðast við 5 mg/kg hvort sem miðað er við óhreinindi eða ekki. Jørgensen bendir enn fremur á að í sænskri könnun frá 1990 hafi meira en helmingur maskaranna innihaldið minna en 5 mg/kg. Það sé því ljóst að framleiðendur geti framleitt maskara með minna nikkelmagni kjósi þeir það.

Þeir sem eru með ofnæmi fyrir nikkel gætu þurft að þola óþægindi vegna maskara með háu nikkelinnihaldi. Þá er ráðlagt að láta maskarann ekki snerta húðina og þvo hann vel af áður en lagst er til svefns. Nikkelhlutfallið er hæst í svörtum eða dökkum maskara en minna í maskara í ljósari litum.
Þeir sem ekki þjást af nikkelofnæmi ættu ekki að finna fyrir óþægindum vegna maskara jafnvel þótt nikkelinnihald sé hátt. Hins vegar er um að gera að forðast alla þekkta ofnæmisvalda eins og kostur er.

Neytendablaðið 2005