Kláði í endaþarmi (prusritus ani)

Kláði í endaþarmi (prusritus ani)

Prenta

Pruritus ani er latína og þýðir kláði í endaþarmi. Þetta er mjög algengt vandamál. Þessi kláði getur komið frá  húðsjúkdómum sem eru á svæðinu, en oft sjást engin merki um neinn slíkan sjúkdóm. Þegar ekki er um að ræða húðsjúkdóm sem orsakar kláðann er talið að margir þættir geti orsakað þetta vandamál.

Orsakir
Hægðir geta smitast frá endaþarminum á nálæga húð og ert þannig. Bæði geta þetta verið bakteríur og hvatar og önnur efni. Sum þessara efna geta valdið snertiofnæmi.

Orsakir þessa hægðasmits geta verið:

1. Erfiðleikar við að hreinsa svæðið td vegna offitu, tíðni hægða, eða staðsetningar endaþarms og hárvaxtar þar í kring.
2. Hægðaleki, t.d. vegna gyllinæðar, sepa eða sprungna í endaþarminum. Getur einnig verið vegna slapps hringvöðva.
3. Bakteríusmit.  Oftast er þetta þó afleiðing en ekki orsök vandamálsins.
4. Matur og drykkur. Ekki er mikið vitað um þetta en sumir sjúklingar versna af vissum fæðutegundum, t.d. kaffi og hnetum.
5. Sálrænir þættir. Þetta er nú talið skipta minna máli en áður, og sálræn vandamál geta stundum orsakast af hinum sífellda kláða.

Meðferð

• Notið nærföt sem eru ekki þröng (Boxarabuxur).
• Finnist eitthvað sjúklegt við skoðun td stór gyllinæð eða sprungur þá er rétt að fá álit skurðlæknis.
• Notið sem minnst af kortisónkremum. Þó eru slík krem og stílar hjálpleg séu þau notuð í stuttan  tíma í einu.
• Eftir hægðir skal þrífa svæðið með blautum salernispappír eða kremservéttum sem fást í apótekum.
• Nuddið aldrei svæðið. Það heldur við kláðanum.
• Notið kláðastillandi krem t.d. Zink pasta með 2 % phenol fyrir og eftir hverjar hægðir, og einnig fyrir svefn.