Hættan er ljós

Hættan er ljós

Prenta
Bárður Sigurgeirsson dr.med

Á hverju ári standa Geislavarnir ríkisins, Krabbameinsfélagið, Landlæknisembættið og Félag íslenskra húðlækna fyrir fræðslu til að minna á skaðsemi ljósabekkja, en hver eru hin skaðlegu áhrif ljósabekkjanna?

Árið 1992 gaf Alþjóða krabbameinsrannsóknarstofnunin út yfirlýsingu þar sem fram kom að nægar vísindalegar upplýsingar lægju fyrir til að fullyrða að útfjólubláir geislar gætu valdið sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum. Útfjólubláa geisla er að finna bæði í geislum sólarinnar og ljósabekkja.

Þessi auglýsing birtist í dagblöðum 10. mars 2004 sem liður í fræðsluátaki til að vara fermingarbörn við notkun ljósabekkja.

Sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti að sólargeislar og sérstaklega geislar ljósbekkja valda ótímabærri öldrun húðarinnar með hrukkumyndun, æðaslitum og litabreytingum. Aðaláhyggjuefnið er hins vegar að algengi sortuæxla (melanoma) hérlendis hefur aukist verulega á undanförnum áratugum.

Sortuæxli eru líffræðilega séð með ágengustu krabbameinum sem þekkjast. Þau myndast frá litarfrumunum sem framleiða litarefni húðarinnar. Oftast er auðvelt að lækna þau, greinist þau snemma, en þau geta reynst banvæn greinist þau of seint.

Fyrstu merkin
Fæðingarblettur sem breytist á einhvern hátt er stundum fyrsta merkið um sortuæxli en einnig geta þau komið sem nýr blettur í húð. Tæplega helmingur sortuæxla myndast í óreglulegum fæðingarblettum, um 2-8% koma í meðfædda fæðingarbletti og afgangurinn myndast í tiltölulega eðlilegri, en oft sólskaðaðri húð.

Reikna má með að á árinu 2004 muni um 80 Íslendingar fá sortuæxli og þar af um 50 svokölluð ífarandi sortuæxli, sem eru alvarlegra form en staðbundnu æxlin. Dauðsföll af völdum húðkrabbameina eru oftast af völdum ífarandi sortuæxla. Hérlendis hefur sortuæxlum fjölgað mjög á síðustu árum hjá yngra fólki en eru þó fremur sjaldgæf fyrir kynþroska. Þau eru algengasta krabbameinið hjá ungum konum og næstalgengasta krabbameinið hjá ungum karlmönnum.

Meðferð felst í einfaldri skurðaðgerð. Ef æxlin greinast snemma og eru grunn fæst oftast lækning og ekki er þörf á lyfjameðferð. Þykkt sortuæxlis er afgerandi fyrir horfur sjúklingsins. Því þykkara þeim mun meiri líkur eru á að æxlið dreifi sér til annarra líffæra og myndi meinvörp.

Áhættuþættir: erfðir og áhættuhegðun
Hættan á að fá sortuæxli eykst ef viðkomandi hefur marga stóra eða óreglulega fæðingarbletti. Blettur telst óreglulegur ef hann er með ójafnan lit eða lögun, ef ytri mörk eru óljós og einnig ef útlit líkist spældu eggi. Þetta kemur stundum ekki í ljós fyrr en bletturinn hefur verið skorinn burt og sendur í skoðun hjá meinafræðingum. Jafnvel reyndur læknir getur átt erfitt með að greina slíka bletti. Talið er að 2-4% hvítra manna hafi einn eða fleiri óreglulega fæðingarbletti. Hafa skal í huga að sortuæxli geta einnig myndast í blettum sem ekki teljast óreglulegir.

Áhættan eykst einnig ef einhver í fjölskyldunni er með sortuæxli. Þeir sem hafa hvíta húð, freknur, rautt hár, ljóst hár, blá og græn augu eru líklegri til að mynda sortuæxli, en þau geta þó einnig myndast í dökkri húð. Þetta á sérstaklega við um þá sem roðna auðveldlega eftir sól.

Stutt áköf sólun með hvíld á milli virðist slæm. Vegna íslenskrar veðráttu hafa margir tilhneigingu til slíkra sólbaða. Sólarlandaferðir geta á sama hátt verið slæmar ef ekki er farið að með gát og öflug sólvörn notuð. Áhættan á húðkrabbameini eykst verulega með endurteknum sólbruna fyrir 18 ára aldur, en nýlega hefur komið í ljós að bruni hjá eldra fólki eykur einnig hættu á sortuæxlum. Á síðustu árum hafa ljósabekkirnir bæst við, en þeir eru mikið notaðir af unglingum. Slík notkun er afar óæskileg og eykur hættu á sortuæxlum auk þess sem húðin verður mun ellilegri.

Ef þú ert með meinsemd í húðinni sem þú telur að gæti verið sortuæxli skaltu leita læknis strax.