Þessi vefsíða notar fótspor (e. cookies) til að auðvelda þér að vafra um vefinn, geyma upplýsingar um stillingar o.fl. Með því að nota vefinn samþykkir þú stefnu okkar um notkun fótspora. ×
Laser / Botox / Fylliefni

Botox

Botulínseitur (botox) gegn hrukkum og fínum línum í andliti.

Botulínseitur (af flokki A) er inndælingarmeðferð sem kemur í veg fyrir þau taugaboð sem þarf til að vöðvar dragast saman. Árangurinn er að línur og hrukkur sem hafa myndast vegna andlitshreyfinga í gegnum árin, t.d. við bros eða við það að setja í brýrnar á móti sólinni, mýkjast og verða minna sýnilegar.

Þetta er algengasta fegrunarmeðferðin í dag og voru t.d 5 milljónir botox meðferða útfærðar í heiminum árið 2014. Algeng meðferðarsvæði eru t.d. reiðihrukkurnar á milli augna þegar hleypt er í brýrnar, broshrukkur (krákufætur) í kringum augun og láréttu línurnar á enninu. Einnig er botox mikið notað í læknisfræðilegum tilgangi eins og t.d. gegn óhóflegri svitamyndun í holhöndum.

Einungis læknar með viðeigandi réttindi og sérfræðikunnáttu í þessari meðferð mega gefa botox.

Hvenær á þessi meðferð við?

• Þú ert með sýnilegar lóðréttar hrukkur sem koma fram milli augabrúna þegar hleypt er í brýrnar (ennissléttuhrukkur).
• Þú ert með sýnilegar hrukkur hliðlægt við augu sem koma fram þegar brosað er breitt (krákufætur).
• Þú ert með sýnilegar láréttar línur á enni.
• Þú ert með sterka vöðva kringum augu og á enninu sem geta valdið hrukkum með tímanum.


Yfirleitt er meðhöndlunin útfærð á hrukkur og línur sem eru nú þegar sýnilegar. Það kemur þó fyrir að fyrirbyggjandi meðferð á við þegar maður hefur sterka andlitsvöðva og tilhneigingu til að mynda djúpar hrukkur.

Ef að maður er með hrukkur eða línur í andlitinu sem orsakast vegna þess að maður hefur tapað fyllingunni með árunum og húðin þar af leiðandi orðin slöpp og tapað teygjanleika sínum, t.d. eins og frá nefi að munnviki (nasolabialt) þá er fylliefni betri meðferð. Sjá nánar með því að smella á flipann "fylliefni" hér á síðunni.


Fyrir og eftir mynd eftir botox í krákufætur
Fyrir og eftir mynd eftir botox í enni


Fyrir og eftir mynd eftir botox í enni


Kostir við botox

• Örugg meðferð
• Meðferðin er ekkert sérstaklega sársaukafull og batatími sama og enginn
• Gefur náttúrulegt útlit, úthvílt og freskara yfirbragð

Ókostir við botox

• Er ekki varanleg meðferð og þarf að endurtaka á 3-6 mánaða fresti
• Mar getur komið fram eftir stungurnar á viðkvæmum svæðum, jafnar sig yfirleitt innan viku


Ef ég hef áhuga á þessari meðferð hvað geri ég?

Þú pantar þér tíma hjá húðlækni í síma 520-4444 eða með tölvupósti á netfangið timabokun@hls.is þar sem farið er yfir þínar óskir og hvaða meðferðir henta best. Þá er farið í gegnum kosti og galla viðkomandi meðferð og mögulega fylgikvilla. Eftir fyrsta viðtal er bókað í meðferðartímann.
Í fyrsta viðtali er einnig farið í gegnum heilsufarssögu þína. Ef þú ert að taka inn blóðþynnandi lyf þarf yfirleitt að taka hlé í nokkra daga fyrir meðhöndlunina og einnig er ráðlegt að taka ekki inn lýsi eða Omega töflur viku fyrir meðferð.

Ef þú ert ólétt eða með barn á brjósti þá er meðferð með botox ekki ráðleg.

Hvernig fer meðferðin sjálf fram?

Litlu magni af botoxi er sprautað með fínni nál á nokkra stungustaði á því svæði sem á að meðhöndla. Yfirleitt þarf enga deyfingu áður en það er hægt að óska eftir deyfingu með deyfikremi ef maður er mjög viðkvæmur. Þá þarf að mæta einni klukkustund fyrir meðferðartímann þar sem deyfikrem er sett yfir meðferðarsvæðið. Annars tekur meðferðin sjálf ekki meira en 10-20 mínútur.

Hvað gerist eftir meðferðina?

Yfirleitt skilur meðferðin ekki eftir nein merki og þú getur auðveldlega farið strax aftur til vinnu eða í veislu um kvöldið. Ef tilhneiging er að fá marbletti þá er möguleiki að það geti komið örlítið mar eftir stungurnar.
Eftir meðferðina átt þú að nota andlitsvöðvana á meðferðarsvæðinu eins mikið og þú getur því þá eykur þú áhrif meðferðarinnar. Þú mátt ekki þrýsta á stungusvæðið eða nudda því það gæti valdið því að botoxið fer út í nærliggjandi vöðva sem ekki á að meðhöndla. Einnig er gott að taka því rólega fyrsta sólarhringinn eftir meðhöndlunina og þá sleppa líkamsrækt.
Árangur meðferðarinnar sést ekki strax og botoxið byrjar að virka eftir nokkra daga en getur tekið upp í tvær vikur að ná fullri verkun. Þá kemur þú í endurkomu sem við bókum alltaf strax eftir meðferðartímann til að meta árangurinn og hvort að óskir þínar hafi verið uppfylltar. Sá tími er þér að kostnaðarlausu.
Árangurinn er ekki varanlegur og botoxið virkar í u.þ.b. 3-6 mánuði og þá getur maður endurtekið meðferðina. Algengast er að endurtaka meðferðina tvisvar til þrisvar sinnum á ári.

Hvað kostar botox?

Það er mjög mismunandi eftir því hvaða svæði eru meðhöndluð og hve mörg og ef botox er notað með fylliefnum o.s.frv. en almennt er verðið frá 35.000 kr.

Samsett meðferð með botox og fylliefnum?

Til að fá frískara og úthvíldara útlit notum við oft fylliefni samhliða botox. Fylliefnin eru yfirleitt notuð til að yngja upp húðina, bæta upp vef sem tapast hefur með árunum t.d. eins og kinnar og svæðið á milli nefs og munnviks, til að fylla upp í djúpar hrukkur og stækka varir. Sjá nánar með því að smella á flipann "fylliefni" hér á síðunni.

 • Húðlæknastöðin

  Smáratorg 1,
  201 Kópavogur,
  Iceland

 • Opnunartími

  Alla virka daga
  8:00 - 16:00

  Skiptiborð er opið
  09:00 - 12:00
  13:00 - 15:30

 • Hafa samband

  Sími: 520 4444
  Fax: 520 4400
  Email: timabokun@hls.is
  Laser / Botox / Fylliefni
  Sími: 520 4407 & 520 4412
  Fax: 520 4400
  Email: laser@hls.is

 • Samfélagsmiðlar

© Húðlæknastöðin ehf. - Með notkun á vefnum samþykkir notandi notkunarskilmála hans - Notkunarskilmálar og yfirlýsing um persónuvernd