- Húðlæknastöðin - https://hudlaeknastodin.is -

Kláðamaur (scabies)

Kláðamaur (Sarcoptes Scabei) er lítið dýr, um 0,4 mm að lengd, sem lifir í hornlagi húðarinnar. Kvendýrið sest að í hornlaginu og getur borað sig áfram um 2 mm á dag um leið og það verpir 2-3 eggjum á dag. Eggin klekjast á 3 dögum en lirfan þroskast í fullorðið dýr á 2 vikum. Um 4-6 vikum eftir að maurinn hefur festst í húðinni myndast ofnæmi fyrir honum og veldur það miklum kláða, sem er verstur á kvöldin. Þegar kláðinn byrjar hafa flestir um 10-12 maura í húðinni Maurinn smitast við snertingu en hún þarf þó að vara í nokkurn tíma þannig smitar handarbandskveðja nær aldrei.

Smit á sér oftast stað á eftirfarandi hátt :

Náin snerting.

Venjuleg umgengni á milli fjölskyldumeðlima, sérstaklega ef sameiginlegt baðherbergi er notað, notkun handklæða sem smitaður einstaklingur hefur notað, sólbaðstofubekkir sem smitaður einstaklingur hefur notað og er ekki nægjanlega þrifinn.

Eftir meðferð er kláðinn oftast til staðar í um 2 vikur eða jafnvel lengur. Afar mikilvægt er að greiningin sé rétt í upphafi, því meðferðin við maurnum getur framkallað kláða og jafnvel exem sem stundum er erfitt að greina frá maur eftirá.

Nokkur lyf eru til staðar sem gagnast við kláðamaur. Algengustu lyfin eru í áburðarformi. Þau eru : Quellada , Nix krem, Benzyli benzoatum, Tenutex, Prioderm.

Leiðbeiningar um meðhöndlun við kláðamaur:

Meðferð skal gefin öllum meðlimum fjölskyldunnar. Mikilvægt er að allir fái meðferðina samtímis.

Best er að hefja meðferðina að kvöldi dags. Ekki er nauðsynlegt að þvo sér sérstaklega áður en meðferð er hafin. Borið er á að nýju að morgni án þess að farið sé í bað, en um kvöldið (24 klst eftir að borið var á fyrst) er farið í bað.

Best er að fá aðstoð við meðferðina þannig að allt yfirborð húðarinnar náist þegar áburðurinn er borinn á.

Berið áburðinn á allan líkamann af mikilli nákvæmni en sleppið þó andliti og hársverði, því maurinn sest ekki þar nema á börnum undir tveggja ára aldri. Í þeim tilvikum skal haft samráð við lækninn.

Börn undir 4 ára aldri þurfa oftast meðferð með sérstökum áburði, Benzyli Benzoatum en sá áburður er borinn á allan líkamann 3 kvöld í röð.

Gleymið ekki að bera á milli táa, í nára, kringum endaþarm og kynfæri, í nafla og undir neglur.

Ath að bera aftur á hendur eftir handþvott, t.d. eftir að farið er á salerni.

Nauðsynlegt er að skipta á rúmum áður en áburðurinn hefur verið þveginn af. einnig skal farið í hrein nærföt. Athugið að þvo einnig öll handklæði. Skór og leðurfatnaður þarf að “hvílast” í 3-4 daga áður en það er notað að nýju.