Þessi vefsíða notar fótspor (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn, geyma upplýsingar um stillingar o.fl. Með því að nota vefinn samþykkir þú stefnu okkar um notkun fótspora. ×
Laser / Botox / Fylliefni

Fylliefni

Fylliefni (Restylane©/Juvéderm©) til að eyða fínum línum í andliti, móta andlitslínur og móta fullkomnar varir.

Ísprautun með fylliefnum eins og Restylane og Juvéderm er áhrifarík og náttúruleg fegrunarmeðferð sem dregur úr hrukkum og eykur ferskleika húðarinnar. Hægt er að slétta úr línum og hrukkum, bæta í varir, móta kinnbein, fylla upp í ör svo eitthvað sé nefnt. Fylliefni eru meðal vinsælustu fegrunarmeðferðanna í dag þar sem árangurinn er sjáanlegur strax eftir meðferð, aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar og batatíminn mjög stuttur.

Sveigjanleiki og æska húðarinnar tengist að miklu leyti hýalúrónsýru sem er í öllum vefjum líkamans. Framleiðsla hennar minnkar með aldrinum. Fylliefnin sem Húðlæknastöðin notar (Restylane© og Juvéderm©) eru viðurkennd efni sem innihalda hýalúrónsýru í formi hreins kristalsgels sem bindur vatn í húðinni, lyftir og gefur henni aukinn þéttleika. Rannsóknir hafa sýnt að meðferð með hýalúrónsýru er bæði áhrifarík og örugg. Sjá nánar á vef Restylane.

Hvenær á þessi meðferð við?

• Þú ert með sýnilegar lóðréttar hrukkur sem koma fram milli augabrúna þegar hleypt í brýrnar (ennissléttuhrukkur)
• Þú ert með sýnilegar línur kringum munninn
• Þig vantar fyllingu í kinnar, kjálkalínuna eða varirnar
• Þú ert með fín ör eftir unglingabólur eða önnur ör

Til að fá frískara og úthvíldara útlit notum við oft botox samhliða fyllefnunum. Sjá nánar í "Botox" flipanum hér á síðunni.

Kostir við fyllefni

• Meðferðin tekur ekki langan tíma og möguleiki er á deyfingu fyrir meðferð
• Árangurinn er sjáanlegur strax og batatíminn mjög stuttur
• Gefur náttúrulegt útlit, úthvílt og freskara yfirbragð

Ókostir við fylliefni

• Árangurinn er ekki varanlegur og þarf að endurtaka reglulega til að viðhalda árangrinum
• Mar getur komið fram eftir stungurnar á viðkvæmum svæðum og bólga

Ef ég hef áhuga á þessari meðferð hvað geri ég?

Þú pantar þér tíma hjá húðlækni í síma 520-4444 eða með tölvupósti á netfangið timabokun@hls.is þar sem farið er yfir þínar óskir og hvaða meðferðir henta best. Þá er farið í gegnum kosti og galla viðkomandi meðferð og mögulega fylgikvilla. Eftir fyrsta viðtal er bókað í meðferðartímann.
Í fyrsta viðtali er einnig farið í gegnum heilsufarssögu þína. Ef þú ert að taka inn blóðþynnandi lyf þarf yfirleitt að taka hlé í nokkra daga fyrir meðhöndlunina og einnig er ráðlegt að taka ekki inn lýsi eða Omega töflur viku fyrir meðferð.

Ef þú ert ólétt eða með barn á brjósti þá er meðferð með fylliefnum ekki ráðleg.

Hvernig fer meðferðin sjálf fram?

Fylliefninu er sprautað með lítilli nál í húðina á þau meðferðarsvæði sem um ræðir hverju sinni. Hver margar stungur það eru eða hve djúpt er farið fer eftir því hvaða meðferðasvæði eiga við hverju sinni. Yfirleitt þarf enga deyfingu áður nema fyrir varir. Þá er yfirleitt sett deyfikrem á varirnar 15-20 mínútum fyrir meðferðartímann. Annars er deyfilyf (lidocain) í fylliefnissprautunum sem minnka óþægindin við stungurnar. Meðferðin sjálf tekur 30-60 mínútur eftir umfangi hverju sinni.

Hvað gerist eftir meðferðina?

Þú sérð árangurinn strax og yfirleitt er batatíminn sama og enginn og þú getur auðveldlega farið strax aftur til vinnu eða í veislu um kvöldið. Það er aftur á móti ekki óalgengt að það komi roði og smá bólga í meðferðarsvæðið sem er alveg eðlilegt. Ef maður hefur tilhneigingu til að fá marbletti þá getur maður verið viðbúinn því að það gæti komið örlítið mar eftir stungurnar. Það er mjög misjafnt hve batatíminn er ef roði, bólga eða mar koma fram, en það gæti verið upp í eina viku.
Við meðhöndlun á vörum kemur yfirleitt alltaf bólga fyrst á eftir og er mikilvægt að hafa í huga að þetta er ekki lokaniðurstaða meðferðarinnar. Þessi bólga er yfirleitt fljót að jafna sig, tekur nokkra daga.
Þú mátt ekki koma við stungusvæðið eða nudda í sex klukkutíma eftir meðhöndlunina. Eftir þann tíma getur þú þvegið andlitið varlega með þvottapoka og sett léttan farða. Þú skalt forðast mikinn kulda eða hita þar til roðinn og bólgan eru farin.
Það er einnig mikilvægt að forðast aðrar andlitsmeðferðir eins og lasermeðhöndlun eða húðslípun í a.m.k. 2 vikur eftir meðhöndlunina. Einnig er gott að taka því rólega fyrsta sólarhringinn og þá sleppa líkamsrækt.
Þú kemur í endurkomu 2 vikum eftir meðferðina sem við bókum alltaf strax eftir meðferðartímann til að meta árangurinn og hvort að óskir þínar hafi verið uppfylltar. Sá tími er þér að kostnaðarlausu.
Árangurinn er ekki varanlegur og meðferðirnar virka u.þ.b. í 6-12 mánuði og þá getur maður endurtekið meðferðina. Fylliefni í varir þarf yfirleitt að endurtaka á 6 mánaða fresti.

Hvað kosta fylliefni?

Það er mjög mismunandi eftir því hvaða svæði eru meðhöndluð og hve mörg og ef botox er notað með fylliefnum o.s.frv. en almennt er verðið frá 69.000 kr.

Samsett meðferð með botox og fylliefnum?

Til að fá frískara og úthvíldara útlit notum við oft fylliefni samhliða botox. Fylliefnin eru yfirleitt notuð til að yngja upp húðina, bæta upp tapað vef á þeim svæðum sem maður tapar helst fyllingunni með árunum, t.d. eins og kinnar og svæðið á milli nefs og munnviks, til að fylla upp í djúpar hrukkur og stækka varir. Sjá nánar í "Botox" flipanum hér á síðunni.

Fyrir og eftir myndir • Húðlæknastöðin

  Smáratorg 1,
  201 Kópavogur,
  Iceland

 • Opnunartími

  Alla virka daga
  8:00 - 16:00

  Skiptiborð er opið
  09:00 - 12:00
  13:00 - 15:30

 • Hafa samband

  Sími: 520 4444
  Fax: 520 4400
  Email: timabokun@hls.is
  Laser / Botox / Fylliefni
  Sími: 520 4407 & 520 4412
  Fax: 520 4400
  Email: laser@hls.is

 • Samfélagsmiðlar

© Húðlæknastöðin ehf. - Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans - Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd